
Markmið rannsóknarinnar var að afla aukinnar þekkingar á því hvers vegna konur, 50–66 ára, eru líklegri en karlar til að fá örorkulífeyri. Í rannsókninni voru borin saman svör kvenna með örorkulífeyri og kvenna í almennu þýði á sama aldri, auk samanburðar milli kynja innan hópsins sem fær örorkulífeyri.
Rannsóknin sýnir að konur á aldrinum 50–66 ára sem fá örorkulífeyri búa oftar við fjárhagslegt og húsnæðislegt óöryggi, hafa lægri menntun og tekjur og standa einar að umönnun barna. Þær hafa oftar orðið fyrir ofbeldi, bæði í æsku og á fullorðinsárum, og starfað við krefjandi vinnuaðstæður í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Niðurstöðurnar benda til þess að samverkandi áhrif ofbeldis, áfalla, umönnunarbyrði, vinnuaðstæðna og skorts á öryggi í húsnæðis- og fjármálum hafi veruleg áhrif á þróun örorku.