Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir, hagfræðingur og meistaranemi í Policy Economics við Erasmus-háskólann í Rotterdam, kynnti í dag niðurstöður nýrrar rannsóknar sem hún vann að beiðni Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Rannsóknin byggir á gögnum Ríkisskattstjóra og sýnir að barneignir hafa mikinn og varanlegan neikvæðan áhrif á tekjur kvenna en engin sambærileg áhrif á tekjur karla.
Samkvæmt niðurstöðum lækka tekjur kvenna um nær 30% á fæðingarári og um 50% þegar barnið er eins árs. Tekjumissirinn helst til langs tíma og er að meðaltali 34,5% tíu árum eftir fæðingu, samanborið við tekjur karla.
Rannsóknin sýnir einnig að einstæðar mæður, yngri mæður og konur utan höfuðborgarsvæðisins verða fyrir mestum tekjumissi. Þrátt fyrir að áhrifin hafi minnkað á síðustu árum er tekjumissi kvenna á Íslandi meiri en í flestum nágrannalöndum Norðurlanda.
Í erindi sínu sem Una flutti í dag á fundi með fulltrúum aðildarfélaga BHM fjallaði hún um mögulegar skýringar á niðurstöðunum og dró fram mikilvægi dagvistunarúrræða, ríkjandi félagslegra viðhorfa og stöðu kvennastarfa á vinnumarkaði. Hún undirstrikaði að tekjumissir kvenna í kjölfar barneigna geti haft veruleg áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði til lengri tíma, þar á meðal á ávinnslu lífeyrisréttinda.
Að lokum beindi hún því til fundargesta að velta fyrir sér hvort ásættanlegt sé að konur beri meginþungan af þeim kostnaði sem uppeldi barna hefur á vinnumarkaðstengsl og tekjuþróun.
Tengdar færslur
20. nóvember 2025Ný heimasíða Ung Virk: Samspil endurhæfingar og menntunar
19. nóvember 2025Mun húsnæðispakkinn hækka leigu og þar með verðbólguna?
18. nóvember 2025Dómstóll Evrópusambandsins staðfestir meginhluta tilskipunar ESB um fullnægjandi lágmarkslaun
17. nóvember 2025Fréttabréf BHM - nóvember 2025
14. nóvember 2025Hefjumst handa við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna
13. nóvember 2025Að búa við öryggi – ekki óvissu og skuldir

