Skip to content

Úthlut­un­ar­reglur

Sótt er um styrki til sjóðsins á rafrænu umsóknareyðublaði á Mínum síðum BHM. Allt félagsfólk sem greitt hefur í starfsmenntunarsjóð BHM í 6 mánuði, þar af 3 mánuði samfellda, á rétt á styrkjum.

Hver á rétt á styrk?

Allt félagsfólk sem greitt hefur í starfsmenntunarsjóð BHM í 6 mánuði, þar af 3 mánuði samfellda, á rétt á styrkjum. Mánaðarlegt framlag í starfsmenntunarsjóð sem nemur a.m.k. 660 krónum veitir rétt á fullum styrk úr sjóðnum. Lægra framlag veitir rétt á hálfum styrk.

Hámarksstyrkur eru 120.000 krónur á 24 mánaða tímabili, talið frá fyrsta greiðsludegi. Styrkhæf verkefni þurfa að jafnaði að varða fagsvið eða starf umsækjenda.

Rof á aðild sem rekja má til eftirtalda tilvika skerðir ekki rétt sjóðfélaga til úthlutunar:

  • Fæðingarorlof: Aðildarrof í fæðingarorlofi skerðir ekki möguleika félaga á úthlutun úr sjóðnum enda sé stéttarfélagsgjald greitt á orlofstímabili.
  • Atvinnuleysi: Við atvinnumissi viðhalda félagar í sjóðnum áunnum réttindum sínum í allt að 12 mánuði. Aðildarfélögum er heimilt að framlengja þetta tímabil upp í 3 ár gegn því að greiða 0,22% iðgjald til sjóðsins af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnuleysis félagsmanna sinna.
  • Launalaust leyfi: Félagar viðhalda áunnum réttindum sínum fyrstu 6 mánuði í launalausu leyfi.
  • Veikindi: Félagar viðhalda áunnum réttindum sínum í sjóðnum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM. Eins er farið með mál sjóðfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun og þeirra sem atvinnulausir eru.

Stjórn styrktarsjóðsins metur hvort unnt sé að brúa rof á aðild með hliðsjón af eldri sjóðsaðild. Rof getur aldrei orðið lengra en 6 mánuðir.

Umsóknarferli

Umsóknum í Starfsmenntunarsjóð skal skilað rafrænt á Mínum síðum. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram á fimmtudegi í hverri viku.

Meðferð umsókna

Starsfólk sjóðsins afgreiðir umsóknir samkvæmt úthlutunarreglum. Umsækjendur fá svarpóst þar sem fram kemur hvort umsóknin hafi verið samþykkt eða ekki, og hvaða gögnum þurfi að skila til að unnt sé að greiða styrkinn út.

Ef félagi í sjóðnum sættir sig ekki við ákvörðun starfsfólks sjóðsins hefur hann rétt á að vísa máli sínu til stjórnar Starfsmenntunarsjóðs BHM. Verkefni sem vafi leikur á að falli að reglum sjóðsins eru lögð fyrir stjórnina. Hún kemur saman einu sinni í mánuði.

Fylgigögn

Fylgigögnum er skilað til sjóðsins í gegnum Mínar síður. Upphæðir styrkja miðast við framlagða reikninga og þá er gerð krafa um að þeir séu greiddir. Aðeins eru veittir styrkir vegna reikninga sem eru í nafni umsækjanda. Svokallaðir e-miðar frá flugfélögum og staðfestingar á bókunum teljast ekki fullnægjandi staðfesting á greiðslu.

Sé sótt um styrk vegna skipulagðra kynnisferða þarf auk reikninga/greiðslukvittana að skila inn árituðu bréfi frá yfirmanni eða umsjónarmanni ferðarinnar og/eða þátttakendalista. Einnig skal fylgja með ítarleg dagskrá faglegs hluta ferðarinnar sem tiltekur þá staði sem heimsóttir eru, hvert efni kynningar er á hverjum stað og tímasetningar.

Greiðsla styrkja

Starfsmenntunarsjóður BHM greiðir að jafnaði út styrki í hverri viku. Starfsfólk sjóðsins áskilur sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrkja. Félagar í sjóðnum bera sjálfir ábyrgð á að skila inn öllum tilskildum gögnum.

Ef styrkloforðs er ekki vitjað, eða tilskilin gögn berast ekki sjóðnum innan 12 mánaða frá dagsetningu á tilkynningu um styrkveitingu, fellur loforð um styrk niður.