Dómstóll Evrópusambandsins staðfestir meginhluta tilskipunar ESB um fullnægjandi lágmarkslaun

Dómstóll Evrópusambandsins hefur í máli C-19/23, Danmörk gegn Evrópuþinginu og ráðinu, staðfest meginefni tilskipunar (ESB) 2022/2041 um fullnægjandi lágmarkslaun. Tvö afmörkuð ákvæði voru þó felld úr gildi þar sem þau þóttu ganga lengra en heimildir sambandsins samkvæmt sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins leyfa.

Bakgrunnur málsins

Tilskipunin var sett í því skyni að efla lífskjör og bæta starfsskilyrði á vinnumarkaði aðildarríkja með því að stuðla að sanngjörnum lágmarkslaunum og styrkja kjarasamningsgerð og stöðu samningsaðila. Nokkur ríki, þar á meðal Danmörk, mótmæltu gildi hennar á þeirri forsendu að hún skerti sjálfstæði ríkja til launasetningar og bryti gegn 153. gr. stofnsáttmálans , einkum 5. mgr., þar sem laun, kjarasamningar og verkfallsréttur eru undanskilin löggjafarheimild ESB. Danmörk krafðist þess að tilskipunin yrði felld úr gildi í heild sinni sem ólögmætt inngrip í skipulag vinnumarkaðar og valdsvið aðila vinnumarkaðarins.

Félagafrelsi og sjálfstæði aðila vinnumarkaðarins

Dómstóllinn hafnaði málsástæðu Danmerkur um brot á félagafrelsi. Sérstök áhersla var lögð á að kröfur til ríkja með minna en 80% kjarasamningsbundna vernd, um að setja fram áætlun til að efla kjarasamninga, fælu ekki í sér inngrip í sjálfstæði stéttarfélaga eða samtaka atvinnurekenda. Tilskipunin legði hvorki skyldu á einstaklinga til aðildar að stéttarfélagi né skerðingar á samningsfrelsi aðila vinnumarkaðarins, heldur miði fyrst og fremst að því að tryggja hagstæð skilyrði fyrir kjarasamningsgerð.

Afmörkun á valdsviði ESB á sviði launamála

Dómstóllinn áréttaði að löggjafarvald ESB nái til félagslegra réttinda og starfskjara, en ekki til þess að ákveða eða stýra launaviðmiðum með bindandi hætti. Markmið tilskipunarinnar sé að tryggja lágmarksviðmið um aðferðir og ramma aðildarríkja við ákvörðun lágmarkslauna, án þess að setja tiltekin launaviðmið eða skerða samningsfrelsi aðila.

Meginhluti tilskipunarinnar félli því innan heimilda sambandsins.

Ákvæði sem voru felld úr gildi

Tvö ákvæði tilskipunarinnar voru talin skorta fullnægjandi lagastoð:

  1. Skylda til að byggja lögbundin lágmarkslaun á tilteknum viðmiðum
    Tilskipunin tilgreindi að ríki með lögbundin lágmarkslaun skyldu byggja ákvarðanir sínar á ákveðnum efnahagslegum viðmiðum, m.a. kaupmætti, almennu launastigi og framleiðni. Dómstóllinn taldi að slíkt jafngilti samræmingu viðmiða sem hefðu bein áhrif á lágmarkslaun og fælu þar með í sér óheimila íhlutun í launasetningu aðildarríkja.
  2. Bann við lækkun lágmarkslauna vegna vísitölutengingar
    Í tilskipuninni var kveðið á um að sjálfvirk vísitölutenging mætti ekki leiða til lækkunar á lögbundnum lágmarkslaunum. Dómstóllinn mat þetta sem takmörkun á því hvernig innlend kerfi gætu virkað og sem óheimila íhlutun í launasetningu.

Áhrif hér á landi

Tilskipunin hefur verið til skoðunar með tilliti til upptöku í EES-samninginn og má búast við að dómurinn marki skýrari ramma fyrir næstu skref.

Mat BHM hefur frá upphafi verið að áhrif tilskipunarinnar hér á landi séu takmörkuð, enda eru kjarasamningar hér á landi almennt bindandi fyrir allt launafólk og atvinnurekendur á bæði almenna markaðinum og hjá hinu opinbera. Tilskipunin skerðir ekki samningsfrelsi aðila né breytir fyrirkomulagi kjarasamninga.

Í Danmörku, þar sem málið hófst, er staðan hins vegar önnur. Þar hafa stéttarfélög lagt ríka áherslu á að vernda ólögbundið en rótgróið kerfi frjálsrar kjarasamningsgerðar og hafna inngripum stjórnvalda eða ESB í fyrirkomulag við ákvörðun launa.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt