

Yfirlit formanns
Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar og annasamar hjá BHM, bæði innan okkar raða og í samfélaginu almennt, og verkefnin halda áfram.
Við fögnum því að nýr orlofsvefur Orlofssjóðs BHM er kominn í loftið. Þar með er stigið stórt skref í átt að nútímalegri þjónustu og betra aðgengi fyrir félagsfólk. Samhliða hefur nýtt fyrirkomulag og einfaldara verklag tekið gildi.
Lífeyris- og lánanefnd BHM og LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta hafa undirritað samning um samstarfsverkefni þar sem greind verða áhrif greiðslubyrði ólíkra námslána úr báðum kerfum, LÍN og MSNM. Þetta er mikilvægt skref í áframhaldandi baráttu fyrir réttlátu og félagslega sanngjörnu námslánakerfi sem styður við jöfnuð og framtíð þjóðarinnar.
Við höfum einnig tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni, meðal annars með greinum um húsnæðismál og jafnrétti á vinnumarkaði. Þá hafa BHM og LÍS einnig staðið saman að greinum um námslánakerfið, þar sem fagnað er mikilvægu framfaraskrefi en jafnframt bent á að enn sé þörf á frekari umbótum til að tryggja sanngjarnt og sveigjanlegt kerfi fyrir fjölbreyttan hóp námsmanna. Í þessum málum höfum við lagt áherslu á öryggi, félagslegt réttlæti og nauðsyn raunverulegra lausna – því öll eigum við rétt á öruggu heimili og sanngjörnum kjörum.
Fram undan er hátíðartími – en einnig tími ákvarðana og undirbúnings fyrir nýtt ár. BHM heldur áfram að vinna ötullega að hagsmunum félagsfólks aðildarfélaganna, standa vörð um réttindi og styðja við faglegt starf og velferð.
Það er einmitt samstaðan sem gerir okkur sterk. Nú förum við inn í aðventuna með kraft, kjark og trú á það að saman getum við haft áhrif.

Nýr Orlofsvefur og nýjar verklagsreglur
Nýr vefur Orlofssjóðs BHM er kominn í loftið. Vegna gagnaflutnings þurfti að loka gamla vefnum mánudaginn 10. nóvember í hádeginu og opnaði nýr vefur í gær, 13. nóvember.
Nýtt bókunartímabil opnaði fimmtudaginn 13. nóvember kl. 12:00 að hádegi. Nú er opið fyrir bókanir á tímabilinu 6. janúar til 2. júní, að páskum undanskildum.
Þökkum fyrir þolinmæðina.
Orlofssjóður BHM þakkar félagsfólki fyrir skilning og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem tafirnar kunnu að valda. Sjóðurinn vinnur markvisst að því að tryggja góðan aðgang að þjónustunni á nýjum vef.
Nýjar verklagsreglur
Undanfarin misseri hefur stjórn Orlofssjóðs unnið að breytingu á verklagsreglum sjóðsins. Síðastliðið vor samþykkti fulltrúaráð að afnema svokallað punktakerfi sem notast hefur verið við um nokkurt skeið. Sú breyting hefur nú tekið gildi. Viðmið um fjölda punkta við nýtingu orlofskosta og gjafabréfa á því ekki lengur við.
Sjóðsaðild byggir á því að greitt sé til sjóðsins mánaðarlegt framlag sem er 0,25% af heildarlaunum og greiða þarf minnst í 3 mánuði samfellt til að teljast virkur sjóðfélagi.
Úthlutun
Með nýju fyrirkomulagi er ekki nýst við punkta og á úthlutunartímabilum er öllum eignum orlofssjóðsins úthlutað með 100% slembivali. Orlofskerfið velur af handahófi úr umsóknum.
Við úthlutun getur sjóðfélagi ekki leigt orlofskost næstu 2 ár, vegna sams konar tímabils, eftir að hafa fengið úthlutað. Úthlutuð leiga um páska hefur því ekki áhrif á sumarúthlutun og öfugt.
Úthlutunartímabil eru:
· Páskar: Frá og með miðvikudegi fyrir páska í eina viku.
· Sumar: Frá fyrsta fimmtudegi í júní í 11 vikur. Hver bókun er vegna vikuleigu. Skiptidagar eru á fimmtudögum.
Vetrartímabil
Utan úthlutunartímabila eru svokölluð vetrartímabil, þar sem opnað er fyrir bókanir yfir lengra tímabil og sjóðfélagar geta bókað um leið, þ.e. ekki er úthlutað.
Hámark tvær bókanir eru á hvern sjóðfélaga yfir vetrartímabilið - utan úthlutunartímabila á hverju almanaksári:
· 1 bókun frá lok sumars til ársloka
· 1 bókun frá upphafi árs að upphafi sumars (að páskum aðskildum)

LÍS rannsakar áhrif nýja námslánakerfisins í samstarfi við BHM

Leikskólinn er lykill að jafnrétti

Bætt staða stúdenta – en verkefninu ekki lokið

Að búa við öryggi – ekki óvissu og skuldir

Landréttur staðfestir brot á jafnlaunareglu

Heimurinn er hér – samfélag í mótun: Hvert stefnum við?

Vel sótt trúnaðarmannanámskeið BHM
Trúnaðarmannanámskeið sem BHM stóð fyrir í síðustu viku vöktu frábærar undirtektir. Um 40 manns sóttu námskeiðin, langflestir á staðnum en einnig í gegnum Teams. Áhersla var lögð á hagnýta fræðslu og verkfæri í starfi trúnaðarmanna.
Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM, og Ingvar Sverrisson, sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM, fóru yfir helstu réttindi, hlutverk og verkferla trúnaðarmanna. Þá hélt markþjálfinn Lella Erludóttir erindi um árangursrík samskipti sem hlaut góðar viðtökur.
Trúnaðarmenn gegna lykilhlutverki bæði fyrir starfsmenn og stéttarfélög, og markmiðið með námskeiðunum er að styrkja þau í því mikilvæga starfi.
Hvert er hlutverk trúnaðarmanns?
Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað og tengiliður bæði milli samstarfsfólks og vinnuveitanda og milli vinnuveitanda og stéttarfélags. Trúnaðarmaður skal skila til stéttarfélagsins þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu eða kosningu til að hljóta staðfestingu og njóta þar með verndar í starfi. Stjórn og starfsmenn stéttarfélags styðja trúnaðarmenn í erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað. Hlutverk og skyldur geta verið mismunandi milli stéttarfélaga og því mikilvægt að vera í góðu sambandi við sitt félag.
Helstu verkefni trúnaðarmanns felast í því að fylgja eftir að atvinnurekandi virði ákvæði kjarasamninga, laga og reglugerða og grípa til viðeigandi aðgerða ef á þarf að halda. Hann tekur við umkvörtunum starfsmanna og talar þeirra máli gagnvart atvinnurekanda, miðlar upplýsingum milli félagsmanna og stéttarfélagsins og kynnir stefnu og verkefni félagsins.
BHM þakkar þátttakendum fyrir frábæra mætingu og lifandi umræður og hvetur félagsfólk sem hefur áhuga á að taka að sér trúnaðarmannahlutverk að hafa samband við sitt stéttarfélag.

Áhugaverð skýrsla um embættismannakerfið

Nýtt þjónustu- og umsóknarkerfi BHM mun auka skilvirkni og yfirsýn
BHM ásamt sjóðum bandalagsins hófu nýverið samstarf við Arango, fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf og innleiðingu á CRM lausnum í Microsoft umhverfi. Ætlunin er að á næsta ári hafi skrifstofa og þjónustuver BHM innleitt slíka lausn sem nær yfir þjónustu og samskipti við hagaðila. Samhliða er unnið að smíði kerfis sem heldur utan um yfirsýn, yfirferð og afgreiðslu umsókna í sjóði BHM. Með þeirri lausn má ætla að sú vinna verði enn skilvirkari og sveigjanlegri. Félagsfólk mun áfram senda inn umsóknir í gegnum Mínar síður, með þeim umbótum sem þessum breytingum fylgir.
Með nýjum og spennandi leiðum er markmiðið að bæta enn frekar upplýsingagjöf og samskipti við sjóðfélaga.


