Chat with us, powered by LiveChat

Sjálfstætt starfandi

Reiknivél fyrir sjálfstætt starfandi

ATH. Upplýsingar vegna COVID-19 má finna hér.


Sjálfstæður atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Réttarstaða verktaka og annarra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur er hin sama, þeir bera sömu ábyrgð og skyldur. 

Ákveðin auka vinna fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. Aðilar verða sjálfir að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslum og tryggingum, ásamt því að senda viðeigandi reikninga og gögn inn til stofnana. 

Mikill munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launþega, en lög og kjarasamningar tryggja launþegum ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki. Sjálfstætt starfandi fá t.d. ekki borgað orlofs- og desemberuppbót, fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga, fá ekki greitt orlof, eru ekki slysatryggðir, og eiga ekki rétt á launum í veikindatilfellum, svo eitthvað sé nefnt. 

Eins má nefna að við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa og enginn uppsagnarfrestur gildir. Þrátt fyrir að greitt sé tryggingagjald hafa sjálfstætt starfandi takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum frá VMST .

Réttindi í sjóðum BHM

Sjúkrasjóður BHM

 • Reglur sjóða BHM ná jafnt til allra félagsmanna aðildarfélaga BHM óháð ráðningarformi, fyrir utan ákvæði er snerta sjálfstætt starfandi vegna sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði BHM.
 • Samkvæmt úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM hefur sjálfstætt starfandi sjóðfélagi rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sem um launþega væri að ræða. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna er 2 mánuðir vegna eigin veikinda. 
 • Sjúkradagpeningar:
  Rétt er að benda á að ef iðgjald í Sjúkrasjóð BHM endurspeglar ekki raun heildarlaun getur það haft áhrif á upphæð sjúkradagpeninga.
  Almenna reglan er sú að reikna á 1% iðgjald af heildarlaunum eins og þau eru hverju sinni. Staðgreiðsluskrá er skoðuð hjá sjálfstætt starfandi/verktökum. Ef mismunur er á staðgreiðslu og iðgjaldaskilum í sjóðinn;
  • er tekið mið af heildarlaunum skv staðgreiðslu, ef staðgreiðsla reynist lægri en heildarlaun út frá iðgjaldi.
  • er tekið mið af heildarlaunum út frá iðgjaldi, ef heildarlaun skv. staðgreiðslu er hærri en heildarlaun út frá iðgjaldi. Vanreiknað iðgjald myndar ekki aukinn rétt til sjúkradagpeninga ef í ljós kemur að heildarlaun eru hærri skv. staðgreiðsluskrá.
  • Sjá dæmi um iðgjöld í sjóði BHM hér fyrir neðan. 
 • Sjá nánar spurt og svarað Sjúkrasjóður BHM. 

Iðgjöld í sjóði BHM: dæmi

 • Taflan hér að neðan sýnir dæmi um iðgjaldaskil út frá mismunandi reiknuðum heildarlaunum og hvaða áhrif það hefur á réttindi úr sjóðum BHM. 
   Félagsmaður 1 Félagsmaður 2  Félagsmaður 3
Heildarlaun dæmi  200.000 kr. 300.000 kr. 600.000 kr.
Mánaðarlegt iðgjald í Sjúkrasjóð 1%  2.000 kr. 3.000 kr.   6.000 kr.
Mánaðarlegt iðgjald í Starfsþróunarsetur 0,7% 1.400 kr. 2.100 kr.  4.200 kr.
Mánaðarlegt iðgjald í Starfsmenntunarsjóð 0,22% 440 kr.  660 kr.  1.320 kr.
Dæmi um styrk úr sjóðum BHM (?)


Sjúkrasjóður BHM (?)
Heilsurækt  6.000 kr.  12.000 kr.  12.000 kr.
Sjúkraþjálfun  25.000 kr.  50.000 kr.  50.000 kr.
Fæðingarstyrkur  50.000 kr.  100.000 kr.  100.000 kr.
Sjúkradagpeningar (?)  160.000 kr.  240.000 kr.  480.000 kr.
Starfsmenntunarsjóður BHM Endurmenntun  60.000 kr.  120.000 kr.  120.000 kr.
Starfsþróunarsetur háskólamanna Endurmenntun  212.500 kr.  425.000 kr.  425.000 kr.


Iðgjaldaskil í sjóði BHM

Leiðbeiningar

Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru ýmist að senda inn iðgjöld í gegnum rafrænt form skilagreina eða að kaupa bókhaldsþjónustu sem iðulega sendir skilagreinar úr launakerfi.
Leiðbeiningar um hvernig á að ganga frá skilagreinum má finna hér ásamt rafrænu skilagreinaformi.

 • Rafræna skilagreinaformið geta félagsmenn notað óháð ráðningarformi. Það er hentugt fyrir sjálfstætt starfandi félagsmenn aðildarfélaga BHM, en einnig er það notað af smærri fyrirtækjum. Á skilagreinaforminu er beðið um annars vegar dagvinnulaun og hins vegar heildarlaun. Upplýsingar um dagvinnulaun eru nauðsynlegar til að geta reiknað iðgjald í Vísindasjóð stéttarfélagsins. Hafi viðkomandi félagsmaður sömu dagvinnulaun og heildarlaun er sama upphæðin sleginn inn í báða reiti, óháð því hvort greitt er í Vísindasjóð eða ekki. 

Launagreiðendum ber að senda skilagreinar fyrir hvern launamánuð með sundurliðun á öllum iðgjöldum til stéttarfélaga til Bókunar- og innheimtumiðstöðvar BHM, fyrir gjalddaga þ.e. 15. hvers mánaðar. Iðgjöld eiga að reiknast af launatekjum og skila þarf inn skilagreinum mánaðarlega. Áríðandi er að rétt númer og heiti stéttarfélags komi fram á skilagreinum. 

Mótframlag í sjóði fyrir sjálfstætt starfandi

 Sjóður  Iðgjald af launatekjum
  Félagsgjald til viðkomandi aðildarfélags BHM  Sjá % stéttarfélags
  Sjúkrasjóður BHM  1 % valkvætt gjald 
  Orlofssjóður BHM  0,25 % valkvætt gjald
  Starfsmenntunarsjóður BHM  0,22% valkvætt gjald
  Starfsþróunarsetur háskólamanna  0,70 % valkvætt gjald

Framlag í VIRK, starfsendurhæfingarsjóð, er 0,1 % af heildarlaunum og er innheimt af lífeyrissjóði. 

*Við innsendingu skilagreina gæti sjálfstætt starfandi einstaklingur með rekstur á sér kennitölu (t.d. ehf.) fengið tölvupóst vegna iðgjaldaskila í viðkomandi sjóð. Minnt er á að iðgjöld í viðkomandi sjóði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga eru valkvæð, sbr. töflu hér að ofan. 

Að hefja eigin rekstur

Ert þú búin/n að?

 • Huga að rekstrarformi ?
  • Þegar kemur að því að stofna félag í atvinnurekstri er mikilvægt að velja sér rekstrarform við hæfi, meðal annars eftir umfangi rekstrar. Mun víðtækari kröfur og formreglur gilda um atvinnurekstur í formi félaga og meiri kostnaður er við stofnun til slíks rekstrar.
  • Ef til stendur að reka starfsemina í félagi, t.d. einkahlutafélagi, þarf að stofna félagið hjá fyrirtækjaskrá. Hægt er að ganga frá nýskráningu einkahlutafélaga rafrænt.
  • Unnt er að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag. Sérstakar reglur gilda þegar einkahlutafélag er stofnað með yfirtöku einstaklingsreksturs. Færa verður einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag á fyrstu fjórum mánuðum ársins svo yfirfærslan hafi ekki í för með sér skattalegar afleiðingar.
 • Senda tilkynningu til Ríkisskattstjóra ?
  • Áður en rekstur hefst þarf að tilkynna um reksturinn til ríkisskattstjóra óháð því hvort hann er rekinn í félagi eða á kennitölu einstaklings (einstaklingsrekstur). Einnig þarf að tilkynna breytingar á rekstrinum eftir því sem við á sem og lok rekstrar.
  • Þeir sem eru að hefja atvinnurekstur verða, eftir atvikum, að skrá sig á eftirfarandi skrár hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst:
 • Huga að bókhaldinu ?
  • Óháð formi á rekstri skal færa bókhald reglulega og í samræmi við ákvæði laga um bókhald og virðisaukaskatt.
  • Sjá hér nánar um bókhald og tekjuskráningu.

Við sjálfstæðan rekstur í heilbrigðisþjónustu þarf einnig að:

Verksamningur

Verksamningur skapalón

Almennt er verksamningur samningur milli verktaka og verkkaupa um ákveðið verk gegn greiðslu. Í verksamningi koma fram helstu upplýsingar um verkið og getur reynst mikilvægt gagn ef á reynir síðar.

Hér má sjá dæmi um verksamning. 

Gott að hafa í huga

Reiknað endurgjald og tryggingagjald

Reiknað endurgjald
 • Reiknað endurgjald er til að uppfylla skilyrði um staðgreiðslu á opinberum gjöldum. 
 • Allir sem starfa við eigin atvinnurekstur eiga að reikna sér endurgjald (laun) vegna þeirrar vinnu og skila af því staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. 
 • Við ákvörðun á fjárhæð reiknaðs endurgjalds skal hafa árlegar reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald til viðmiðunar. Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila.
 • Mikilvægt að hafa í huga að hinar ýmsu greiðslur, svo sem vegna fæðingarorlofs eða atvinnuleysisbóta, eru reiknaðar út frá reiknuðu endurgjaldi. 
  • Þannig skiptir það máli upp á tryggingaréttindi að hafa þessar fjárhæðir í lagi gagnvart skattinum. Atvinnuleysisbótaréttur ákvarðast af viðmiðunarfjárhæð Skattsins og hlutfall reiknaðs endurgjalds af því. 

Tryggingagjald

 • Tryggingagjald er sérstakt gjald sem ber að greiða af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er almennt innheimt í staðgreiðslu, ásamt tekjuskatti, og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald.
 • Tryggingagjald telst til launatengdra gjalda, en það eru þau gjöld sem launagreiðendur, þ.m.t. sjálfstætt starfandi menn, greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur.
 • Sjá hér álagningarhlutfall tryggingagjalds fyrir hvert rekstrarár, dæmi um útreikning og nánari upplýsingar.

Persónuvernd

 • Hér á landi eru í gildi lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint rúmt en það nær til allra upplýsinga um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Sem dæmi má nefna nafn, kennitala, staðsetningargögn, netauðkenni, ljósmynd o.s.frv.
 • Hver sá sem vinnur með persónuupplýsingar (ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili) ber ábyrgð á því að sú vinnsla persónuupplýsinga, sem fer fram á hans vegum, samrýmist persónuverndarlögum, og hann þarf að geta sýnt fram á það. Það er t.d. gert með skjölum og verklagsreglum. Gera þarf mismunandi ráðstafanir eftir því hvort um er að ræða almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar.
 • Þegar unnið er með persónuupplýsingar þarf alltaf að hafa meginreglur löggjafarinnar í huga og vinna í samræmi við þær. Vinnslan skal þannig vera sanngjörn og lögmæt, unnin í skýrum og málefnalegum tilgangi, gæta skal meðalhófs og þess að persónuupplýsingar séu áreiðanlegar og uppfærðar. Loks skulu persónuupplýsingar vera varðveittar á því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstaklinginn lengur en þörf krefur og þær unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi upplýsinganna sé tryggt.
 • Mikilvægt er að þeir einstaklingum, s.s. viðskiptavinir eða þeir sem heimsækja heimasíðu fyrirtækis, sé kynnt hvernig vinnslu persónuupplýsinga þeirra er háttað. Í flestum tilvikum er einnig skylt að halda skrá yfir vinnslustarfsemi og skjalfest verklag þarf að vera til staðar sem tryggir að persónuupplýsingum sé eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf vegna tilgangsins.
 • Sjá nánar á heimasíðu Persónuverndar

Dæmi um spurningar til að spyrja þegar mat er lagt á fylgni við persónuverndarlög:

 • Er til staðar heildstæð persónuverndarstefna og hafa verklagsreglur verið útbúnar og innleiddar í samræmi við hana?
 • Hefur verið lagt mat á það hvort það þurfi að skipa persónuverndarfulltrúa?
 • Hefur fyrirtækið skilgreint í hvaða tilvikum það er vinnsluaðili og hvenær það er ábyrgðaraðili?, og gert vinnslusamninga við vinnsluaðila sína?
 • Hvernig er miðlun persónuupplýsinga úr landi, ef einhver er, háttað?
 • Er meginreglu um lágmörkun gagnavinnslu fylgt?
 • Hefur verið lagt mat á það hvernig skuli brugðist við nýjum og ítarlegri réttindum skráðra einstaklinga?
 • Hefur verið útbúin skrá yfir vinnslustarfsemi fyrirtækisins?
 • Eru til staðar verklagsreglur og ferlar í tengslum við mögulega öryggisbresti?
 • Hefur verið skilgreindur lagagrundvöllur þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað í fyrirtækinu?
 • Er heimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga í einhverjum tilvikum byggð á samþykki? Er örugglega rétt að því staðið?
 • Hafa verið birtar opinberar persónuverndarstefnur á viðeigandi stöðum og er tryggt að staðið sé rétt að upplýsingagjöf gagnvart einstaklingum?
 • Hefur verið ráðist í einhverjar aðgerðir til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli gerðar kröfur um öryggi?
 • Hefur starfsfólk hlotið viðeigandi fræðslu um persónuvernd og öryggisbresti og er það meðvitað um hlutverk sín því tengdu?
 • Hefur verið hugað að innbyggðri og sjálfgefinni persónuvernd þar sem þess er þörf?
 • Hefur fyrirtækið skilgreint í hvaða tilvikum þarf að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd (e. DPIA)?
 • Eru til staðar ferlar sem tryggja áreiðanleika þeirra persónuupplýsinga sem unnið er með?

Fæðingarorlof

 • Allir foreldrar á vinnumarkaði eiga rétt til fæðingar- og foreldraorlofs. Það á jafnt við foreldra sem eru starfsmenn eða þá sem eru sjálfstætt starfandi.
 • Sjálfstætt starfandi þurfa að tilkynna RSK um lækkun á reiknuðu endurgjaldi, ef um það er að ræða, þann tíma sem fæðingarorlof er ætlað.
 • Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi.
 • Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.
 • Samkvæmt lögum þarf að greiða í lífeyrissjóð, hins vegar er valfrjálst hvort greitt er í stéttarfélag og séreignarsjóð. Félagsmenn aðildarfélaga BHM geta viðhaldið réttindum í viðkomandi sjóðum BHM með því að greiða stéttarfélagsgjald af fæðingarorlofsgreiðslum.
 • Hægt er að sækja um fæðingarstyrk hjá Sjúkrasjóði BHM, en veittur er styrkur til foreldris vegna fæðingar hvers barns. Sjá upphæð styrks hér .

Lífeyrismál

 • Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs, skv. lögum nr. 129/1997um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða .
 • Þannig þurfa sjálfstætt starfandi, eins og aðrir launamenn, að greiða í lífeyrissjóð.
 • Samkvæmt lögum ber sjálfstæðum atvinnurekendum að greiða að lágmarki 12% af reiknuðu endurgjaldi í lífeyrissjóð. Þar af eru 4% frádráttarbær og lækka staðgreiðslu skatta, rétt eins og gerist hjá launafólki. Heimilt er að greiða meira en lögbundið iðgjald. Sjá nánar hér.
 • Gott er að afla sér upplýsinga um mismunandi uppbyggingu og réttindaávinnslu lífeyrissjóða og velja sér sjóði út frá því.

Atvinnuleysi

 • Um atvinnuleysistryggingar gilda lög nr. 54/2006, og lög nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir. 
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 18 - 70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli tiltekin skilyrði. 
 • Þrátt fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar greiði tryggingagjald hafa þeir takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum frá VMST.
 • Ávinnslan í atvinnuleysistryggingasjóð er reiknuð út frá vinnusögu viðkomandi á Íslandi. 
  • Vinnusaga síðustu þriggja ára er skoðuð þegar sótt er um atvinnuleysisbætur.
  • 12 mánaða vinna þar sem staðið hefur verið skil af staðgreiðslu og tryggingargjaldi af reiknuðu endurgjaldi í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir Skattsins í viðkomandi starfsgrein = 100% réttur til atvinnuleysisbóta.
   • Hlutfallslegur réttur ef starfað hefur verið í færri mánuðum.
   • Hlutfallslegur réttur ef reiknað endurgjald hefur veirð misjafnt eða lægra.
  • Hjá ársmönnum er miðað við meðaltal reiknað endurgjalds á mánuði fyrir heilt ár. 
 • Gögn sem þarf að skila vegna atvinnuleysisbóta
  • Tilkynna þarf um lokun rekstrar til Skattsins, eyðublað 5.04 (launagreiðendaskrá lokuð). Það þarf ekki að skila afriti til VMST. 
  • Yfirlýsingu vegna verktakavinnu til VMST.
 • Staðfesta þarf atvinnuleit milli 20. og 25. hvers mánaðar (ath. þó að það sé ekki búið að samþykkja umsóknina). 
 • Sjá nánar á heimasíðu VMST.  

Hugtök

Sjálfstætt starfandi einstaklingur

 • Einstaklingur sem vinnur hjá sjálfum sér, ýmist á eigin kennitölu eða hefur stofnað rekstur á sér kennitölu um starfsemi sína. Viðkomandi getur unnið einn eða verið með aðra í vinnu.

 • Einstaklingur sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. 

Einyrki

 • Einstaklingur sem vinnur við eigin rekstur, á eigin kennitölu eða með rekstur á sér kennitölu, og hefur ekki aðra í vinnu. Getur þó keypt tiltekna þjónustu af öðrum.
 • Einstaklingur sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. 

Verktaki

 • Einstaklingur eða lögaðili sem tekur að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir annan aðila (verkkaupa) og ábyrgist árangur verksins án þess þó að vinna verkið endilega sjálfu(ur) telst verktaki. 

Gerviverktaki

 • Aðili sem ræður sig til vinnu eða tiltekin verks með verktakasamningi en hefur réttarstöðu launamanns þegar nánar er skoðað.
 • Það getur reynst erfitt að skera úr um það hvenær aðili telst launamaður (?) eða (gervi)verktaki. Heiti samnings milli aðila hefur ekki úrslitaáhrif um það hvort viðkomandi er verktaki eða launamaður, heldur er það innihald samningsins og heildarmat á aðstæðum öllum.
 • Ekki eru alltaf skýr mörk á milli þess hverjir teljast vera launamenn og hverjir verktakar. Hjá einstaklingi sem vinnur aðeins fyrir einn eða fáa ræðst það af eðli starfssambandsins við þann sem unnið er fyrir hvort hann telst vera verktaki eða starfsmaður/launamaður. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um það í skattalegu tilliti. Þannig getur ríkisskattstjóri til dæmis hafnað umsókn um virðisaukaskattsnúmer með vísan til þess að umsækjandi teljist starfsmaður þrátt fyrir samning um verktakagreiðslur. Einnig getur hann metið starfssambandið eftir á og fært skattskil úr skilum rekstraraðila í skil launamanns með tilheyrandi endurákvörðun skatta auk viðurlaga.
 • Í ýmsum úrskurðum yfirskattanefndar er fjallað um þau atriði sem koma til skoðunar þegar mat er lagt á það hvort samningur aðila teljist vinnusamningur eða verktakasamningur. Sem dæmi má nefna úrskurði nefndarinnar nr. 43/2016, 223/2013 og 41/2012.

 • Félagsmönnum aðildarfélaga BHM er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag ef grunur leikur á að um gerviverktaka samband sé um að ræða.

 • Eftirfarandi má m.a. hafa til hliðsjónar, en almennt er aðili ekki verktaki ef hann:

  • nýtur starfsstöð verkkaupa (gefur vísbendingu um)
  • leggur ekki til verkfæri né efni (gefur vísbendingu um)
  • ber ekki ábyrgð eða áhættu á verki
  • fær reglubundin föst laun
  • nýtur lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi
  • fær greitt orlof og veikindadaga
  • fær laun á frídögum
  • vinnur iðulega fyrir einn eða fáa aðila (gefur vísbendingu um)
  • notar stimpilklukku á vinnustað
  • á rétt á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti
  • ber ekki ábyrgð á útreikningi og skil á launatengdum gjöldum
  • ber ekki ábyrgð á skilum á opinberum gjöldum
  • O.fl.

Ítarefni

 • Lífið í harkinu - málþing á vegum BHM
 • Ríkisskattstjóri býður reglulega upp á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim sem eru að hefja atvinnurekstur. Farið er yfir hagnýt atriði sem varða skattskil í rekstri.