Leikskólinn er lykill að jafnrétti 

BHM leggur áherslu á að umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla verði byggðar á heildstæðri framtíðarsýn, en ekki aðeins viðbrögðum við bráðavanda.

Í umsögn BHM um tillögur Reykjavíkurborgar vegna mönnunarvanda leikskóla kemur fram að fyrirliggjandi tillögur virðast fyrst og fremst viðbragð við skorti á starfsfólki en ekki meðvituð stefnumótun til framtíðar.

Það er engum blöðum um það að fletta að leikskólakerfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum. En ef við ætlum að tryggja faglegt og stöðugt leikskólastarf til framtíðar, verðum við að byggja ákvarðanir á traustri greiningu, samráði og mati á áhrifum á jafnrétti, atvinnuþátttöku og hag barna.

Samspil dvalartíma barna og atvinnuþátttöku foreldra

BHM mótmælir tillögum um að stytta vistunartíma barna í leikskólum sem úrræði til að mæta rekstrar- eða mönnunarvanda skólanna. Aðgerðir, sem hvetja foreldra til að stytta dvalartíma barna sinna á leikskólum með fjárhagslegum hvötum, hljóta að orka tvímælis. En þó horft sé fram hjá þeim þætti málsins, þá eru aðgerðirnar einar og sér líklegar til að hafa neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku foreldra – einkum kvenna, sem grefur undan markmiðinu um jafnrétti á vinnumarkaði.

Engin greining liggur fyrir á vilja eða getu foreldra til að stytta dvalartíma barna sinna. BHM varar við að ákvarðanir séu teknar án traustra gagna og bendir á að áhrifin muni óhjákvæmilega koma ójafnt niður eftir efnahag og fjölskylduaðstæðum.

Laun og starfsumhverfi lykill að lausn

Ef bæta á náms- og starfsumhverfi leikskólanna verður að byrja á rót vandans. Í þeim efnum er nauðsynlegt að horfa á kjör alls starfsfólks leikskólanna og starfsaðstæðurnar sem því eru skapaðar. Það þarf að fjölga stöðugildum, efla faglegt starf og tryggja að menntaðir leikskólakennarar séu í forystu faglegs starfs.

BHM tekur undir með Félagi leikskólakennara um að stytting vinnuvikunnar verði ekki framkvæmd án þess að fjölga stöðugildum og efla faglegt starf í leikskólum.
Einnig sé mikilvægt að virða lögbundið hlutfall menntaðra kennara í leikskólum og viðurkenna mikilvægt framlag annarra faghópa, svo sem þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, táknmálstúlka og sálfræðinga, sem sinna börnum með fjölbreyttar þarfir.

Brúa þarf umönnunarbilið

Ekki má gleyma því að margir foreldrar lenda í umönnunarbili, sem erfitt reynist að brúa, þegar fæðingarorlofi lýkur en barn fær ekki leikskólavist fyrr en mánuðum síðar. Þetta bil hefur áhrif á tekjur, atvinnuþátttöku og jafnrétti kynjanna – og er stórt samfélagsmál.


BHM tekur þátt í vinnu fjölskipaðs starfshóps, sem leitar leiða til að brúa þetta umönnunarbil með skilvirkum og framkvæmanlegum hætti. Tillögur hópsins eru í vinnslu þar sem leitast er við að finna leiðir sem taka á öllum þáttum þessa flókna úrlausnarefnis.

Verum minnug þess að leikskólinn er einn af hornsteinum menntunar og velferðar í samfélagi okkar og lykill að jafnrétti í víðum skilningi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt