Lífeyriskerfið er ein af grunnstoðum íslensks velferðarkerfis og á að tryggja öryggi fólks á efri árum, sem og þeirra sem missa starfsgetu vegna veikinda eða slysa. BHM krefst þess að lífeyriskerfið verði sanngjarnt, sjálfbært og byggt á skýrum og fyrirsjáanlegum reglum, þar sem réttindi launafólks eru varin.
Áherslur BHM um réttlátt og öruggt lífeyriskerfi
- Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki. Ákvarðanir um lífeyriskerfið mega ekki vera háðar skammtímaáhrifum eða fjárhagslegum hagsmunum lífeyrissjóða. Breytingar á lífeyriskerfi landsmanna, svo sem hækkun lífeyristökualdurs eða breytingar á samsetningu réttinda, verða að vera unnar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.
- Jöfn réttindi og einfaldara kerfi. Ríki og sveitarfélög verða að standa við markmið lífeyrissamkomulags frá 2016 um að lífeyrisréttindi skerðist ekki við samræmingu milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Þá þarf að draga úr tekjutengingu á milli greiðslna úr lífeyris- og almannatryggingakerfinu og einfalda skerðingarreglur.
- Öflug lífeyrissöfnun – ekki skerðing réttinda! Lífeyrissjóðir verða að standa undir ábyrgð sinni gagnvart sjóðfélögum með sjálfbærum fjárfestingum og skynsamlegum rekstri – en ekki með skerðingu réttinda sjóðfélaga.
- Örorkulífeyrir og réttindavernd. Sérstök áhersla þarf að vera á að skoða örorkubyrði lífeyrissjóða og hvernig kerfið styður fólk sem missir starfsgetu. Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða þarf að tryggja afkomu þeirra sem ekki geta starfað.
- Valfrelsi og sveigjanleiki í séreignarsparnaði. Séreignarþáttur lífeyriskerfisins veitir einstaklingum aukið valfrelsi og sveigjanleika, m.a. með því að gera fólki kleift að nota sparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán. Til að þetta nýtist sem skyldi þarf að draga úr flækjustigi og bæta upplýsingagjöf.
Samstarfstækifæri við stjórnvöld
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar leggur áherslu á öflugt lífeyriskerfi og sanngjarnar breytingar. BHM fagnar þessum áherslum en krefst þess að stjórnvöld tryggi að lífeyriskerfið verndi öryggi og réttindi launafólks.
- Gera lífeyriskerfið gagnsærra og einfaldara.
- Endurskoða tekjutengingar og tryggja réttindi lífeyrisþega.
- Viðhalda jöfnum réttindum á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar.
- Styðja sveigjanleika í töku lífeyris með sanngjörnum reglum um séreignarsparnað.