Skip to content

Sjálfstætt starfandi

Sjálfstæður atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi, ýmist á eigin kennitölu eða í félagi, með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Réttarstaða verktaka og annarra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur er hin sama, þeir bera sömu ábyrgð og skyldur.

Ákveðin aukavinna og ábyrgð fylgir því að vera sjálfstætt starfandi. Aðilar verða sjálfir að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslum og tryggingum, ásamt að senda viðeigandi reikninga og gögn inn til stofnana.

Mikill munur er á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings og launafólks, en lög og kjarasamningar tryggja launafólki ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi njóta ekki. Sjálfstætt starfandi fá t.d. ekki borgaða orlofs- og desemberuppbót, fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga, fá ekki greitt orlof, eru ekki slysatryggðir, og eiga ekki rétt á launum í veikindaforföllum, svo eitthvað sé nefnt.

Eins má nefna að við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa og enginn uppsagnarfrestur gildir. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta hafi rekstur verið stöðvaður (launagreiðandaskrá lokað) og staðin hafi verið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.

Réttindi í sjóðum BHM

Reglur sjóða BHM ná jafnt til allra félagsmanna aðildarfélaga BHM óháð ráðningarformi, fyrir utan ákvæði er snerta sjálfstætt starfandi vegna sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði BHM.

Samkvæmt úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM hefur sjálfstætt starfandi sjóðfélagi rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sem um launþega væri að ræða. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna er 2 mánuðir vegna eigin veikinda.

Rétt er að benda á að ef iðgjald í Sjúkrasjóð BHM endurspeglar ekki raunveruleg heildarlaun getur það haft áhrif á upphæð sjúkradagpeninga. Almenna reglan er sú að reikna á 1% iðgjald af heildarlaunum eins og þau eru hverju sinni. Staðgreiðsluskrá er skoðuð hjá sjálfstætt starfandi/verktökum.

Félagsmenn aðildarfélaga BHM eru ýmist að senda inn iðgjöld í gegnum rafrænt form skilagreina eða að kaupa bókhaldsþjónustu sem iðulega sendir skilagreinar úr launakerfi.

Rafræna skilagreinaformið geta félagsmenn notað óháð ráðningarformi. Það er hentugt fyrir sjálfstætt starfandi félagsmenn aðildarfélaga BHM, en einnig er það notað af smærri fyrirtækjum. Á skilagreinaforminu er beðið um annars vegar dagvinnulaun og hins vegar heildarlaun. Upplýsingar um dagvinnulaun eru nauðsynlegar til að geta reiknað iðgjald í Vísindasjóð stéttarfélagsins. Hafi viðkomandi félagsmaður sömu dagvinnulaun og heildarlaun er sama upphæðin slegin inn í báða reiti, óháð því hvort greitt er í Vísindasjóð eða ekki.

Launagreiðendum ber að senda skilagreinar fyrir hvern launamánuð með sundurliðun á öllum iðgjöldum til stéttarfélaga til Bókunar- og innheimtumiðstöðvar BHM, fyrir gjalddaga þ.e. 15. hvers mánaðar. Iðgjöld eiga að reiknast af launatekjum og skila þarf inn skilagreinum mánaðarlega. Áríðandi er að rétt númer og heiti stéttarfélags komi fram á skilagreinum.

Mótframlag í sjóði fyrir sjálfstætt starfandi

Upphæð félagsgjalds til viðkomandi aðildarfélags BHM er mismunandi milli félaga og þurfa sjálfstætt starfandi að kynna sér hversu hátt iðgjaldið er hjá sínu stéttarfélagi.

Eftirtaldir sjóðir eru valkvæðir, en með greiðslum í þá öðlast einstaklingar réttindi sem nánar má lesa um á undirsíðum um Styrki og sjóði. Innan sviga er sýnt hversu hátt hlutfall er greitt af launatekjum í viðkomandi sjóð:

Framlag í VIRK, starfsendurhæfingarsjóð, er 0,1% af heildarlaunum og er innheimt af lífeyrissjóði.