Metfjöldi í þjónustu hjá VIRK og ný tækifæri fram undan

Á fulltrúaráðsfundi VIRK sem haldinn var í gær, 30. september, var fjallað um stöðu og framtíð starfsendurhæfingar og forvarnarþjónustu í ljósi nýs örorkulífeyriskerfis.

Nú eru rúmlega 3.000 einstaklingar í þjónustu hjá VIRK – sem er metfjöldi – og um 650 umsóknir eru í vinnslu. Nýliðun hefur aukist um 18% frá sama tíma í fyrra. Biðtími er 3 - 4 mánuðir, en hann hefur styst á síðustu vikum. Þróun er í gangi á tveimur meginsviðum: nýju örorkulífeyriskerfi sem veitir aukinn sveigjanleika og aukinni áherslu á forvarnarstarf.

Ung VIRK – þjónusta fyrir ungt fólk í viðkvæmri stöðu

Ung VIRK er sérsniðin þjónustuleið fyrir einstaklinga á aldrinum 16–29 ára. Þessi hópur hefur alla jafna lokið grunnskólaprófi eða minna, er oft félagslega einangraður, glímir við slitrótta náms- og starfsögu og fjölþættan vanda. Nauðsynlegt er að auka þjónustu við þennan hóp með það að markmiði að opna viðeigandi tækifæri á vinnumarkaði.

Áhrif COVID voru mikil á fjölda þeirra sem sótti í Ungt VIRK, en nú hefur orðið aukning á ný. Meðaltími í þjónustu er 12–18 mánuðir. Í vetur verður farið í vitundarvakningu í samstarfi við Hvíta húsið, með áherslu á samfélagsmiðla, til að kynna Ung VIRK fyrir ungu fólki.

Nýtt örorkulífeyriskerfi breytir forsendum

Nýtt örorkulífeyriskerfi hefur tekið gildi og felur í sér meiri áherslu á starfsendurhæfingu en áður, auk hlutaörorku og virknistyrks sem bjóða upp á sveigjanleika. Þetta skapar ný tækifæri fyrir þá sem útskrifast úr starfsendurhæfingu og vilja hefja störf í hlutastarfi. Þá er komið á fót samþætt sérfræðimat, byggt á ICF-kerfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um færni, fötlun og heilsu.

Markmiðið er að efla virkni, bæta kerfið og auka þátttöku á vinnumarkaði. Heildaráhrif fyrir VIRK eru þó óljós, en búast má við aukinni eftirspurn og aukinni þörf fyrir úrræði. Til að bregðast við hefur VIRK ráðið fleiri ráðgjafa og atvinnulífstengla. Mikilvægt er að fylgjast vel með áhrifum þessara kerfisbreytinga og bregðast við ef upp koma vandamál eða ef markmiðum er ekki náð.

Snemmtæk íhlutun og kulnun í brennidepli

Í umræðum kom fram að mikilvægt sé að stíga fyrr inn til að liðsinna þeim sem þarfnast starfsendurhæfingar og stytta biðtíma til að auka líkurnar á endurkomu á vinnumarkað. Þó þarf að gæta þess að ganga ekki of hratt fram og meta aðstæður hvers og eins. Einnig var rætt um mikilvægi aukins sveigjanleika í þágu þeirra sem hentar að vinna hlutastörf. Kulnun í starfi og álagstengd streita voru sérstaklega nefnd sem vaxandi vandamál auk undirliggjandi áfalla á lífsleiðinni á borð við andlegt eða líkamlegt ofbeldi.

Forvarnir og nýtt samstarfsverkefni

Forvarnarstarf VIRK er í vaxandi hlutverki og beinist að einstaklingum, vinnustöðum og stjórnendum. Markmiðið er að efla vinnugetu og draga úr brotthvarfi af vinnumarkaði. Nýr vefur, velvirk.is, verður gerður aðgengilegur 23. október næstkomandi og mun bjóða upp á aðgengilega fræðslu, verkfæri og gervigreindarlausnir sem nýtast bæði einstaklingum og vinnustöðum.

Einnig var kynnt þróunarverkefni með Vinnumálastofnun fyrir þá sem hafa verið lengur en 12 mánuði á atvinnuleysisbótum. Þar fá þátttakendur tækifæri til að sækja sérhæfð námskeið með áherslu á sjálfstraust, áhugahvöt og jákvætt viðhorf til atvinnuleitar. Verkefnið er átta vikur með 2 - 3 viðburðum á viku og er fyrst ætlað 30 - 45 ára einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu með jafna kynjadreifingu. Markmiðið er að koma í veg fyrir heilsubrest með markvissri forvarnarþjónustu.

Samvinna lykilatriði fram í tímann

Fundurinn undirstrikaði að VIRK stendur frammi fyrir aukinni eftirspurn, nýjum tækifærum og áskorunum vegna breytinga á örorkulífeyriskerfinu. Lykilatriði til framtíðar eru snemmtæk starfsendurhæfing, öflug forvarnarvinna, betri tenging milli aðila velferðarkerfisins og aukinn sveiganleiki hvað varðar vinnutíma, t.d. í kjarasamningum. Samvinna er grundvöllur árangurs og lykill að því að auka vinnugetu og lífsgæði fólks til framtíðar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt