Menning og skapandi greinar eru ekki bara afþreying – þær eru grunnstoð samfélags okkar, þjóðarímyndar og efnahagslífs. Listir, menning og skapandi störf eru drifkraftur hugvits, nýsköpunar og samfélagslegrar framþróunar. Þess vegna verður að tryggja að skapandi starf fái raunverulegt vægi í stefnumótun stjórnvalda, með aðgengi að fjármagni, öruggum starfsskilyrðum og skýrum réttindum. Listamenn, hönnuðir, rithöfundar, kvikmyndagerðarfólk og aðrir skapandi starfshópar eiga ekki að búa við óvissu og ótrygg kjör. Það er tími til að efla stuðningskerfi, bæta launakjör og tryggja langtímafjármögnun menningarstofnana!
Krafan er skýr – Sanngjörn staða menningar og lista!
- Auka þarf stuðning við skapandi greinar með öflugri fjármögnun og skýrum stefnumarkmiðum. Menning er ekki skraut, hún er grunnur samfélagsins.
- Tryggja þarf aðgengi að starfslaunum og stuðningskerfum listamanna. Ótryggt tekjuflæði má ekki koma í veg fyrir menningarlega þróun.
- Höfundarréttarlöggjöf þarf að vera skýr og sterk. Listamenn eiga að njóta sanngjarns arðs af verkum sínum.
- Efla þarf íslenska tungu og þýðingastarf. Íslensk menning og tungumál eiga að njóta forgangs í menningarstefnu þjóðarinnar.
- Kjarasamningsumhverfi listamanna þarf að endurskoða. Stundavinna og óreglulegar tekjur mega ekki leiða til lakari réttinda en í öðrum starfsgreinum.
- Fjölbreytni og aðgengi að menningu skiptir máli! Allir eiga að hafa jafnan rétt til að njóta lista og menningar, óháð efnahag eða búsetu.
Samstarfstækifæri við stjórnvöld
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla skapandi greinar sem hluta af fjölbreyttu atvinnulífi framtíðarinnar. Það er mikilvægur grunnur fyrir öflugt samstarf við BHM og aðildarfélög þess.
BHM mun beita sér fyrir:
- Markvissri stefnumótun um list- og menningargreinar með langtímafjármögnun.
- Betra starfsumhverfi listafólks og skapandi starfshópa með öflugum stuðningskerfum.
- Öflugri höfundaréttarlöggjöf sem tryggir tekjur skapandi fólks.
- Úttekt á kjarasamningsumhverfi listamanna með það að markmiði að bæta kjör og starfsöryggi.
- Auknum stuðningi við íslenska tungu, þýðingar og menningarstofnanir.