Umsóknarferli

Umsóknum er skilað rafrænt á Mínum síðum. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram vikulega, fyrir vikulok.

Er verkefni styrkhæft?

Hægt er að kanna styrkhæfi verkefnis með því að leggja inn umsókn með upplýsingum um verkefnið og hvernig það tengist núverandi starfi eða fagsviði án þess að framvísa reikningum og/eða greiðslukvittunum. Umsóknum er svarað í gegnum skilaboðarás á Mínum síðum þar sem fram kemur hvort verkefnið sé styrkhæft eða ekki, og hvaða gögnum þurfi að skila til að unnt sé að greiða styrkinn út.

Má gera tvær umsóknir fyrir sama verkefni?

Já, það er hægt. Gefum okkur að sótt sé um styrk fyrir ráðstefnuferð erlendis þar sem lagt er út fyrir ráðstefnugjaldi og flugkostnaði áður en út er haldið en gistikostnaður er ekki greiddur fyrr en komið er á hótelið. Þá er hægt að sækja um styrk fyrir ráðstefnugjaldi og flugkostnaði í fyrri umsókn svo hægt sé að greiða út þann kostnað. Þegar gistikostnaður hefur verið greiddur er gerð ný umsókn. Sú umsókn þarf ekki að vera jafn ítarleg heldur aðeins að nefna að hún sé seinni hlutinn af fyrri umsókn.

Meðferð umsókna

Starsfólk sjóðsins afgreiðir umsóknir samkvæmt úthlutunarreglum. Umsækjendur fá skilaboð á Mínum síðum þar sem fram kemur hvort umsóknin hafi verið samþykkt eða ekki, og hvaða gögnum þurfi að skila til að unnt sé að greiða styrkinn út.

Ef sjóðfélagi er ósáttur við afgreiðslu umsóknar hefur viðkomandi rétt á að vísa máli sínu til stjórnar Starfsmenntunarsjóðs BHM. Verkefni sem vafi leikur á að falli að reglum sjóðsins eru lögð fyrir stjórnina. Stjórnarfundir eru haldnir mánaðarlega.

Fylgigögn

Fylgigögnum er skilað til sjóðsins í gegnum Mínar síður. Upphæðir styrkja miðast við framlagða reikninga og þá er gerð krafa um að þeir séu greiddir. Aðeins eru veittir styrkir vegna reikninga sem eru í nafni umsækjanda. Svokallaðir e-miðar frá flugfélögum og staðfestingar á bókunum teljast ekki fullnægjandi staðfesting á greiðslu.

Sé sótt um styrk vegna skipulagðra kynnisferða þarf auk reikninga/greiðslukvittana að skila inn árituðu bréfi frá yfirmanni eða umsjónarmanni ferðarinnar og/eða þátttakendalista. Einnig skal fylgja með ítarleg dagskrá faglegs hluta ferðarinnar sem tiltekur þá staði sem heimsóttir eru, hvert efni kynningar er á hverjum stað og tímasetningar.

Greiðsla styrkja

Starfsmenntunarsjóður BHM greiðir að jafnaði út styrki vikulega. Starfsfólk sjóðsins áskilur sér rétt til sveigjanleika um greiðslu styrkja. Sjóðfélagar bera sjálf ábyrgð á að skila inn öllum tilskildum fylgigögnum.

Ef viðeigandi fylgigögn berast ekki til sjóðsins innan 12 mánaða frá dagsetningu um styrkveitingu fellur loforð um styrk niður.

Hvenær endurnýjast styrkurinn?

Útgreidd upphæð styrkja endurnýjast að 24 mánuðum liðnum miðað við greiðsludag hverrar umsóknar.

Dæmi: Sjóðfélagi fær úthlutað styrk að upphæð 50.000 kr. þann 1. nóvember 2023. Þann 2. nóvember 2025 endurnýjast eftirstöðvar sjóðsins um 50.000 kr.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt