20 ár án kaupmáttaraukningar
Átta tíma vinnudagur, stytting vinnuvikunnar, helgarfrí, launað fæðingarorlof, veikindaréttur, orlofsréttur, atvinnuleysistryggingar, lífeyrisréttindi og örorkubætur. Þessi lífsgæði eru ekki sjálfsprottin heldur afrakstur af áratuga langri réttlætisbaráttu íslensku verkalýðshreyfingarinnar; stærsta lýðræðislega umbótaafls á Íslandi. Í dag, á alþjóðlegum baráttudegi vinnandi fólks, göngum við saman fylktu liði til að fagna unnum sigrum en horfum einnig til nýrra áskorana. Opinskátt samtal um áskoranir og aðlögunarhæfni hreyfingarinnar að nýjum tímum gæti skipt sköpum fyrir hagsmuni launafólks.