Tungu­mála­kunnátta í heilbrigðis­þjónustu 

Tungumálakunnátta er forsenda öruggra og árangursríkra samskipta í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld og fagfélög heilbrigðisstétta hafa lýst því yfir að í ákveðnum störfum heilbrigðisstarfsfólks sé bæði lögmætt og nauðsynlegt að gera kröfur um kunnáttu í íslensku, einkum þegar um er að ræða náin samskipti við sjúklinga, aðstandendur og samstarfsfólk.

Slíkar kröfur eiga sérstaklega við um hjúkrunarfræðinga, lækna, ljósmæður og aðrar starfsstéttir í framlínu heilbrigðisþjónustunnar, sem þurfa að geta skilið og miðlað mikilvægum upplýsingum, brugðist við óvæntum aðstæðum og unnið náið með öðru fagfólki. Í slíkum tilvikum eru góð og nákvæm samskipti ekki einungis fagleg krafa, heldur einnig lykilatriði í öryggi sjúklinga og siðferðislegri ábyrgð heilbrigðisstarfsins.

BHM tekur undir þau skilaboð sem fram koma í ályktun aðalfundar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um mikilvægi tungumálakunnáttu í heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld geta ekki opnað vinnumarkaðinn fyrir erlent fagfólk í heilbrigðisþjónustu nema um leið sé fjárfest í markvissri tungumálakennslu. Landspítalinn og ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir hafa stigið ákveðin skref í þá átt, en ljóst er að gera þarf meira.

Meta þarf tungumálakröfur út frá eðli starfsins

Í lögum og reglugerðum kemur fram að heimilt sé að setja skilyrði um íslenskukunnáttu sem hluta af skilyrðum fyrir starfsleyfi. Hins vegar er mikilvægt að slíkar kröfur séu málefnalegar og í samræmi við eðli viðkomandi starfs. Ekki er sjálfgefið að öll störf í heilbrigðisþjónustu kalli á samskipti við sjúklinga eða almenning, því þarf að skoða kröfurnar um íslenskukunnáttu í samhengi við raunveruleg verkefni viðkomandi.

Óhóflegar kröfur um tungumálakunnáttu, sem hamla að óþörfu aðgengi erlendra sérfræðinga að störfum, geta farið gegn lögum um jafna meðferð og talist óbein mismunun. Það á sérstaklega við um sérfræðinga frá EES-ríkjum, en Ísland er bundið af reglum aðildarríkjanna, sem heimila að gerðar séu hóflegar og réttmætar tungumálakröfur svo lengi sem þær varða markmið um öryggi og gæði þjónustu.

Stjórnvöld gegna lykilhlutverki í aðlaðandi og öruggu starfsumhverfi

Til að mæta brýnni mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins þurfa stjórnvöld að axla ábyrgð og fjárfesta í markvissum tungumálanámskeiðum og stuðningsúrræðum fyrir erlent heilbrigðisstarfsfólk. Það er liður í að byggja tungumálabrú milli menntaðra fagaðila innan kerfisins í þágu öryggis, gæða þjónustunnar og inngildingar erlendra sérfræðinga í íslenskt samfélag. Það er einnig forsenda þess að Ísland geti laðað til sín og haldið í það fjölbreytta og mikilvæga starfsfólk sem hingað vill koma og vaxandi heilbrigðiskerfi þarfnast.

Stöndum saman um örugg, skýr og ábyrg samskipti í heilbrigðiskerfinu og vöndum til verka án þess að útiloka fólk að óþörfu frá vinnumarkaði. Tryggt aðgengi að tungumálanámi og aðlögun stuðlar að raunverulegum árangri og réttlátri þátttöku í íslensku samfélagi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt