

Yfirlit formanns
Meðal þess sem unnið er að á vettvangi bandalagsins á þessum síðustu dögum áður en flest starfsfólk hefur sumarleyfi eru stór verkefni eins og áfangasamkomulag II um jöfnun launa milli markaða og útreikningur launatöfluauka kjarasamninga. Bæði málin eru enn í deiglunni. Nefnd um launatöfluauka er enn að störfum og undirhópur um jöfnun launa milli markaða hefur einbeitt sér að útfærslu varðandi þátt ríkisins í samkomulaginu. Þar hefur áherslan verið á heilbrigðishópana en vinnan við að skoða háskólahópana er ekki hafin. Þá er vinnan við þátt sveitarfélaganna stutt á veg komin. Vinnunni við jöfnun launa er því ekki lokið en vonir standa til að niðurstaða í öllum þáttum málsins muni liggja fyrir á haustdögum.
Af öðrum málum sem eru til meðferðar á skrifstofunni má nefna væntanlega skýrslu um virði háskólamenntunar. Vinnan við hana er á góðum rekspöl og yfirlestur á lokadrögum stendur yfir. Stefnt er að því að hún verði kynnt aðildarfélögum að loknum sumarfríum og 9. september er stefnt að því að halda opið málþing þar sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum hennar.
Fyrstu fundir allra fastanefnda BHM hafa nú verið haldnir, erindisbréf kynnt og byrjað að huga að starfsáætlunum næsta starfsárs. Formaður jafnréttisnefndar verður áfram Sunna Símonardóttir en lífeyris- og lánanefnd hefur fengið nýjan formann, Gunnar Alexander Ólafsson. Formaður kjaranefndar verður valinn á fyrsta fundi eftir sumarfrí.
BHM hefur skipað fulltrúa í starfshóp sem ætlað er að skoða launaviðmið þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna sem fá laun ákvörðuð samkvæmt lagaákvæðum. Í tilnefningarbeiðni er gert ráð fyrir að BHM, BSRB og KÍ eigi sameiginlega eitt sæti í starfshópnum og hefur orðið að samkomulagi milli þessara bandalaga að BHM fái að tilnefna. Stjórn BHM hefur ákveðið að fela Andra Val Ívarssyni, lögmanni BHM, að taka sæti í hópnum og að Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, verði varamaður hans.
Af viðburðum sumarsins, sem BHM mun sinna, er Gleðigangan í Reykjavík, sem fram fer fram laugardaginn 9. ágúst. Stefnt er að sameiginlegri þátttöku ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, svo sem verið hefur undanfarin ár. Gangan er í senn kröfuganga hinsegin fólks, sem kallar eftir jafnrétti, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar, sem og vettvangur til að fagna því sem hefur unnist í baráttunni.
Nú er rétt að beina sjónum að sól og sumri. Það er von mín að þau sem standa vaktina fyrir aðildarfélög BHM og sinna þjónustu við félagsfólk eigi gott og gjöfult sumarleyfi. Við getum þakkað góðan árangur af stöfum vetrarins og fáum kærkomið tækifæri til að hlaða tankana fyrir verkefnin fram undan.

BHM varar við veikingu jafnlaunavottunar

Ríkið dæmt að greiða starfsmanni orlof á fasta yfirvinnu

Afnám víxlverkunar örorkulífeyrisgreiðslna

Hagkorn - Laun og launaþróun 2019-2025 - yfirlit frá Hagfræðingi BHM

Loftslagsbreytingar ógna öryggi vinnandi fólks - ETUC kallar eftir lagasetningu

Nýjar úthlutnarreglur Styrktarsjóðs BHM
Aðildarfélög BHM hafa ekki farið varhluta af fyrirhuguðum breytingum á úthlutunarreglum Styrktarsjóðs BHM þar sem ítarleg stefnumótunarvinna og yfirhalning hefur farið fram undanfarin misseri. Nú sér fyrir endann á þeirri vinnu og stefnt að því að nýjar úthlutunarreglur sjóðsins taki gildi þann 1. september næstkomandi.
Aðildarfélögin munu fá sent sérstakt kynningarefni um nýju reglurnar en félagsfólki verða kynntar breytingarnar rækilega þegar nær dregur.

Mikil ánægja og áhugi á auknu framboði orlofskosta
Góð þátttaka í könnun OBHM
Um 34% þeirra tæplega 10.000 félagsmanna sem eru á póstlista í Orlofssjóði BHM (OBHM) svöruðu henni um orlofskosti. Könnunin fór fram dagana 13. mars til 4. apríl 2025 og gefur dýrmæta innsýn í nýtingu, ánægju og framtíðaróskir félagsmanna.
Hlíðarfjall og Brekkuskógur í sérstöku uppáhaldi
Rúmlega fjórðungur þátttakenda hafði nýtt sér orlofskosti OBHM á síðustu 12 mánuðum, en heildarnýting er enn meiri – alls 77% höfðu nýtt sér þjónustuna einhvern tímann. Mestu vinsælda njóta húsin í Hlíðarfjalli við Akureyri og G-húsin í Brekkuskógi. Þar að auki höfðu 67% nýtt gjafabréf Icelandair og 52% ferðaávísanir.
Fjölbreytt nýting eftir búsetu og aldri
Brekkuskógur var það svæði sem flestir nýttu, í takt við fjölda eigna á svæðinu. Konur voru líklegri en karlar til að velja norðanvert landið og eldri þátttakendur nýttu frekar orlofskosti í Reykjavík.
Ánægja með þjónustuna – og skýr framtíðarsýn
Almennt eru þátttakendur ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu og vilja sjá þróun áfram. Rúmur helmingur óskaði eftir fjölgun orlofskosta innanlands og um fimmtungur vill frekari niðurgreiðslu á gjafabréfum í flug. Norðurland, Suðurland og Vesturland njóta mestrar eftirspurnar þegar spurt er um framtíðaruppbyggingu en búseta hefur þar talsverð áhrif.
Mótunarvinna og yfirhalning hefur farið fram undanfarin misseri. Nú sér fyrir endann á þeirri vinnu og stefnt að því að nýjar úthlutunarreglur sjóðsins taki gildi þann 1. september næstkomandi. Aðildarfélögin munu fá sent sérstakt kynningarefni um nýju reglurnar en félagsfólki verða kynntar breytingarnar rækilega þegar nær dregur.