
Háskólamenntað fólk er kjölfesta í nútímasamfélagi – það stuðlar að nýsköpun, verðmætasköpun og sjálfbærni. Þekking og menntun eru ekki aðeins lykilatriði fyrir einstaklinginn heldur forsenda framfara fyrir samfélagið í heild. BHM krefst þess að stefna stjórnvalda og atvinnulífs sé mótuð með hagsmuni háskólamenntaðra í huga og að starfsumhverfi þeirra sé aðlaðandi og samkeppnishæft.
Alþjóðleg samkeppni um störf háskólamenntaðra hefur aldrei verið harðari. Ísland þarf að vera eftirsóttur staður fyrir fólk með sérfræðiþekkingu og tryggja samkeppnishæf kjör, gott starfsumhverfi og raunhæf tækifæri til starfsþróunar. Nýliðun í háskólamenntuðum stéttum verður aðeins tryggð ef við bætum kjör, starfsöryggi og menntakerfið sjálft.
Samstarf við stjórnvöld
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að menntamál, nýsköpun og starfsþróun séu sett í forgang. Það er jákvætt skref – en án raunverulegra aðgerða verður það bara orðin tóm!
BHM leggur til að unnið verði að:
- Markvissri fjármögnun háskólastigsins til að tryggja gæði menntunar og rannsókna.
- Úrbótum á námslána- og styrkjakerfinu til að létta byrði námsmanna.
- Skýrri stefnu um starfsþróun og endurmenntun háskólamenntaðra.
- Auknu samstarfi við atvinnulífið um framtíðarþarfir vinnumarkaðarins.
Háskólamenntaðir einstaklingar eru lykillinn að framtíðarsamfélagi sem byggir á þekkingu, sjálfbærni og framþróun.
Stefna BHM 2025
Hér getur þú nálgas stefnu BHM fyrir árið 2025 í .pdf formi.