Stjórnunarréttur vinnuveitanda er rétturinn til að skipuleggja og stýra vinnu starfsfólks og hafa eftirlit með frammistöðu þess, sem og að taka ákvörðun um ráðningu starfsfólks og uppsagnir. Stjórnunarrétturinn er ekki lögfestur heldur er hann grundvöllur allra vinnusambanda og viðurkenndur sem ein af meginreglum vinnuréttarins.
Stjórnunarréttur vinnuveitanda sætir fjölmörgum takmörkunum sem leiða af ráðningarsamningi einstakra starfsmanna, ákvæðum laga og kjarasamninga. Má sem dæmi nefna ákvæði um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, orlofslög, lög um bann við mismunun á vinnumarkaði, reglur um uppsagnarvernd starfsfólks á ákveðnu sviðum og reglur um upplýsingar og samráð. Eins má nefna grundvallarréttindi launafólks, þ.m.t. rétt til stéttarfélagsaðildar og verkfallsrétt.
Ríkisstarfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga hafa þá sérstöðu umfram starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði að um starfsskyldur þeirra í vinnusambandi er sérstaklega kveðið á um í lögum og kjarasamningum. Í þeim ákvæðum er komið inn á þá þætti sem felast almennt í stjórnunarrétti vinnuveitanda.