Vel sótt trúnaðarmannanámskeið BHM

Trúnaðarmannanámskeið sem BHM stóð fyrir í síðustu viku vöktu frábærar undirtektir. Um 40 manns sóttu námskeiðin, langflestir á staðnum en einnig í gegnum Teams. Áhersla var lögð á hagnýta fræðslu og verkfæri í starfi trúnaðarmanna.

Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM, og Ingvar Sverrisson, sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá BHM, fóru yfir helstu réttindi, hlutverk og verkferla trúnaðarmanna. Þá hélt markþjálfinn Lella Erludóttir erindi um árangursrík samskipti sem hlaut góðar viðtökur.

Trúnaðarmenn gegna lykilhlutverki bæði fyrir starfsmenn og stéttarfélög, og markmiðið með námskeiðunum er að styrkja þau í því mikilvæga starfi.

BHM þakkar þátttakendum fyrir frábæra mætingu og lifandi umræður – og hvetur félagsfólk sem hefur áhuga á að taka að sér trúnaðarmannahlutverk að hafa samband við sitt stéttarfélag.

Hvert er hlutverk trúnaðarmanns?

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélags á vinnustað og tengiliður bæði milli samstarfsfólks og vinnuveitanda og milli vinnuveitanda og stéttarfélags. Trúnaðarmaður skal skila til stéttarfélagsins þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu eða kosningu til að hljóta staðfestingu og njóta þar með verndar í starfi. Stjórn og starfsmenn stéttarfélags styðja trúnaðarmenn í erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað. Hlutverk og skyldur geta verið mismunandi milli stéttarfélaga og því mikilvægt að vera í góðu sambandi við sitt félag.

Helstu verkefni trúnaðarmanns felast í því að fylgja eftir að atvinnurekandi virði ákvæði kjarasamninga, laga og reglugerða og grípa til viðeigandi aðgerða ef á þarf að halda. Hann tekur við umkvörtunum starfsmanna og talar þeirra máli gagnvart atvinnurekanda, miðlar upplýsingum milli félagsmanna og stéttarfélagsins og kynnir stefnu og verkefni félagsins.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt