BHM leggur áherslu á að sjálfbær þróun sé leiðarljósið í allri ákvarðanatöku, hvort sem er hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Markmið um kolefnishlutlaust samfélag verða ekki að veruleika nema með skýrum aðgerðum og samvinnu allra hlutaðeigandi.
Háskólamenntað fólk á mikilvægan þátt í að leiða samfélagið í átt að sjálfbærni. Nýsköpun, rannsóknir og fræðsla eru lykilverkfæri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og umhverfisspjöllum – og hér verður Ísland að vera í fremstu röð!
Krafan er skýr – Aðgerðir fyrir sjálfbæra framtíð
- BHM styður réttlát græn umskipti á vinnumarkaði. Við verðum að tryggja að lögð sé áhersla á sjálfbærni á öllum vinnustöðum.
- Loftslagsaðgerðir verða að byggjast á gagnreyndum lausnum. Það er ekki nóg að setja fram háleit markmið – aðgerðir verða að skila tilætluðum árangri.
- Fyrirtæki og stofnanir verða að setja sér markmið um minni losun. Kolefnisspor verður að vera lykilmælikvarði í allri stefnumótun.
- Auka þarf rannsóknir og fræðslu um sjálfbærni. Ísland á að vera leiðandi í umhverfis- og loftslagslausnum.
- Háskólamenntun er lykillinn að sjálfbærri framtíð! Við þurfum menntakerfi sem styður við nýsköpun í loftslagsmálum og býður upp á nám sem miðar að grænni framtíð.
Samstarfstækifæri við stjórnvöld – Ísland sem leiðandi í loftslagsmálum!
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sjálfbærni sett í forgang, en aðgerðir þurfa að fylgja orðum! BHM mun beita sér fyrir því að stjórnvöld standi við gefin loforð og að loftslagsmarkmið Íslands verði raunhæf og skili árangri.
BHM kallar eftir virku samstarfi við stjórnvöld um:
- Skýra stefnu um græn störf og sjálfbærni í atvinnulífi.
- Öflugri fjármögnun rannsókna og þróunar á sviði loftslagsmála.
- Innleiðingu umhverfisvænna lausna í öllum opinberum rekstri.
- Eflingu vistvænna samgangna og hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Sjálfbær framtíð er ekki valkostur – hún er nauðsyn! BHM mun áfram standa vörð um loftslagið, umhverfið og réttlát umskipti á vinnumarkaði!