Húsnæðisöryggi er forsenda þess að háskólamenntað fólk geti starfað, blómstrað og tekið þátt í samfélaginu. Efnahagsleg staða ungs fólks og þeirra sem koma seint inn á vinnumarkað er í mörgum tilvikum óviðunandi – háar skuldir vegna námslána, hár leigukostnaður og erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði gera fyrstu skrefin að eignamyndun og fjárhagslegu öryggi afar erfið.
BHM krefst þess að stjórnvöld taki ábyrgð á því að tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og fjölga hagkvæmum húsnæðiskostum fyrir ungt og menntað fólk!
Áherslur BHM um sanngjörn húsnæðismál
- Auka framboð hagkvæms húsnæðis í samvinnu við ríki, sveitarfélög og óhagnaðardrifin byggingarfélög. Háskólamenntað fólk kemur seinna inn á húsnæðismarkað og á ekki að þurfa að greiða hærra hlutfall ráðstöfunartekna í húsnæði en aðrir.
- Lækka byggingarkostnað og hraða framkvæmdum. Skipulagsferli þarf að vera skilvirkt og húsnæðisuppbygging stöðug til lengri tíma.
- Fjölga íbúðakostum fyrir fjölbreyttar þarfir. Ríki og sveitarfélög þurfa að tryggja fjölbreyttar lausnir, þar á meðal kaupleiguíbúðir og almennar íbúðir.
- Tryggja sanngjörn lánakjör og leiguvernd. Fyrstu kaupendur þurfa greiðari aðgang að húsnæðislánum, og leigumarkaðurinn þarf að bjóða stöðugleika og öryggi.
- Húsnæðisöryggi er grundvallarréttur – ekki forréttindi. Enginn ætti að lifa í óvissu um framtíðarhúsnæði sitt vegna síhækkandi húsnæðiskostnaðar.
Samstarfstækifæri við stjórnvöld – Húsnæðismál á dagskrá!
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á bætt húsnæðisöryggi og aukna uppbyggingu á húsnæðismarkaði.
BHM er tilbúið í samstarf um að hrinda þessum áherslum í framkvæmd og tryggja að háskólamenntað fólk fái réttláta stöðu á húsnæðismarkaði.
- Styrkja fjármögnun almennra íbúða og kaupleigukerfisins.
- Endurskoða þarf tekjuviðmið í almennu íbúðakerfinu og bæta leiguvernd.
- Hækka frítekjumörk fyrir námsmenn og nýliða á vinnumarkaði.
- Auka fræðslu og stuðning til fyrstu kaupenda.
Húsnæðisöryggi er ein af grunnstoðum réttláts samfélags – BHM mun berjast fyrir betri lausnum fyrir háskólamenntað fólk og ungt launafólk!