Skip to content

Vaktavinna

Í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir 2019-2020 er samkomulag um breytingar á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu.

Breytingar á skipulagi vakavinnu tóku gildi 1. maí 2021. Mat á framgangi breytinga verður gert við lok samningstímans sem er 31. mars 2023.

Samkomulagið felur í sér að vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 stundum í 36 virkar stundir, fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda. Launamyndun vaktavinnufólks breytist og tekur meira mið af vaktabyrði en áður.

Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta vinnu og einkalíf, þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og vinnustöðum Reykjavíkurborgar, að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning.

Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall. Hefur það í för með sér hærri laun og ævitekjur.

Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma með eftirfarandi hætti:

· 33,33% kl. 17:00 – 24:00 mánudaga til fimmtudaga

· 55,00% kl. 17:00 – 24:00 föstudaga

· 65,00% kl. 00:00 – 08:00 þriðjudaga til föstudaga

· 55,00% kl. 08:00 – 24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga

· 75,00% kl. 00:00 – 08:00 laugardaga, sunnudaga, mánudaga og sérstaka frídaga

· 90,00% kl. 00:00 – 24:00 stórhátíðardaga, þó þannig að á frá kl. 16:00 til 24:00 á aðfangadag og gamlársdag og kl. 00:00 til 08:00 á jóladag og nýársdag er 120% álag.

Brot úr klukkustund greiðist hlutfallslega.

Nánari upplysingar um breytingar á vaktavinnu eru á betrivinnutími.is

Stýrihópur skipaður fulltrúum samningsaðila ber ábyrgð á innleiðingu og eftirfylgni samkomulags um útfærslu vinnutíma vaktavinnufólks.

Vaktskrá

Samkvæmt grein 2.6.2 kjarasamnings skal vaktskrá er sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst nema samkomulag sé við starfsmenn um skemmri frest.

Ef vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst., skal viðkomandi starfsmanni greitt aukalega 3 klst. í yfirvinnu. Sé fyrirvarinn 24-168 klst. (ein vika) skal greiða 2 klst. í yfirvinnu. Hér er eingöngu átt við breytingu á skipulagðri vakt en ekki aukavakt. Taki starfsmaður vakt umfram vinnuskyldu, með minna en 24 klst. fyrirvara á tímabilinu kl. 17:00-24:00 á föstudögum, kl. 24:00-08:00 mánudaga til föstudaga, kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga, sbr. gr. 2.1.4.2 miðað við 8 klst. vakt, skal greiða 2 klst. í yfirvinnu og hlutfallslega fyrir lengri eða styttri vaktir.

Við skipulag vaktavinnu og gerð vaktskrár er mikilvægt að hafa í huga meginreglur hvíldartímalöggjafar um 11 tíma hvíld á sólarhring, vikulegan frídag og 48 klst. hámarksvinnuskyldu á viku. Æskilegt er að vaktir séu skipulagðar réttsælis eftir sólarhringnum og líkamsklukkunni, þannig að fyrst komi morgunvakt, svo kvöldvakt, svo næturvakt og svo hvíld.

Í leiðbeiningum stýrihóps um vaktavinnu er lögð áhersla á að framangreind hvíldartímaákvæði séu höfð í huga við ákvörðun um lengd vakta.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur birt kynningarefni á vef sínum sem helgað er breytingum á vaktavinnu.

Almennur vinnumarkaður

Fjallað er um vaktavinnu, vaktaálag o.fl. í grein 2.6 í kjarasamningi SA og BHM. Þar segir að heimil sé með samkomulagi við starfsmann að skipuleggja vinnu þannig að unnið sé á vöktum. Vaktir skulu ákveðnar að jafnaði fyrir fjórar vikur í senn. Vaktskrá, er sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns, skal lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst, nema samkomulag sé við starfsmann um skemmri frest.