Laun háskólamenntaðra eiga að endurspegla menntun þeirra, sérfræðiþekkingu og það hagræna virði sem störf þeirra skapa fyrir samfélagið.
Engin önnur starfsstétt sættir sig við að sérfræðiþekking sé lítils metin – þetta er óásættanlegt. BHM krefst tafarlausra aðgerða til að tryggja sanngjörn laun og réttlát kjör!
Háskólamenntað fólk kemur seinna inn á vinnumarkað en aðrir hópar, oft með háar námslánaskuldir á bakinu. Það er óásættanlegt að laun þeirra endurspegli ekki þá fjárfestingu sem einstaklingurinn og samfélagið leggja í menntunina.
Krafan er skýr – Sanngjörn laun fyrir háskólamenntað starfsfólk!
- Laun háskólamenntaðra skulu endurspegla menntun, ábyrgð og framlag þeirra til samfélagsins. Launamunur á milli háskólamenntaðra og þeirra sem hafa ekki stundað háskólanám er hverfandi á Íslandi – en miklu meiri á hinum Norðurlöndunum.
- Tekjutap meðan á námi stendur verður að bæta upp. Lengri námstími þýðir færri starfsár og lakari lífeyrisréttindi. Að halda menntuðu fólki í skuldafjötrum langt fram á starfsævi er samfélagslega skaðlegt – námslánakerfið á að vera fjárhagslegur stuðningur, ekki áþján!
- Stytting vinnuvikunnar á að ná til allra! BHM krefst þess að lög um 40 stunda vinnuviku verði endurskoðuð og að stytting vinnuvikunnar verði tryggð fyrir allar starfsstéttir – ekki bara valda hópa!
- Aukin réttindi til launa í veikindum og sorgarleyfi. Veikindaréttur á að ná til maka og barna allt til 18 ára aldurs. Sorgarleyfi þarf að taka til andláts maka eða annarra nákominna.
- Verkefni rúmist innan eðlilegs vinnutíma! Ef verkefnin rúmast ekki innan hefðbundins vinnutíma þarf annaðhvort að bæta laun eða fjölga stöðugildum.
- Þjóðhagsráð og kjarastefna byggð á staðreyndum! Stjórnvöld verða að tryggja áreiðanlega söfnun og birtingu hagtalna um laun, svo hægt sé að byggja kjaraviðræður á gagnsæjum og traustum gögnum – eins og gert er á hinum Norðurlöndunum!
Samstarf BHM og stjórnvalda
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á bætt lífskjör og efnahagslegt öryggi. Það er jákvætt – en það þarf að fylgja því eftir með raunverulegum aðgerðum!
BHM kallar eftir samstarfi við stjórnvöld til að:
- Endurskoða launasetningu háskólamenntaðra í ljósi alþjóðlegs samanburðar.
- Tryggja að stytting vinnuvikunnar nái til allra starfsstétta.
- Bæta réttindi í veikindaleyfi og sorgarleyfi til að endurspegla nútímafjölskyldur.
- Efla námslánakerfið til að tryggja fjárhagslegt öryggi námsmanna.
- Safna og birta ítarlegar upplýsingar um laun, eins og gert er á hinum Norðurlöndunum.
Með sanngjörnum launum, öruggu starfsumhverfi og betri framtíðarsýn fyrir menntað vinnuafl á Íslandi!