
Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM ávarpar gesti á aðalfundi BHM 15. maí 2025.
Stefnan undirstrikar mikilvægi háskólamenntaðs fólks í mótun samfélags sem byggir á þekkingu, nýsköpun, verðmætasköpun og sjálfbærni. Þekking og menntun eru ekki aðeins lykilatriði fyrir einstaklinginn heldur forsenda framfara fyrir samfélagið í heild. Á stefnumótunarþingi BHM, sem haldið var 20. febrúar síðastliðinn, var samþykkt ný og heildstæð stefna sem mótar framtíðarsýn bandalagsins fyrir næstu ár.
Í stefnunni er lögð áhersla á réttindi og kjör háskólamenntaðra, með áherslu á að laun og starfsskilyrði endurspegli menntun, ábyrgð og framlag til samfélagsins. Jafnframt er skýr krafa gerð um réttláta húsnæðisstefnu sem tekur mið af sérstöðu háskólamenntaðra sem hefja tekjuöflun síðar en aðrir.
Menntamál í forgrunni
Menntamál eru í forgrunni stefnunnar þar sem BHM leggur áherslu á að efla háskólastigiðn og að meta menntun til launa, tryggja fjármögnun rannsókna og nýsköpunar, og stuðla að jöfnu aðgengi að menntun óháð félagslegum aðstæðum. Bandalagið krefst þess að námslánaskuldir verði metnar í samhengi við lífskjör og réttindi á vinnumarkaði og að námsstyrkjakerfi Menntasjóðs námsmanna verði efld sem raunverulegur félagslegur jöfnunarsjóður.
Stefnan felur einnig í sér skýra sýn í velferðar- og umhverfismálum, þar sem áhersla er lögð á verndun loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni við alla ákvörðunartöku. Þar berum við öll ábyrgð, stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar. BHM leggur sérstaka áherslu á virka þátttöku háskólamenntaðs fólks í mótun sjálfbærs samfélags og grænna umskipta.
„Með nýrri stefnu leggjum við grunn að réttlátara og sterkara samfélagi þar sem menntun og þekking fá að njóta sín,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM. „Við köllum eftir því að stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar taki höndum saman með BHM til að tryggja framtíð háskólamenntaðra og efla íslenskt þekkingarsamfélag.“
Stefna BHM er unnin í víðtæku samráði innan bandalagsins og markar mikilvægt skref í baráttunni fyrir auknum jöfnuði, sjálfbærni og virðingu fyrir faglegu framlagi háskólamenntaðs fólks í íslensku samfélagi.