
Yfirlýsing
Við undirrituð félög heilbrigðisstarfsfólks, sem komum fram fyrir hönd þeirra sem starfa sjálfstætt um land allt: tannlækna, sjúkraþjálfara, sérgreinalækna, sálfræðinga, ljósmæðra og talmeinafræðinga, mótmælum harðlega þeim áformum sem nú liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, einkum hvað varðar 38. gr. núgildandi laga nr. 112/2008, sem fjallar um þátttöku í kostnaði þegar samningar eru lausir.
Framkvæmd þessara áforma myndi fela í sér óheimilt inngrip í samningsfrelsi og atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks og yrði fordæmalaust valdaframsal til Sjúkratrygginga. Með breytingunum er m.a. gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar geti einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga, jafnframt því sem þjónustuveitendum yrði bannað að innheimta gjöld af sjúklingum þegar greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.
Þessi áform stjórnvalda eru með öllu óásættanleg enda fela þau í sér brot á grundvallarrétti félaga heilbrigðisstarfsfólks til að semja á jafnræðisgrunni fyrir hönd síns félagsfólks við Sjúkratryggingar.
Frumvarpsdrögin bera þess merki að hafa verið unnin án nokkurs samráðs við þau sem hagsmuna eiga að gæta, án skilnings á rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi aðila og án virðingar fyrir sjálfstæði og faglegri sérþekkingu heilbrigðisstétta. Undirrituð telja að boðaðar takmarkanir á rekstrarformi séu ekki til hagsbóta fyrir almenning og muni auka kostnað hins opinbera.
Að auki fela þau í sér auknar valdheimildir Sjúkratrygginga, þar á meðal um gagnaöflun og vinnslu, sem vekur alvarlegar spurningar um persónuvernd og trúnaðarsamband heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga þeirra.
Við krefjumst þess eindregið að þessi hluti áforma um breytingar á lögum um sjúkratryggingar verði strax dregin til baka og að málið verði unnið frá grunni í raunverulegu samráði við fulltrúa þeirra stétta sem í hlut eiga.
Við munum beita öllum lögmætum úrræðum til að vernda rétt sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks til samningsfrelsis, faglegs sjálfstæðis og eðlilegra starfsskilyrða.
Óvissa ríkir um áhrif þessarar lagasetningar á gildandi samninga.
Fyrir hönd félaga sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks sem eru með samning við Sjúkratryggingar.
Ragnar Freyr Ingvarsson - Læknafélag Reykjavíkur
Gunnlaugur Már Briem – Félag sjúkraþjálfara
Fríða Bogadóttir – Tannlæknafélag Íslands
Pétur Maack – Sálfræðingafélag Íslands
Unnur Berglind Friðriksdóttir – Ljósmæðrafélag Íslands
Linda Björk Markúsardóttir – formaður kjaradeildar Talmeinafræðinga (Viska)