Skip to content

Auglýsinga­skylda

Hinu opinbera er skylt að auglýsa laus störf til umsóknar. Sambærileg regla gildir ekki um fyrirtæki á almennum markaði. Í auglýsingum um laus störf má ekki útiloka umsækjendur á grundvelli kyns eða annarra þátta, nema sérstaklega standi á.

Ríkið

Meginreglan er að auglýsa skuli öll laus störf, bæði embætti og önnur opinber störf, sbr. 7. gr. starfsmannalaga. Auglýsingaskyldan tryggir öllum tækifæri til að sækja um laus störf hjá ríkinu og stuðlar að því að ríkið eigi kost á færum og hæfum starfsmönnum.

Hið opinbera uppfyllir lagaskyldu um auglýsingu lausra starfa með auglýsingu starfa á Starfatorgi þar sem er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu og yfirliti lausra starfa hjá hinu opinbera sem birt er í atvinnuauglýsingum dagblaða.

Konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sambærileg störf. Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfskrafts af einu kyni en öðru. Þessi regla á þó ekki við ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu milli kvenna og karla innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir tilteknu kyni.

Gefnar hafa verið út reglur um auglýsingar lausra starfa nr. 1000/2019 er gilda um opinbera starfsmenn sem falla undir skilgreiningu 1. mg. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þeim reglum er m.a. lýst þeim atriðum sem skuli koma fram í auglýsingu á lausu starfi. Tilgreina skal tilgreina starfsheiti, heiti stofnunar og staðsetningu starfs eða hvort það sé án staðsetningar. Þá skal skal ávallt tilgreina eftirfarandi:

 1. Hvaða starf og starfssvið er um að ræða. Skal lýsing starfs vera nægjanlega greinargóð til þess að mögulegir umsækjendur geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
 2. Starfshlutfall.
 3. Stjórnunarlega stöðu starfsins innan stofnunar/ríkisfyrirtækis
 4. Menntunar- og hæfniskröfur.
 5. Aðrar almennar og sértækar kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
 6. Starfskjör.
 7. Hvenær æskilegt er að starfsmaður hefji störf.
 8. Hvar leita skuli frekari upplýsinga
 9. Lengd umsóknarfrests.
 10. Hvert umsókn á að berast og á hvaða formi.

Ekki er skylt að auglýsa öll opinber störf, sbr. 2. gr. reglna um auglýsingar lausra starfa. Þar er tekið fram að ekki sé skylt að auglýsa störf í eftirfarandi tilvikum:

 • Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
 • Störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
 • Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu.
 • Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
 • Hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.

Á skyldu stofnunar til að auglýsa starf reynir stundum í þeim tilvikum þegar forstöðumaður ákveður að færa starfsmann til í starfi, eftir atvikum úr almennri stöðu innan stofnunar yfir í yfirmannstöðu. Í þeim málum reynir á hvað felst í orðunum „laust starf“ í skilningi 7. gr. starfsmannalaga.

Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um um slík, m.a. í málum nr. 3684/2003 og 3714/2003. Í málinu var kvartað yfir því að við stofnun sérstaks starfs innkaupastjóra við tækni- og innkaupadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og ráðningu tiltekins einstaklings C í það starf hefði verið fram hjá kvartanda A. Taldi hann sig í raun hafa gegnt starfi innkaupastjóra á sjúkrahúsinu „án viðurkenningar“ í 28 ár. Annar aðili B kvartaði sömuleiðis yfir því að starf innkaupastjóra hafði ekki verið auglýst áður en umræddur einstaklingur var ráðinn í það en hún hefði viljað fá tækifæri til að sækja um það. Umboðsmaður tók til athugunar hvort sú breyting sem gerð var á starfi A þegar starf innkaupastjóra var stofnað hefði verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þá beindist athugunin einnig að því hvort skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar áður en C var ráðinn til að gegna því.

Umboðsmaður taldi ljóst að við stofnun starfs innkaupastjóra hefðu orðið verulegar breytingar á starfssviði A. Umboðsmaður benti á að skipulagsbreytingar leiddu oft til þess að óhjákvæmilegt væri að breyta störfum starfsmanna stofnunar. Hefðu stjórnvöld allrúmar heimildir til þess samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Þær breytingar mættu þó ekki ganga lengra eða vera meira íþyngjandi í garð þeirra starfsmanna sem í hlut ættu en nauðsyn bæri til, sbr. almenna meginreglu um meðalhóf í stjórnsýslu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að álíta að framangreindar breytingar sem gerðar voru á störfum og verksviði A hefðu stangast á við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar eða vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður taldi að þegar til starfs innkaupastjóra við sjúkrahúsið var stofnað hafi starfið verið laust í merkingu 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, enda yrði ekki séð að nokkur hafi átt lagalegt tilkall til þess að gegna því. Skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar samkvæmt þeim reglum. Því hafi verið óheimilt að ráða C í starfið án undangenginnar auglýsingar þar sem öllum þeim sem áhuga höfðu á að sækja um það var gefinn kostur á að leggja fram umsókn.

Í umfjöllun um auglýsingu opinberra starfa getur einnig þurft að horfa til 19. gr. starfsmannalaga en þar kemur fram að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Forstöðumenn meta það stundum svo að ekki sé um annað starf að ræða heldur einungis breytingu á verkefnum. Breytingin falli því ekki undir reglur um auglýsingar opinberra starfa. Meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvort ákvörðun forstöðumanns sé á rökum reist. Stéttarfélög háskólamanna veita félagsmönnum sínum aðstoð við mat á þessu atriði.

Umsækjandi um laust starf sem ekki er ráðinn getur óskað eftir rökstuðningi, skv. 21. gr. stjórnsýslulaga.

Reykjavíkurborg

Stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar er skylt að auglýsa öll laus störf laus til umsóknar á opinberum vettvangi, nema í nánar tilgreindum undantekningartilvikum, þ.m.t. vegna afleysingastarfa vegna fæðingarorlofs þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur, sbr. grein 9.1 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Reykjavíkurborgar. Ef borgaryfirvöld líta svo á að ráða skuli í stöðu með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum skal staðan auglýst á þeim vettvangi einum.

Í starfsauglýsingu skal að lágmarki tilgreina:

 • Starfsheiti, starfstegund eða eftir atvikum stutta starfslýsingu.
 • Starfshlutfall ef ekki er um fullt starf að ræða.
 • Kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
 • Starfskjör í boði s.s. með orðunum “eftir hlutaðeigandi kjarasamningi opinberra starfsmanna”.
 • Hver veitir nánari upplýsingar um starfið.
 • Hvert umsókn á að berast.
 • Hvenær starfsmaður skuli hefja starf.
 • Hvort umsókn eigi að vera á sérstöku eyðublaði og ef svo er hvar sé hægt að fá það.
 • Kröfur um gögn - ef einhver eru - sem eiga að fylgja umsókn.
 • Umsóknarfrest.

Sveitarfélög

Sveitarfélög auglýsa að jafnaði laus störf á opinberum vettvangi, sbr. grein 11.12 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM við sveitarfélögin.

Fram kemur í skýringartexta með þessu ákvæði að skipulagsbreytingar leiði ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi. Skoða þarf hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.

Sveitarfélög er bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.m.t. að því varðar ráðningarmál. Einstök sveitarfélög hafa mörg hver sett sér skýrari reglur hvað varðar auglýsingar starfa.

Almennur vinnumarkaður

Á atvinnurekendum á almennum markaði hvílir engin skylda samkvæmt lögum eða kjarasamningum að auglýsa lausar stöður eða störf.

Bann við mismunun í auglýsingu um starf

Opinberum stofnunum sem og fyrirtækjum á almennum markaði er óheimilt að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað eftir starfskrafti af einu kyni en öðru. Þessi regla á þó ekki við ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu milli kvenna og karla innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir starfskrafti af tilteknu kyni, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Sams konar ákvæði er í 4. mgr. 6. gr. starfsmannalaga.

Þá er er mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáninga í auglýsingu um laust starf óheimil sem og birting slíkrar auglýsingar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Áfmörkuð frávik eru þó heimiluð s.s. vegna starfstengdra eiginleika eða aldurs.