Menntun er ekki aðeins lykill að framtíð einstaklinga – hún er forsenda framþróunar samfélagsins! Háskólamenntun og rannsóknir skapa verðmæti, bæta lífsgæði og styrkja efnahagslífið. Þess vegna verður að tryggja aðgengi að háskólamenntun, efla háskólastarf og tryggja háskólamenntuðum sanngjörn starfskjör.
Krafa BHM er skýr – Öflugt háskólastig og sanngjörn meðferð námsmanna!
- Háskólamenntun í samræmi við alþjóðleg viðmið. Til að íslenskir háskólar standist samanburð við Norðurlönd þarf fjármögnun þeirra að vera sambærileg.
- Menntun skal metin til launa. Það er óásættanlegt að háskólamenntaðir fái ekki sanngjörn laun fyrir sérþekkingu sína.
- Námslánakerfið á ekki að vera skuldafangelsi! Menntasjóður námsmanna á að vera raunverulegur jöfnunarsjóður með sanngjörnu hlutfalli styrkja og lána.
- Sanngjarnar endurgreiðslur námslána. Eðlilegt er að námslán falli niður við töku lífeyris og að leiðrétt verði óhagstæð kjör eldri lána.
- Sterk tengsl háskólamenntunar og atvinnulífs. Námsframboð þarf að taka mið af breytilegum þörfum samfélagsins og tryggja þarf öflugt samstarf milli atvinnulífs og menntastofnana.
- Sí- og endurmenntun er framtíðin! Háskólamenntað starfsfólk á að geta eflt þekkingu sína án þess að það bitni á atvinnuöryggi eða lífeyrisréttindum.
Stjórnvöld verða að axla ábyrgð – Uppbygging háskólastigsins er brýn!
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar leggur áherslu á menntun sem undirstöðu efnahagslegs stöðugleika og nýsköpunar. BHM mun tryggja að þessi stefna skili raunverulegum aðgerðum!
BHM krefst þess að stjórnvöld vinni með háskólasamfélaginu og stéttarfélögum að:
- Aukinni fjármögnun háskóla til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni.
- Heildarendurskoðun námslánakerfisins með áherslu á réttláta endurgreiðslubyrði.
- Að menntun sé metin til launa og starfskjara.
- Bættri tengingu milli náms og atvinnulífs með markvissri stefnumótun.
- Öflugri stuðningi við rannsóknir og nýsköpun í háskólasamfélaginu.
Háskólamenntun er ekki bara fjárfesting í framtíðinni – hún er grunnurinn að nútímaþjóðfélagi sem byggir á þekkingu, nýsköpun og sanngirni.