Stytting vinnuvikunnar
Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 var kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma dagvinnufólks og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Samið var um að styttingin skyldi taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021.
Meginmarkmið breytinganna var að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.
Stytting vinnutíma í dagvinnu er útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig. Útfærslan getur því verið með mismunandi hætti og ræðst af því hvað hentar vinnustaðnum og starfsmönnum þess best.
Með samkomulagi meirihluta starfsfólks á viðkomandi stofnun um aðlögun vinnutíma að þörfum stofnunar og starfsfólks, með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnun sérstöðu, er heimilt að stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku.
Við hámarks styttingu (4 stundir) verður grein 3.1 um matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili óvirk.
Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.
Ítarlegar upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar eru á betrivinnutimi.is