Dag­vinna

Vinnuvika dagvinnufólks í dag er 40 stundir en heimilt er að stytta hana um fjórar klukkustundir á viku, eða í allt að 36 stundir, án launaskerðingar.

Ríkisstarfsmenn

Samkvæmt kjarasamningum milli ríkisins og aðildarfélaga BHM frá árinu 2024/2025 er vinnuvikan 36 stundir fyrir dagvinnufólk í almennum störfum. Þetta á við um fulla stöðu í hefðbundinni dagvinnu (milli kl. 08:00 og 17:00).

Sveitarfélög (t.d. Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga):

Hjá flestum starfsmönnum sveitarfélaga í dagvinnu er vinnuvikan einnig 36 stundir.

Dagvinna

Dagvinna samkvæmt ráðningarsamningi er unnin á tímabilinu kl. 08:00-17:00 frá mánudegi til föstudags.

Forstöðumanni stofnunar er heimilt að verða við óskum einstakra starfsmanna um rýmkun á dagvinnutímabili og um ákveðið frjálsræði um hvenær vinnuskyldu er gegnt.

Dagvinnutímabilið er haft rýmra en hin daglega vinnuskylda og býður atvinnurekendum og starfsfólki upp á ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun eða samninga um hvenær vinna skuli hefjast að morgni og ljúka að kvöldi.

Fjöldi vinnustunda í dagvinnu tekur mið af samkomulagi starfsfólks um styttingu vinnuvikunnar á hverjum vinnustað.

Félagsfólki er ráðlagt að hafa samband við sitt aðildarfélag innan BHM um þær reglur sem gilda um styttingu vinnuvikunnar hjá þeirri stofnun eða fyrirtæki þar sem það starfar.

Yfirvinna

Samkvæmt almennri skilgreiningu telst yfirvinna sú vinna sem unnin er utan tilskilins dagvinnutímabils eða umfram umsamdar vaktir, sé um vaktafyrirkomulag að ræða.

Að meginstefnu til er launafólki á almennum vinnumarkaði ekki skylt að vinna yfirvinnu þótt eftir því sé leitað, nema það leiði af ákvæðum kjarasamnings, vegna samkomulags um vinnufyrirkomulag eða vegna sérstöðu starfa, sbr. m.a. dóm Félagsdóms frá 22. maí 1986. Þá kunna að vera ákvæði í ráðningarsamningi um skyldu til yfirvinnu, auk þess sem lög kunna að mæla fyrir um yfirvinnuskyldu. Í þeim efnum er veigamest sú skylda, sem lögð er á starfsmenn ríkisins samkvæmt 2. mgr. 17. gr. starfsmannalaga, til að vinna þá yfirvinnu, sem forstöðumaður telur nauðsynlega.

Meginmarkmið samkomulags um styttingu vinnuvikunnar 2019-2020 í allt að 36 virkar vinnustundir á viku var að stytta heildarvinnutíma en ekki að hann færist í yfirvinnu. Þannig á stytting vinnuvikunnar almennt ekki að hafa áhrif á yfirvinnu dagvinnufólks.

Laun starfsmanna eiga ekki að lækka við styttingu vinnutíma en að sama skapi er ein helsta forsenda styttingarinnar að hún verði ekki til þess að auka útgjöld vinnustaðarins.

Laun fyrir yfirvinnu

Um tímakaup í yfirvinnu er fjallað í grein 1.5. í kjarasamningi BHM.

Yfirvinnu er skipt í yfirvinnu 1 (YV1) og yfirvinnu 2 (YV2).

Tímakaup YV1 er 0,9385% af mánaðarlaunum og tímakaup YV2 er 1,0385% af mánaðarlaunum.

Ríkið

  • YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga.
  • YV2 er greitt eftir það og um helgar og sérstaka frídaga.
  • Tímakaup yfirvinnu 2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 38,92 stundir á viku (168,63 stundir miðað við meðalmánuð).

Reykjavíkurborg

  • YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar.

Sveitarfélög

  • YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar.

Í flestum kjarasamningum er ákvæði um frí í stað yfirvinnu.

Hjá hinu opinbera er starfsmönnum heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að safna frídögum vegna yfirvinnu á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar og frítöku en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Minnt skal á að ávallt ber að greiða yfirvinnuálagið.

Bakvaktir

Til viðbótar venjulegum vinnutíma geta komið bakvaktir sem ákveðnar eru af yfirmanni.  Með bakvakt er átt við að starfsmaður sé ekki við störf en er reiðubúinn að sinna útkalli. Það telst ekki bakvakt ef starfsmaður dvelst á vinnustað að beiðni yfirmanns.

Bakvaktargreiðsla eða bakvaktarálag er vaktaálag sem reiknast sem hlutfall af dagvinnukaupi. Hlutfallið er mismunandi eftir tíma sólarhrings og hvaða vikudag er um að ræða.

Samkvæmt grein 1.6.2 kjarasamnings BHM reiknast greiðsla fyrir bakvaktir af dagvinnukaupi starfsmanns með eftirtöldum hætti:

  • 33,33% kl. 17:00-24:00 mánudaga til fimmtudaga
  • 45,00% kl. 17:00-24:00 föstudaga
  • 45,00% kl. 00:00-08:00 mánudaga
  • 33,33% kl. 00:00-08:00 þriðjudaga til föstudaga
  • 45,00% kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga
  • 90,00% kl. 00:00-24:00 stórhátíðardaga, sbr. gr. 2.1.4.3

Brot úr klst. greiðist hlutfallslega. Um greiðslur fyrir útköll á bakvakt gilda gr. 2.3.3.1 og 2.3.3.2.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við hið opinbera eru ákvæði um frí fyrir reglubundna bakvakt, sem skipulögð er allt árið. Frí þetta svarar 1 klst. fyrir hverja 15 klst. á bakvakt en getur að hámarki orðið 80 stundir. Taka bakvaktarfrís fer fram árið eftir ávinnsluna og er oftast miðað við almanaksárið, 1. janúar til 31. desember ár hvert. Þess eru líka dæmi að notað sé orlofsárið, þ.e. 1. maí til 30. apríl. Leyfið má veita hvenær árs sem er, en ekki er heimilt að flytja það á milli ára.

Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði er að finna heimildarákvæði um annað fyrirkomulag greiðslna fyrir bakvaktir. Þá er t.d. heimilt að semja um ákveðinn fjölda klukkustunda fyrir bakvaktir án tillits til tímalengdar.

Skráning vinnutíma

Vinnuveitandi hefur ákvörðunarvald um tilhögun og útfærslu vinnutíma starfsfólks, þ.m.t. vaktavinnu, innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum. Í því efni reynir ekki aðeins á skilgreiningu daglegs og vikulegs vinnutíma, heldur einnig hvíldartímaákvæði, reglur um neysluhlé, frídaga o.fl.

Flestar ríkisstofnanir nota skráningarkerfið Vinnustund sem heldur utan um tíma- og fjarvistarskráningar starfsfólks í dagvinnu- og vaktavinnu.

Kerfið skráir einnig réttindaávinnslu vegna orlofs, frítöku vegna hvíldartímareglna o.fl.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt