
Í umsögn BHM um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026 er lögð áhersla á að ríkissjóður nýti betur möguleika til aukinnar tekjuöflunar til að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu í menntun, heilbrigði, húsnæði og öðrum innviðum samfélagsins. BHM fagnar áherslu stjórnvalda á stöðugleika í ríkisfjármálum en varar við því að hallalaus rekstur verði tryggður á kostnað opinberrar þjónustu og velferðar almennings.
„Áhersla á stöðugleika ríkisfjármála og hallalausan rekstur er jákvæð og mikilvægt markmið til lengri tíma. Hins vegar má það ekki verða til þess að veikja opinberar stofnanir eða lögboðna þjónustu við almenning.”
Sterkir háskólar og menning grundvöllur atvinnustefnu framtíðar
BHM leggur áherslu á að án öflugra háskóla, rannsókna og skapandi greina verði ekki hægt að byggja upp sjálfbæra atvinnustefnu eða nýsköpun sem standi undir framtíðarmarkmiðum stjórnvalda. Framlög til háskólastigsins hækka aðeins um 1,4% að raunvirði á næsta ári, sem dugar ekki til að styrkja rekstrargrundvöll háskólanna.
Aukin framlög beinast að hluta að byggingaframkvæmdum, á meðan rekstrargrunnur til mannauðs, kennslu og vísinda er áfram þröngur.
Í umsögn BHM er bent á að arðsemi háskólanáms á Íslandi hafi helmingast á síðustu fimmtán árum og sé nú helmingi minni en í flestum OECD-ríkjum. Þessi þróun dregur úr hvata til náms og ógnar framtíðarsamkeppnishæfni landsins.
BHM hvetur til þess að á fjárfestingu í háskólum, vísindum og menningu verði litið sem fjárfestingu í framtíð og verðmætasköpun, ekki sem íþyngjandi útgjöld. Auk þess er hvatt til þess að stjórnvöld tryggi stöðugleika og samkeppnishæf starfsskilyrði á þessum lykilsviðum samfélagsins.
Húsnæðisstuðningur til heimilanna skertur
Að mati BHM er alvarlegt að stjórnvöld hyggist fella niður vaxtabætur og heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán án þess að ný úrræði komi í staðinn. BHM telur að ekki eigi að kippa þessum stuðningskerfum úr sambandi á meðan þau eru til endurskoðunar, enda væri slíkt alvarleg breyting á íslenskri húsnæðisstefnu á tímum mikils kostnaðar og hárrar skuldsetningar heimilanna.
Á sama tíma hefur hlutfall íbúða í eigu lögaðila meira en tvöfaldast frá 2005 í Reykjavík og ungt fólk og fyrstu kaupendur standa núna frammi fyrir húsnæðismarkaði sem einkennist af miklu misvægi. BHM telur að til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði þurfi m.a. að tryggja sanngjarna skattlagningu söluhagnaðar fasteigna og jafna skattalega hvata milli fjárfestinga og heimila, þannig styðji tekjuöflun ríkisins frekar við húsnæðisöryggi almennings en eignasöfnun fárra.
Barnabætur rýrna, millitekjufólk situr eftir
BHM gerir athugasemd við að barnabætur skuli ekki halda verðgildi sínu og að skerðingarmörk skuli vera orðin svo lág að millitekjufólk fái nánast engan stuðning. Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir hækkun barnabóta, sem þýðir að raunvirði þeirra mun rýrna á næsta ári.
Á Íslandi eru barnabætur lágtekjumiðaðar og skerðast mun fyrr en í nágrannalöndum. Fyrir hjón miðast skerðingarmörk við um 11,7 milljónir króna á ári, sem jafngildir aðeins um 487 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt á hvorn makann. Til samanburðar eru skerðingarmörk í Danmörku nærri helmingi hærri. Þar að auki eru fjármagnstekjur teknar með í útreikningum á skerðingum hér á landi, sem veldur því að hjón með hóflegar fjármagnstekjur missa rétt til barnabóta mun fyrr.
Þetta leiðir til þess að stór hluti foreldra með meðaltekjur er nánast útilokaður frá stuðningi barnabótakerfisins. BHM bendir á að endurskoða þurfi bæði skerðingarmörk og hvernig námslán og endurgreiðslur þeirra eru metin í tengslum við bætur, þar sem slíkar greiðslur draga verulega úr ráðstöfunartekjum ungs fólks og foreldra.
Aukin tekjuöflun og sanngjarnt skattkerfi
BHM leggur fram fjórar tillögur sem miða að því að tryggja tekjuöflun ríkisins og réttlátara skattkerfi:
1. Loka svokölluðu „ehf-gati” og jafna skattbyrði milli fjármagns og vinnuafls. Með því að takmarka tekjutilflutning og styrkja þrepaskiptingu fjármagnstekna má jafna byrðar og auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Samtökin kalla eftir endurskoðun á skattalögum til að draga úr hvötum sem leiða til þess að tekjur séu færðar sem arður í stað launa.
2. Endurskoða skattastyrki í ferðaþjónustu, sem koma til af því að greinin nýtur lægri virðisaukaskatts en aðrar atvinnugreinar. Umfang þess stuðnings kemur niður á tekjuöflun ríkisins. Tilefni er til að endurmeta þessa ívilnun þar sem greinin hefur eflst á seinni árum og arðsemin hefur aukist.
3. Ráða niðurlögum svarta hagkerfisins. Óskráð atvinnustarfsemi veldur ríkinu tugmilljarða tekjutapi á ári hverju og grefur undan trausti og samkeppni á vinnumarkaði. BHM hvetur til eflingar skattaeftirlits og að farið verði í sambærilegt þjóðarátak og nágrannalöndin hafa gert til að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Slíkt átak væri til þess fallið að efla heilbrigðan vinnumarkað.
4. Tryggja sanngjarna skattlagningu söluhagnaðar fasteigna. Styðja með því tekjuöflun ríkisins og auka húsnæðisöryggi almennings, í stað þess að hvetja til fjárfestinga á fasteignamarkaði. Sérstaklega þarf að endurskoða skattalega ívilnun sem nýtist aðilum sem hafa ráð á því að eiga fleiri en eina eign og lögaðilum sem líta á fasteignir sem fjárfestingarleið.
Nánar er hægt að lesa um þróun arðsemi háskólanáms í grein BHM um ávinning af háskólamenntun.