Öflug velferðarkerfi eru forsenda þess að samfélagið þrífist, þar sem allir njóta jöfnuðar og öryggis, óháð uppruna, kyni, efnahag eða færni. BHM krefst þess að stjórnvöld axli ábyrgð og fjármagni velferðarþjónustu af myndarskap, með áherslu á jöfn tækifæri og gæði þjónustunnar.
Samfélag sem tryggir gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og félagslegum stuðningi er samfélag sem skilar árangri fyrir alla. Við getum ekki sætt okkur við langa biðlista, vanfjármagnaða geðheilbrigðisþjónustu og ótryggt starfsumhverfi þeirra sem sinna mikilvægri almannaþjónustu.
Krafan er skýr – öflugt velferðarkerfi fyrir alla!
- Auka þarf snemmtæka íhlutun í heilbrigðisþjónustu. Sterk heilsugæsla, fjölbreytt þjónusta og aðkoma fleiri fagstétta eru lykilatriði.
- Geðheilbrigðisþjónusta verður að vera forgangsmál! Fjármögnun geðheilbrigðisúrræða, aðgengi og stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur þarf að vera tryggður.
- Stuðningur við fjölskylduna skiptir sköpum! Tryggja þarf barnafjölskyldum góðan stuðning, hvort sem er í félags-, mennta- eða heilbrigðiskerfinu.
- Allir eiga rétt á sanngjarnri og réttlátri málsmeðferð. Réttarkerfið þarf að verja borgarana gegn óréttlæti og mismunun.
- Velferð og menntun fara saman! Tryggja þarf að öll geti tekið þátt í samfélaginu með jöfnum tækifærum til náms og starfa.
Samstarfstækifæri við stjórnvöld – Bætum velferðina saman!
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að velferð sé í forgangi, sem er í samræmi við stefnu BHM. En loforð duga ekki eitt og sér – raunverulegar aðgerðir verða að fylgja!
BHM kallar eftir virku samstarfi við stjórnvöld um:
- Aukin framlög til heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu.
- Tryggt aðgengi að snemmtækri íhlutun og forvörnum.
- Eflingu félagslegra úrræða fyrir barnafjölskyldur og einstaklinga í viðkvæmri stöðu.
- Sterkt réttarkerfi sem tryggir öllum sanngjarna meðferð.
Velferð er ekki kostnaður – hún er fjárfesting í sanngjarnara samfélagi! BHM mun halda áfram að berjast fyrir réttlátara og öflugra velferðarkerfi sem tryggir lífsgæði fyrir alla!