Félagsfólk aðildarfélaga BHM sem starfar hjá Reykjavíkurborg á samkvæmt kjarasamningi rétt til að efla hæfni sína með endurmenntun og starfsþróun. Samningurinn kveður á um að starfsmönnum skuli standa til boða að sækja sérhæfð námskeið, ráðstefnur og önnur fræðsluverkefni sem styrkja þá í starfi. Þá er gert ráð fyrir samstarfi við Starfsþróunarsetur háskólamanna og Vísindasjóð, sem veita styrki og námsleyfi samkvæmt nánari reglum.
Réttindin stuðla að því að efla fagmennsku og búa starfsmenn undir ný verkefni og áskoranir í þjónustu borgarinnar
Réttur til endurmenntunar og leyfi frá störfum
- Ávinnsla réttar: Starfsmaður sem hefur starfað í 4 ár innan borgarinnar á rétt á 2 vikna launuðu leyfi árlega til endurmenntunar eða framhaldsnáms, svo fremi að námskeiðið/tæknin sé í samræmi við starfs- eða endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun borgarinnar eða einstaklingsins.
- Uppsöfnun leyfis: Starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur aldrei orðið meiri en 6 mánuðir og greiðist ekki út við starfslok.
- Í námsleyfinu skal starfsmaður halda reglubundnum launum.
Einstaklingsbundin laun og starfsþróun
- Í kjarasamningi er gert ráð fyrir ákvörðun einstaklingsbundinna launa sem hvatningu fyrir starfsmenn til að auka hæfni sína í starfi í samræmi við áætlun um starfsþróun. Einstaklingsbundin laun koma til viðbótar við starfslaun samkvæmt starfsmati og eru viðmið þeirra þrenns konar; starfsþróun, hæfni og árangur.
- Gert er ráð fyrir að hver stofnun/fyrirtæki setji fram starfsþróunaráætlun fyrir alla starfsmenn í starfsáætlun sinni í starfsmannamálum til að tryggja eðlilega starfsþróun og símenntun starfsmanna í samræmi við starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar.
- Fagreynsla og starfsreynsla er metin til hækkunar launa.
Ferðakostnaður
Dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa skulu fylgja ákvörðunum Ferðakostnaðarnefndar ríkisins.
Sjóðir
Starfsmenntunarsjóður BHM
Vinnuveitandi greiðir mánaðarlega framlag í Starfsmenntunarsjóð BHM sem nemur 0,22% af föstum heildarlaunum félagsmanna.
Vísindasjóður
Vinnuveitandi greiðir mánaðarlega framlag í vísindasjóð sem nemur 1,6% af föstum dagvinnulaunum félagsmanna. Sjóðnum er ætlað að stuðla að auknum rannsóknum, þróunarstarfi og endurmenntun háskólamanna.
Starfsþróunarseturs háskólamanna
Vinnuveitandi greiðir mánaðarlega framlag til Starfsþróunarseturs háskólamanna er nemur 0,7% af heildarlaunum félagsmanna.
Ráðgjöf
Félagsfólki er ráðlagt að leita ráðgjafar um réttindi til endurmenntunar hjá sínu stéttarfélagi innan BHM.
Upplýsingar um greiðslur og styrki úr starfsmenntasjóðum má nálgast á vefsvæði sjóða BHM.