Sjálfstætt starfandi

Sjálfstæður atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast.

Rekstrarform

Sjálfstæðir atvinnurekendur eru þeir sem stunda eigin rekstur, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, oftast einkahlutafélagi.

Sjálfstætt starfandi starfa jafnan einir á sínu fagsviði og selja þjónustu sína á markaði.

Dæmi eru um að sjálfstætt starfandi einstaklingar innan sömu fagstéttar vinni á sömu starfsstöð eða innan stærri skipulagsheildar, einkum ákveðnar starfsstéttir heilsbrigðisstarfsmanna.

Þeir sem starfa sjálfstætt geta haft aðra í vinnu og bera þá skyldur gagnvart þeim líkt og aðrir vinnuveitendur.

Ákveðin aukavinna og ábyrgð fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. Aðilar verða sjálfir að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslum.

Skattamál

Skatturinn veitir upplýsingar um skráningu verktaka á launagreiðendaskrá og skattalega meðferð tekna í sjálfstæðum atvinnurekstri.

Tryggingar

Tryggingafélög bjóða þeim sem starfa sjálfstætt ýmsar tryggingar, m.a. slysatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar.

Launamaður / sjálfstætt starfandi

Mikill munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launafólks, en lög og kjarasamningar tryggja launafólki ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki.

Sjálfstætt starfandi fá t.d. ekki borgaða orlofs- og desemberuppbót, fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga, fá ekki greitt orlof, eru ekki slysatryggðir, og eiga ekki rétt á launum í veikindaforföllum, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar sjálfstætt starfandi reikna verð á útseldri vinnu verða þeir að gera ráð fyrir þessum kostnaði sem bætist þá við það kaup sem þeir vilja fá fyrir veitta þjónustu.

Reiknivél

BHM hefur sett upp reiknivél fyrir verð á útseldri vinnu til að auðvelda félagsfólki að reikna út sín mánaðarlaun.

BHM - félagsaðild

Fjölmörg aðildarfélaga BHM bjóða upp á aðild fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Nánari upplýsingar um réttindi sem fylgja aðild, upphæð félagsgjalda o.fl. má nálgast á heimasíðum aðildarfélaganna.

Réttindi í sjóðum BHM

Reglur sjóða BHM ná jafnt til allra félagsmanna aðildarfélaga BHM óháð ráðningarformi, fyrir utan ákvæði er snerta sjálfstætt starfandi vegna sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði BHM.

Samkvæmt úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM hefur sjálfstætt starfandi sjóðfélagi rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sem um launþega væri að ræða. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna er 2 mánuðir vegna eigin veikinda.

Ef iðgjald í Sjúkrasjóð BHM endurspeglar ekki raunveruleg heildarlaun getur það haft áhrif á upphæð sjúkradagpeninga. Almenna reglan er sú að reikna á 1% iðgjald af heildarlaunum eins og þau eru hverju sinni. Staðgreiðsluskrá er skoðuð hjá sjálfstætt starfandi/verktökum.

Félagsfólk aðildarfélaga BHM sendir inn iðgjöld í gegnum rafrænt form skilagreina eða að kaupa bókhaldsþjónustu sem sendir skilagreinar úr launakerfi.

Nánari upplýsingar um styrki og sjóði BHM.

Atvinnuleysistryggingar

Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta hafi rekstur verið stöðvaður (launagreiðandaskrá lokað) og staðin hafi verið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.

Sjá nánar á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Gjaldþrot

Við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa og enginn uppsagnarfrestur gildir.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt