Fréttabréf BHM - nóvember 2025

Línan - Fréttabréf BHM
Línan - Fréttabréf BHM

Yfirlit formanns

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar og annasamar hjá BHM, bæði innan okkar raða og í samfélaginu almennt, og verkefnin halda áfram.

Við fögnum því að nýr orlofsvefur Orlofssjóðs BHM er kominn í loftið. Þar með er stigið stórt skref í átt að nútímalegri þjónustu og betra aðgengi fyrir félagsfólk. Samhliða hefur nýtt fyrirkomulag og einfaldara verklag tekið gildi.

Lífeyris- og lánanefnd BHM og LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta hafa undirritað samning um samstarfsverkefni þar sem greind verða áhrif greiðslubyrði ólíkra námslána úr báðum kerfum, LÍN og MSNM. Þetta er mikilvægt skref í áframhaldandi baráttu fyrir réttlátu og félagslega sanngjörnu námslánakerfi sem styður við jöfnuð og framtíð þjóðarinnar.

Við höfum einnig tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni, meðal annars með greinum um húsnæðismál og jafnrétti á vinnumarkaði. Þá hafa BHM og LÍS einnig staðið saman að greinum um námslánakerfið, þar sem fagnað er mikilvægu framfaraskrefi en jafnframt bent á að enn sé þörf á frekari umbótum til að tryggja sanngjarnt og sveigjanlegt kerfi fyrir fjölbreyttan hóp námsmanna. Í þessum málum höfum við lagt áherslu á öryggi, félagslegt réttlæti og nauðsyn raunverulegra lausna – því öll eigum við rétt á öruggu heimili og sanngjörnum kjörum.

Fram undan er hátíðartími – en einnig tími ákvarðana og undirbúnings fyrir nýtt ár. BHM heldur áfram að vinna ötullega að hagsmunum félagsfólks aðildarfélaganna, standa vörð um réttindi og styðja við faglegt starf og velferð.

Það er einmitt samstaðan sem gerir okkur sterk. Nú förum við inn í aðventuna með kraft, kjark og trú á það að saman getum við haft áhrif.

Nýr Orlofsvefur og nýjar verklagsreglur

Nýr vefur Orlofssjóðs BHM er kominn í loftið. Vegna gagnaflutnings þurfti að loka gamla vefnum mánudaginn 10. nóvember í hádeginu og opnaði nýr vefur í gær, 13. nóvember.

Nýtt bókunartímabil opnaði fimmtudaginn 13. nóvember kl. 12:00 að hádegi. Nú er opið fyrir bókanir á tímabilinu 6. janúar til 2. júní, að páskum undanskildum.

Þökkum fyrir þolinmæðina.

Orlofssjóður BHM þakkar félagsfólki fyrir skilning og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem tafirnar kunnu að valda. Sjóðurinn vinnur markvisst að því að tryggja góðan aðgang að þjónustunni á nýjum vef.

Nýjar verklagsreglur

Undanfarin misseri hefur stjórn Orlofssjóðs unnið að breytingu á verklagsreglum sjóðsins. Síðastliðið vor samþykkti fulltrúaráð að afnema svokallað punktakerfi sem notast hefur verið við um nokkurt skeið. Sú breyting hefur nú tekið gildi. Viðmið um fjölda punkta við nýtingu orlofskosta og gjafabréfa á því ekki lengur við.

Sjóðsaðild byggir á því að greitt sé til sjóðsins mánaðarlegt framlag sem er 0,25% af heildarlaunum og greiða þarf minnst í 3 mánuði samfellt til að teljast virkur sjóðfélagi.

Úthlutun

Með nýju fyrirkomulagi er ekki nýst við punkta og á úthlutunartímabilum er öllum eignum orlofssjóðsins úthlutað með 100% slembivali. Orlofskerfið velur af handahófi úr umsóknum.

Við úthlutun getur sjóðfélagi ekki leigt orlofskost næstu 2 ár, vegna sams konar tímabils, eftir að hafa fengið úthlutað. Úthlutuð leiga um páska hefur því ekki áhrif á sumarúthlutun og öfugt.

Úthlutunartímabil eru:

· Páskar: Frá og með miðvikudegi fyrir páska í eina viku.

· Sumar: Frá fyrsta fimmtudegi í júní í 11 vikur. Hver bókun er vegna vikuleigu. Skiptidagar eru á fimmtudögum.

Vetrartímabil

Utan úthlutunartímabila eru svokölluð vetrartímabil, þar sem opnað er fyrir bókanir yfir lengra tímabil og sjóðfélagar geta bókað um leið, þ.e. ekki er úthlutað.

Hámark tvær bókanir eru á hvern sjóðfélaga yfir vetrartímabilið - utan úthlutunartímabila á hverju almanaksári:

· 1 bókun frá lok sumars til ársloka

· 1 bókun frá upphafi árs að upphafi sumars (að páskum aðskildum)

LÍS rannsakar áhrif nýja námslánakerfisins í samstarfi við BHM

Lífeyris- og lánanefnd BHM og  LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta) hafa gert með sér verksamning um samstarf við greiningu á áhrifum lagabreytinga sem tóku gildi árið 2020 með lögum um Menntasjóð námsmanna.

Markmið verkefnisins er að afla traustra gagna og nákvæmari upplýsinga um stöðu og kjör námsmanna, auk þess að leggja mat á áhrif nýja námslánakerfisins á fjárhagsstöðu, námsframvindu og aðgengi stúdenta að vinnumarkaði.

Greiningin mun meðal annars fjalla um:

  • áhrif 30% niðurfellingar út frá félagslegum og efnahagslegum aðstæðum,
  • áhrif kynbundins launamunar, fjölskylduábyrgðar og brotakennds starfsferils á endurgreiðslu námslána,
  • stöðu þeirra sem ekki teljast lánshæfir eða uppfylla skilyrði fyrir undanþágum,
  • og samanburð við aðstæður stúdenta á Norðurlöndum og í Evrópu.

Ráðinn verður sérfræðingur til að vinna hagfræðigreiningu og gerð skýrslunnar. Verkefnið verður unnið í nánu samráði BHM og LÍS og byggir á fyrirliggjandi gögnum, meðal annars frá Menntasjóði námsmanna, Hagstofu Íslands, skattyfirvöldum og sameiginlegum könnunum BHM og LÍS á lífskjörum stúdenta.

Niðurstöður verða kynntar á opnum fundi á vegum BHM og LÍS vorið 2026.

Leikskólinn er lykill að jafnrétti

BHM leggur áherslu á að umbætur í leikskólum byggist á heildstæðri framtíðarsýn fremur en skyndiúrlausnum. BHM varar sérstaklega við því að stytta vistunartíma barna sem sparnaðaraðgerð, þar sem slíkt gæti dregið úr atvinnuþátttöku – einkum kvenna – og grafið undan markmiðum um jafnrétti á vinnumarkaði.

BHM kallar eftir úrbótum í kjörum og starfsumhverfi, fjölgun stöðugilda og virðingu fyrir lögbundnu hlutfalli menntaðra kennara. Einnig þarf að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar

Bætt staða stúdenta – en verkefninu ekki lokið

Undanfarin misseri hafa BHM og LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta unnið saman að því að vekja athygli á nauðsyn umbóta í námslánakerfinu. Fyrir rúmri viku birtist sameiginleg grein samtakanna þar sem fagnað var samþykkt laga nr. 253/2025 sem fela í sér raunverulegar lagfæringar á kerfinu og bæta stöðu fjölda námsmanna.

Í dag birtist önnur grein frá BHM og LÍS þar sem kallað er eftir frekari endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna. Þar er m.a. bent á að vaxtaálag og markaðsvextir samrýmist illa því hlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður og að tryggja þurfi aukinn sveigjanleika og réttláttara fyrirkomulag fyrir fjölbreyttan hóp stúdenta.

BHM og LÍS munu áfram standa vörð um réttindi og kjör stúdenta og halda áfram baráttunni fyrir námslánakerfi sem er sanngjarnt, sveigjanlegt og raunveruleg fjárfesting í framtíð þjóðarinnar.

Að búa við öryggi – ekki óvissu og skuldir

Í gær birtist á Vísi skoðanagrein eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur, formann BHM, þar sem hún fjallar um nýjan húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur hefur verið með það markmið að bæta stöðu ungs fólks og fyrstu kaupenda.

BHM fagnar öllum aðgerðum sem raunverulega bæta stöðu þessa hóps, en í greininni er bent á að margt sé enn óljóst og að pakkinn virðist ekki duga til að leysa þann kerfislæga vanda sem ríkir á húsnæðismarkaðnum. Kolbrún leggur áherslu á að húsnæði sé grundvallarréttindi, ekki fjárfesting, og að ungt fólk búi nú við ótryggt lánaumhverfi, háa greiðslubyrði og ofurvexti.

Í greininni hvetur BHM stjórnvöld til að sækja fyrirmyndir til Evrópu og Norðurlandanna, þar sem byggð hafa verið upp réttlát og stöðug húsnæðiskerfi sem draga úr spákaupmennsku og tryggja jafnræði á markaði. Að lokum er skorað á stjórnvöld að sýna kjark og ábyrgð með því að grípa til raunhæfra, varanlegra og réttlátra aðgerða sem tryggja öllum rétt til öruggs heimilis.

Landréttur staðfestir brot á jafnlaunareglu

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem kona, starfsmaður opinberrar stofnunar, fékk viðurkenndan kynbundinn launamun gagnvart karlkyns lögfræðingi í sambærilegu starfi. Dómurinn áréttar skýra bótaábyrgð vinnuveitenda við brot á jafnlaunareglu.

Lykilatriði:

  • Verulegur launamunur staðfestur sem ólögmæt mismunun samkvæmt lögum nr. 150/2020.
  • Vinnuveitandi dæmdur til að greiða 15,2 m.kr. í bætur vegna fjártjóns og 1 m.kr. í miskabætur.
  • Landsréttur hafnaði öllum málsástæðum vinnuveitanda og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í heild.

Hvað þýðir þetta fyrir félagsfólk BHM?
Dómurinn hefur mikilvægt fordæmi. Launaákvarðanir verða að byggjast á málefnalegum og kynhlutlausum sjónarmiðum. Brotum getur fylgt veruleg fjárhagsleg ábyrgð og ímyndartjón. Gagnsæi, virk eftirfylgni og kerfisbundið mat starfa eru lykilatriði.

Heimurinn er hér – samfélag í mótun: Hvert stefnum við?

Fagdeild félagsráðgjafa í fjölmenningu, í samstarfi við Félagsráðgjafafélag Íslands, stendur að metnaðarfullu málþingi þriðjudaginn 18. nóvember kl. 8.30–11.30 á Grand hótel Reykjavík.

Á dagskrá eru fjölbreytt erindi um samfélag í mótun, mannréttindi, fjölmenningu og málefni flóttafólks. Meðal fyrirlesara eru Áshildur Linnet, sérfræðingur í Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri hjá UNICEF, Anna KatarzynaWozniczka verkefnastjóri í málefnum flóttafólks í Árborg og Lena Rut Guðmundsdóttir sérfræðingur í málefnum flóttafólks í Árborg, Sema Erla Serdaroglu, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Edda Ólafsdóttir félagsráðgjafi.

Við hvetjumölltil að mæta og taka þátt í samtalinu um framtíð fjölmenningarsamfélagsins.

Vel sótt trúnaðarmannanámskeið BHM

Trúnaðarmannanámskeið sem BHM stóð fyrir í síðustu viku vöktu frábærar undirtektir. Um 40 manns sóttu námskeiðin, langflestir á staðnum en einnig í gegnum Teams. Áhersla var lögð á hagnýta fræðslu og verkfæri í starfi trúnaðarmanna.

Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM, og Ingvar Sverrisson, sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM, fóru yfir helstu réttindi, hlutverk og verkferla trúnaðarmanna. Þá hélt markþjálfinn Lella Erludóttir erindi um árangursrík samskipti sem hlaut góðar viðtökur.

Trúnaðarmenn gegna lykilhlutverki bæði fyrir starfsmenn og stéttarfélög, og markmiðið með námskeiðunum er að styrkja þau í því mikilvæga starfi.

Hvert er hlutverk trúnaðarmanns?

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað og tengiliður bæði milli samstarfsfólks og vinnuveitanda og milli vinnuveitanda og stéttarfélags. Trúnaðarmaður skal skila til stéttarfélagsins þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu eða kosningu til að hljóta staðfestingu og njóta þar með verndar í starfi. Stjórn og starfsmenn stéttarfélags styðja trúnaðarmenn í erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað. Hlutverk og skyldur geta verið mismunandi milli stéttarfélaga og því mikilvægt að vera í góðu sambandi við sitt félag.

Helstu verkefni trúnaðarmanns felast í því að fylgja eftir að atvinnurekandi virði ákvæði kjarasamninga, laga og reglugerða og grípa til viðeigandi aðgerða ef á þarf að halda. Hann tekur við umkvörtunum starfsmanna og talar þeirra máli gagnvart atvinnurekanda, miðlar upplýsingum milli félagsmanna og stéttarfélagsins og kynnir stefnu og verkefni félagsins.

BHM þakkar þátttakendum fyrir frábæra mætingu og lifandi umræður og hvetur félagsfólk sem hefur áhuga á að taka að sér trúnaðarmannahlutverk að hafa samband við sitt stéttarfélag.

Áhugaverð skýrsla um embættismannakerfið

Forsætisráðuneytið kynnti nýverið skýrslu starfshóps um embættismannakerfið: Kjölfesta í hringiðu lýðræðisins. Skýrslan hefur að geyma afar áhugaverðar upplýsingar um þróun embættismannakerfisins og setur fram mikilvægar greiningar og tillögur sem snerta faglegt sjálfstæði, ábyrgð og stjórnkerfislega innviði, mál sem varða bæði traust á stjórnsýslunni og gæði þjónustu við almenning. 

Þriðjudaginn 11. nóvember 2025, var haldið málþing um niðurstöður skýrslunnar. Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, tók þátt í pallborði á málþinginu ásamt Eygló Harðardóttur, verkefnisstjóra afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra, Páli Þórhallssyni, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, Sigríði Kristinsdóttur, sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu og formanni Félags forstöðumanna ríkisstofnana, og dr. Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands. 

Skýrslan er aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda og BHM mun skila umsögn um hana þar sem lögð verður áhersla á að umbætur tryggi fagmennsku, gagnsæi og skýra ábyrgðarskipan, samhliða því að efla starfsumhverfi og réttindi embættismanna.

Nýtt þjónustu- og umsóknarkerfi BHM mun auka skilvirkni og yfirsýn

BHM ásamt sjóðum bandalagsins hófu nýverið samstarf við Arango, fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf og innleiðingu á CRM lausnum í Microsoft umhverfi. Ætlunin er að á næsta ári hafi skrifstofa og þjónustuver BHM innleitt slíka lausn sem nær yfir þjónustu og samskipti við hagaðila. Samhliða er unnið að smíði kerfis sem heldur utan um yfirsýn, yfirferð og afgreiðslu umsókna í sjóði BHM. Með þeirri lausn má ætla að sú vinna verði enn skilvirkari og sveigjanlegri. Félagsfólk mun áfram senda inn umsóknir í gegnum Mínar síður, með þeim umbótum sem þessum breytingum fylgir.

Með nýjum og spennandi leiðum er markmiðið að bæta enn frekar upplýsingagjöf og samskipti við sjóðfélaga.

Norðurlönd sameinast um öryggi, réttlæti og lýðræði

Þing Norðurlandaráðs fór fram í Stokkhólmi dagana 27.–30. október þar sem rætt var um sameiginlegar áskoranir Norðurlanda; öryggi, velferð og lýðræði.

Í tengslum við þingið sendi NFS – Nordens Fackliga Samorganisation, norræn heildarsamtök launafólks, frá sér yfirlýsingu um að styrkur Norðurlanda byggist á trausti, samheldni og félagslegri ábyrgð. Samvinna stéttarfélaga, atvinnurekenda og stjórnvalda sé lykillinn að réttlátum og stöðugum vinnumarkaði.


BHM á aðild að NFS og tekur þar með þátt í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni var lögð áhersla á að öryggi á vinnustöðum verði að vera algjört forgangsmál. „Á bak við hverja tölu er manneskja og fjölskylda sem verður aldrei söm aftur. Norðurlönd verða að hafa öruggustu vinnustaði heims,“ segir þar meðal annars.

Einnig var áréttað að styrkur samfélagsins spretti úr daglegu starfi fólks – á vinnustöðum og í stofnunum þar sem samvinna og traust eflast. NFS hvatti ríkisstjórnir Norðurlanda til að standa vörð um sjálfbært starfsumhverfi, efla viðbúnað og verja lýðræðið.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt