Jafnlaunavottun er eitt þeirra verkfæra sem notuð eru til að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.
Jafnlaunavottun tekur til fyrirtækja og stofnana þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli. Markmið jafnlaunastaðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynjanna á vinnustað sínum með því að setja upp gæðastjórnunarkerfi sem tryggi að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Jafnlaunastaðallinn var búinn til í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Staðallinn er aðgengilegur hjá Staðlaráði Íslands.
Fyrirtæki eða stofnun þar sem 25–49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli hefur val um að gangast undir jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu sem Jafnréttisstofa veitir.
Jafnlaunastaðfesting er staðfesting Jafnréttisstofu á því að lögð hafi verið fram gögn sem sýna fram á að launakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess mismuni ekki starfsfólki í launum á grundvelli kyns. Sjá nánar reglugerð um framkvæmd jafnlaunastaðfestingar og eftirlit Jafnréttisstofu.
Sjá einnig heimasíðu Jafnréttisstofu.