Evrópskir aðilar vinnumarkaðarins á vettvangi sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu, menntunar, hótel- og veitingageira og stjórnvalda samþykktu hinn 6. maí 2025 uppfærðar sameiginlegar leiðbeiningar um það hvernig megi fyrirbyggja og bregðast við ofbeldi og áreitni af hálfu þriðja aðila á vinnustöðum.
Hvað felst í hugtakinu „þriðji aðili“?
Í leiðbeiningunum vísar hugtakið „þriðji aðili“ til einstaklinga eða hópa sem standa utan vinnustaðarins sjálfs en koma þar við sögu, svo sem viðskiptavina, sjúklinga, þjónustuþega, nemenda eða foreldra, almennings eða þjónustuveitenda. Ofbeldi og áreitni af hálfu þriðja aðila getur átt sér stað í tengslum við eða vegna vinnu, hvort sem er í líkamlegu eða stafrænu umhverfi, á opinberum vettvangi eða einkasvæði, svo lengi sem það tengist starfsskyldum viðkomandi starfsmanns.
Leiðbeiningarnar byggja á alþjóðlegum viðmiðum, þar á meðal samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190 um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni í heimi vinnunnar. Þær endurspegla einnig breyttar aðstæður í kjölfar heimsfaraldursins og vaxandi áskoranir tengdar öryggi starfsfólks í framlínuþjónustu.
Markmið leiðbeininganna er að stuðla að öruggum og virðingarríkum vinnustöðum með því að tryggja:
- alhliða áhættumat á heilsu og öryggi starfsfólks,
- skýra tilkynninga- og kvörtunarferla,
- virk félagsleg skoðanaskipti milli starfsfólks og stjórnenda.
Atvinnurekendur og stéttarfélög í aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES hafa skuldbundið sig til að kynna og innleiða leiðbeiningarnar innanlands og fella þær inn í framtíðarkjarasamninga.
BHM fagnar þessari þróun og hvetur stjórnvöld til að nýta sér leiðbeiningarnar sem tæki til að styrkja vernd starfsfólks, ekki síst þeirra sem vinna í beinum samskiptum við almenning.
Tengdar færslur
20. nóvember 2025Ný heimasíða Ung Virk: Samspil endurhæfingar og menntunar
19. nóvember 2025Mun húsnæðispakkinn hækka leigu og þar með verðbólguna?
18. nóvember 2025Dómstóll Evrópusambandsins staðfestir meginhluta tilskipunar ESB um fullnægjandi lágmarkslaun
17. nóvember 2025Fréttabréf BHM - nóvember 2025
14. nóvember 2025Hefjumst handa við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna
13. nóvember 2025Að búa við öryggi – ekki óvissu og skuldir
