Ný rannsókn varpar ljósi á aðstæður kvenna með örorkulífeyri

Á málþingi sem haldið var þriðjudaginn 20. ágúst, voru kynntar niðurstöður samanburðarrannsóknar Félagsvísindastofnunar HÍ á reynslu og aðstæðum kvenna með örorkulífeyri. Rannsóknin var unnin fyrir Tryggingastofnun í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Velferðarvaktina og Vinnueftirlitið.

Markmið rannsóknarinnar var að afla aukinnar þekkingar á því hvers vegna konur, 50–66 ára, eru líklegri en karlar til að fá örorkulífeyri. Í rannsókninni voru borin saman svör kvenna með örorkulífeyri og kvenna í almennu þýði á sama aldri, auk samanburðar milli kynja innan hópsins sem fær örorkulífeyri.

Rannsóknin sýnir að konur á aldrinum 50–66 ára sem fá örorkulífeyri búa oftar við fjárhagslegt og húsnæðislegt óöryggi, hafa lægri menntun og tekjur og standa einar að umönnun barna. Þær hafa oftar orðið fyrir ofbeldi, bæði í æsku og á fullorðinsárum, og starfað við krefjandi vinnuaðstæður í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Niðurstöðurnar benda til þess að samverkandi áhrif ofbeldis, áfalla, umönnunarbyrði, vinnuaðstæðna og skorts á öryggi í húsnæðis- og fjármálum hafi veruleg áhrif á þróun örorku.

Brýn þörf á aðgerðum í þágu öryggis og velferðar kvenna

Á málþinginu kom skýrt fram að þessar niðurstöður eru alvarlegar og kalla á aðgerðir stjórnvalda. Sérstaklega var bent á samverkandi áhrif ofbeldis, þungrar umönnunarbyrði, fjárhagslegs og húsnæðislegs óöryggis og krefjandi vinnuaðstæðna við þróun örorku.

Lögð var áhersla á að brýnt væri að stjórnvöld bregðist við með heildstæðum aðgerðum: stöðvi ofbeldi og efli forvarnir, styrki stuðning við foreldra, bæti vinnuvernd og skipulag vinnu, tryggi öruggt húsnæði og efli endurhæfingu.

BHM tekur undir mikilvægi þess að nýta niðurstöðurnar til að móta samstilltar aðgerðir sem stuðla að öryggi og bættum kjörum kvenna á vinnumarkaði og í samfélaginu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt