Embættismenn

Embættismenn eru að jafnaði skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum.

Embættismenn eru að jafnaði skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum. Ef maður hefur verið skipaður í embætti skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum. Stjórnvald sem skipar mann í embætti veitir og lausn frá því, nema öðruvísi sé sérstaklega fyrir mælt í lögum. Lausn skal veita skriflega og jafnan greindar orsakir, svo sem vegna heilsubrests, tiltekinna ávirðinga o.s.frv.

V. og VI. kafli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geyma ákvæði sem taka einungis til embættismanna.

Með framangreindum reglum um skipunartíma og lausn er embættis­mönnum tryggt ákveðið réttaröryggi, umfram þá opinberu starfsmenn sem ráðnir eru samkvæmt ráðningarsamningi, í þeim tilgangi að stuðla að ákveðnu sjálfstæði þeirra gagnvart veitingarvaldshafa, sbr. til hlið­sjónar 20. gr. stjórnarskrárinnar og þau rök sem hún byggist á. Hins vegar leggja réttarreglur um embættismenn í ýmsu tilliti á þá ríkari skyldur, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10929/2021.

Um skyldu stjórnvalda til að auglýsa laus embætti er fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. F109/2022.

Skrifstofustjórar

Skrifstofustjórar innan stjórnarráðsins teljast til embættismanna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Prestar

Prestar njóta ekki lengur stöðu sem embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 153/2019 sem tóku gildi 1. janúar 2020. Starfsfólk þjóðkirkjunnar sem ráðið er frá 1. janúar 2020 telst því ekki lengur til embættismanna eða starfsmanna ríkisins, heldur eru þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar.

Starfsfólk þjóðkirkjunnar sem skipað var í embætti fyrir gildisstöku þeirra laga heldur þó réttindum og skyldum sem af skipun leiddi út skipunartímann, sbr. ákvæði til bráðabrigða með lögum um Þjóðkirkjuna nr. 77/2021. Að öðru leyti fer um réttindi þess og skyldur samkvæmt starfsreglum settum af kirkjuþingi.

Sjá einnig bréf umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10990/2021.

Prestafélag Ísland sinnir hagsmunum presta á vinnumarkaði en það er í senn stéttarfélag og fagfélag presta og guðfræðinga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt