Fréttabréf BHM - júlí

Línan - Fréttabréf BHM
Línan - Fréttabréf BHM

Yfirlit formanns

Meðal þess sem unnið er að á vettvangi bandalagsins á þessum síðustu dögum áður en flest starfsfólk hefur sumarleyfi eru stór verkefni eins og áfangasamkomulag II um jöfnun launa milli markaða og útreikningur launatöfluauka kjarasamninga. Bæði málin eru enn í deiglunni. Nefnd um launatöfluauka er enn að störfum og undirhópur um jöfnun launa milli markaða hefur einbeitt sér að útfærslu varðandi þátt ríkisins í samkomulaginu. Þar hefur áherslan verið á heilbrigðishópana en vinnan við að skoða háskólahópana er ekki hafin. Þá er vinnan við þátt sveitarfélaganna stutt á veg komin. Vinnunni við jöfnun launa er því ekki lokið en vonir standa til að niðurstaða í öllum þáttum málsins muni liggja fyrir á haustdögum.

Af öðrum málum sem eru til meðferðar á skrifstofunni má nefna væntanlega skýrslu um virði háskólamenntunar. Vinnan við hana er á góðum rekspöl og yfirlestur á lokadrögum stendur yfir. Stefnt er að því að hún verði kynnt aðildarfélögum að loknum sumarfríum og 9. september er stefnt að því að halda opið málþing þar sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum hennar.

Fyrstu fundir allra fastanefnda BHM hafa nú verið haldnir, erindisbréf kynnt og byrjað að huga að starfsáætlunum næsta starfsárs. Formaður jafnréttisnefndar verður áfram Sunna Símonardóttir en lífeyris- og lánanefnd hefur fengið nýjan formann, Gunnar Alexander Ólafsson. Formaður kjaranefndar verður valinn á fyrsta fundi eftir sumarfrí.

BHM hefur skipað fulltrúa í starfshóp sem ætlað er að skoða launaviðmið þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna sem fá laun ákvörðuð samkvæmt lagaákvæðum. Í tilnefningarbeiðni er gert ráð fyrir að BHM, BSRB og KÍ eigi sameiginlega eitt sæti í starfshópnum og hefur orðið að samkomulagi milli þessara bandalaga að BHM fái að tilnefna. Stjórn BHM hefur ákveðið að fela Andra Val Ívarssyni, lögmanni BHM, að taka sæti í hópnum og að Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, verði varamaður hans.

Af viðburðum sumarsins, sem BHM mun sinna, er Gleðigangan í Reykjavík, sem fram fer fram laugardaginn 9. ágúst. Stefnt er að sameiginlegri þátttöku ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, svo sem verið hefur undanfarin ár. Gangan er í senn kröfuganga hinsegin fólks, sem kallar eftir jafnrétti, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar, sem og vettvangur til að fagna því sem hefur unnist í baráttunni.

Nú er rétt að beina sjónum að sól og sumri. Það er von mín að þau sem standa vaktina fyrir aðildarfélög BHM og sinna þjónustu við félagsfólk eigi gott og gjöfult sumarleyfi. Við getum þakkað góðan árangur af stöfum vetrarins og fáum kærkomið tækifæri til að hlaða tankana fyrir verkefnin fram undan.

BHM varar við veikingu jafnlaunavottunar

BHM hefur skilað umsögn um áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á reglum um jafnlaunavottun, sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögninni varar BHM við því að fyrirhugaðar breytingar, sem mögulega fela í sér hækkun stærðarmarka fyrirtækja og stofnana sem falla undir núverandi jafnlaunakerfi, gætu skilið stóran hluta vinnumarkaðarins eftir utan formlegs eftirlits.

Bandalagið lýsir sig reiðubúið til samstarfs um úrbætur á núverandi kerfi, en hafnar afturför réttinda.

Ríkið dæmt að greiða starfsmanni orlof á fasta yfirvinnu

Landsréttur kvað nýverið upp dóm (19. júní 2025, mál nr. 361/2024) þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða starfsmanni sínum, bílstjóra ráðherra, orlof af föstum yfirvinnulaunum hans.

Málið snerist um hvort fastar yfirvinnugreiðslur bæru með sér rétt til orlofslauna, þar sem hvorki ráðningarsamningur né kjarasamningur undanskildi slíkt sérstaklega. Starfsmaðurinn vísaði m.a. til ákvæðis í kjarasamningi Félags starfsmanna stjórnarráðsins og dreifibréfs fjármálaráðuneytisins nr. 2/2006, sem kveður á um að samið skuli sérstaklega ef orlof á að teljast innifalið í föstum yfirvinnulaunum.

Ríkið hélt því fram að orlof væri þegar innifalið þar sem starfsmanninum hefðu borist föstu yfirvinnugreiðslurnar óskertar allt árið, einnig í orlofi, og að tómlæti ætti að útiloka kröfuna. Bæði héraðsdómur og Landsréttur féllust ekki á þessi rök. Sönnunarbyrðin um að samið hafi verið sérstaklega um að orlof væri innifalið í föstum yfirvinnugreiðslum hvílir á vinnuveitanda. Ríkissjóði tókst ekki sú sönnun.

Niðurstaðan gæti haft fordæmisgildi í sambærilegum málum.

Afnám víxlverkunar örorkulífeyrisgreiðslna 

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um afnám svokallaðrar víxlverkunar örorkulífeyrisgreiðslna var nýverið lagt fram á Alþingi og er gert ráð fyrir að lagabreytingin taki gildi samhliða gildistöku nýs örorku- og endurhæfingarkerfis 1. september næstkomandi. Víxlverkun hefur hingað til valdið því að greiðslur frá Tryggingastofnun skerða lífeyrissjóðsgreiðslur og öfugt, sem bitnar beint á fjárhag þeirra sem treysta á örorkubætur.

Með afnámi víxlverkunar á að tryggja að greiðslur frá almannatryggingum skili sér óskertar til fólks með skerta starfsgetu og stuðli þannig að auknu fjárhagslegu öryggi í samræmi við hið nýja kerfi.

BHM er hlynnt því markmiði frumvarpsins að komið verði í veg fyrir víxlverkunina, en leggur ríka áherslu á að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða verði tryggt þegar víxlverkunin hverfur. Slíkt jöfnunarframlag er nauðsynlegt til að forðast að aukin greiðsluábyrgð lendi einhliða á sjóðum sem bera mikla örorkubyrði og til að verja réttindi sjóðfélaga til framtíðar.

Hagkorn - Laun og launaþróun 2019-2025 - yfirlit frá Hagfræðingi BHM

Hagfræðingur BHM hefur tekið saman helstu niðurstöður um laun og launaþróun á tímabilinu 2019 til janúar 2025, byggt á nýjustu gögnum Kjaratölfræðinefndar (KTN). Vorskýrsla nefndarinnar kom út 13. júní síðastliðinn og veitir mikilvæga innsýn í þróun launa, launadreifingu og mismun milli markaða og heildarsamtaka.

Meðalheildarlaun fullvinnandi launafólks á íslenskum vinnumarkaði voru 984 þúsund krónur á mánuði árið 2024, en miðgildið var 876 þúsund krónur. Hæstu heildarlaunin voru greidd af ríkinu, þar sem meðalheildarlaun voru um 1.069 þúsund krónur, en lægstu launin voru greidd hjá Reykjavíkurborg, að meðaltali 829 þúsund krónur. Mikilvægt er að hafa í huga að samsetning starfa hefur veruleg áhrif á þessi meðaltöl, en t.d. eru sérfræðingar 57% starfsfólks ríkisins, 31% hjá sveitarfélögum, en aðeins um 9% á almenna vinnumarkaðnum.

Laun BHM eru almennt hærri en hjá öðrum heildarsamtökum á öllum mörkuðum nema ríkinu. Á almenna markaði voru meðalheildarlaun BHM um 1.153 þúsund krónur, samanborið við 1.019 þúsund krónur hjá ríkinu. Á almenna markaði eru fastlaunasamningar algengari og samsetning launa ólík þeirri sem tíðkast hjá hinu opinbera, þar sem yfirvinnugreiðslur og launaaukar vega þyngra.

Þegar horft er til launadreifingar kemur í ljós að tíundastuðlar – sem mæla hlutfall launa efstu og neðstu tíunda – eru hæstir á almennum markaði: 2,63 hjá körlum og 2,35 hjá konum. Þetta þýðir að efstu 10% launþega á almenna markaði hafa rúmlega 2,6 sinnum hærri laun en neðstu 10%. Hjá opinbera liggja stuðlarnir á bilinu 1,84 til 2,24. Þróun síðustu ára sýnir þó að launamunur milli hæstu og lægstu hópa hefur almennt dregist saman, sérstaklega á tímabilinu 2019–2022, þar sem krónutöluhækkanir skiluðu hlutfallslega stærri hækkunum hjá lægstu tekjuhópum.

Kaupmáttaraukning hefur verið misjöfn milli heildarsamtaka og markaða. Hjá BHM hefur kaupmáttur grunntímakaups aukist um 6–14% frá 2019 til 2025 og reglulegs tímakaups um 6–15%. Til samanburðar hefur kaupmáttaraukning ASÍ-Reykjavíkur numið 28% í grunntímakaupi og heilum 53% í reglulegu tímakaupi á sama tímabili. Þrátt fyrir að sumir hópar, sérstaklega innan KÍ, virðist hafa staðið í stað þá ber að hafa í huga að nýlegar kjarasamningshækkanir þeirra í ársbyrjun 2025 eru ekki teknar með í þeim gögnum sem skýrslan byggir á og gefa því ekki fullkomna mynd.

Launavísitala byggir um 70% á almenna markaðnum og um 30% á þeim opinbera, sem þýðir að þróun á almenna markaði hefur meiri áhrif á heildarniðurstöður. Það undirstrikar mikilvægi þess að rýna í sundurliðun eftir mörkuðum og stéttarfélögum. Vægi BHM er mest hjá ríki, þar sem félagið nær til um þriðjungs launafólks, en er minna á öðrum mörkuðum.

Loftslagsbreytingar ógna öryggi vinnandi fólks - ETUC kallar eftir lagasetningu

Evrópusamtök stéttarfélaga (ETUC) hafa sent frá sér skýlausa áskorun til framkvæmdastjórnar ESB um að setja skuldbindandi reglur um vernd starfsmanna gegn vinnu í óbærilegum hita. Tilefnið er sívaxandi hætta sem stafar af hlýnun jarðar, en fjöldi dauðsfalla í tengslum við vinnu í hita í Evrópu hefur aukist um 42% frá árinu 2000.

ETUC bendir sérstaklega á þá sem vinna við útivinnu, í tímabundnum störfum eða við ótrygg kjör – þar á meðal farandverkafólk og aðra jaðarsetta hópa. Með ályktun sinni krefst ETUC að hámarkshitastig í vinnu verði skilgreint með lögum, að vinnuveitendur framkvæmi hitatengda áhættumatið með aðkomu stéttarfélaga og að verkafólk fái rétt til hléa, kælimöguleika og læknisskoðana án þess að bíða skaða.

Hér á landi hafa stjórnvöld sett sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, en framkvæmdin hefur oft látið á sér standa. BHM hefur sett sér stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum og telur nauðsynlegt að raddir launafólks heyrist í þeirri baráttu.

Eins og ETUC bendir réttilega á: loftslagið er sameiginleg auðlind allra – og loftslagsbreytingar eru líka vinnuverndarmál.

Nýjar úthlutnarreglur Styrktarsjóðs BHM

Aðildarfélög BHM hafa ekki farið varhluta af fyrirhuguðum breytingum á úthlutunarreglum Styrktarsjóðs BHM þar sem ítarleg stefnumótunarvinna og yfirhalning hefur farið fram undanfarin misseri. Nú sér fyrir endann á þeirri vinnu og stefnt að því að nýjar úthlutunarreglur sjóðsins taki gildi þann 1. september næstkomandi.

Aðildarfélögin munu fá sent sérstakt kynningarefni um nýju reglurnar en félagsfólki verða kynntar breytingarnar rækilega þegar nær dregur.

Mikil ánægja og áhugi á auknu framboði orlofskosta

Góð þátttaka í könnun OBHM

Um 34% þeirra tæplega 10.000 félagsmanna sem eru á póstlista í Orlofssjóði BHM (OBHM) svöruðu henni um orlofskosti. Könnunin fór fram dagana 13. mars til 4. apríl 2025 og gefur dýrmæta innsýn í nýtingu, ánægju og framtíðaróskir félagsmanna.

Hlíðarfjall og Brekkuskógur í sérstöku uppáhaldi

Rúmlega fjórðungur þátttakenda hafði nýtt sér orlofskosti OBHM á síðustu 12 mánuðum, en heildarnýting er enn meiri – alls 77% höfðu nýtt sér þjónustuna einhvern tímann. Mestu vinsælda njóta húsin í Hlíðarfjalli við Akureyri og G-húsin í Brekkuskógi. Þar að auki höfðu 67% nýtt gjafabréf Icelandair og 52% ferðaávísanir.

Fjölbreytt nýting eftir búsetu og aldri

Brekkuskógur var það svæði sem flestir nýttu, í takt við fjölda eigna á svæðinu. Konur voru líklegri en karlar til að velja norðanvert landið og eldri þátttakendur nýttu frekar orlofskosti í Reykjavík.

Ánægja með þjónustuna – og skýr framtíðarsýn

Almennt eru þátttakendur ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu og vilja sjá þróun áfram. Rúmur helmingur óskaði eftir fjölgun orlofskosta innanlands og um fimmtungur vill frekari niðurgreiðslu á gjafabréfum í flug. Norðurland, Suðurland og Vesturland njóta mestrar eftirspurnar þegar spurt er um framtíðaruppbyggingu en búseta hefur þar talsverð áhrif.

Mótunarvinna og yfirhalning hefur farið fram undanfarin misseri. Nú sér fyrir endann á þeirri vinnu og stefnt að því að nýjar úthlutunarreglur sjóðsins taki gildi þann 1. september næstkomandi. Aðildarfélögin munu fá sent sérstakt kynningarefni um nýju reglurnar en félagsfólki verða kynntar breytingarnar rækilega þegar nær dregur.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt