Skip to content

Starfsfólk ríkisins

Starfsmannalög og meginreglur stjórnsýsluréttarins gilda um ráðningu starfsfólks ríkisins.

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna nr. 70/1996 ríkisins (starfsmannalögin) fjalla um almennt hæfi starfsfólks, auglýsingu lausra starfa, auk þess að geyma ýmis sérákvæði um skyldur opinberra starfsmanna, launagreiðslur, breytingar á störfum, meðferð mála við starfslok o.m.fl. Um laun og önnur starfskjör fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga aðildarfélaga BHM og ríkisins.

Opinberir stafsmenn bera ríkari starfsskyldur en hvíla á fólki starfandi á almennum vinnumarkaði, sbr. umfjöllun um það efni.

Almennar hæfisskyldur

Almenn skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í starf hjá hinu opinbera samkvæmt 6. gr. starfsmannalega eru þessi:

  1. Átján ára aldur. Þó má víkja frá þessu aldurslágmarki um störf samkvæmt námssamningi, ræstingastörf, sendilsstörf eða önnur svipuð störf. Einstök ákvæði í öðrum lögum, þar sem annað aldurstakmark er sett, skulu haldast.
  2. Lögræði. Þó gildir lögræðiskrafan ekki þegar undanþága er gerð skv. 1. tölul.
  3. Nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna þeim starfa sem hverju sinni er um að ræða.
  4. Almenn menntun og þar að auki sú sérmenntun sem lögum samkvæmt er krafist eða eðli málsins samkvæmt verður að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans.
  5. Fjárforræði, ef starfi fylgja fjárreiður, svo sem gjaldkera- eða innheimtustörf, eða ef svo er fyrir mælt í lögum eða sérstök ástæða þykir til að gera þá kröfu.
  6. Ef umsækjandi um starf hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað sem hann framdi og var sviptur heimild til að rækja starf sitt hjá hinu opinbera telst hann ekki fullnægja starfsskilyrðum starfsmannalaga.

Ekki er lengur gerð krafa um íslenskan ríkisborgararétt (sbr. áður 4. tölul. 1. gr.).

Aðalstarf

Starfsmannalögin taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar enda verði starf hans talið aðalstarf, sbr. 1. mgr. 1. gr.

Að jafnaði eru starfsmenn hins opinbera í fullu starfshlutfalli og ráðningartíminn ótímabundinn.

Hugtakið aðalstarf er ekki skýrt nánar en rétt er að horfa til þess hvort viðkomandi starfsmaður hafi aðalframfærslu sína af því að gegna starfinu. Skiptir þá eftir atvikum ekki máli þó að um hlutastarf sé að ræða.

Val á umsækjenda

Við ráðningar í störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslu­lögum og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Þar á meðal er sú óskráða regla, sem m.a. hefur mótast af úrlausnum dómstóla, að ráða beri þann hæfasta úr hópi umsækjenda miðað við þær kröfur sem gerðar eru í lögum, ef við á, auglýsingu og þau sjónarmið sem sá sem ræður í starfið ákveður að byggja á, sbr. álit umboðsmanns Alþingis (mál nr. 10135/2019).

Um tiltekin störf hjá hinu opinbera gilda sérákvæði í lögum sem vinnuveitandi verður að leggja til grundvallar í ráðningarferlinu og ákvörðun um ráðningu í starf.

Almennt er viðurkennt að stjórnvöld njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni umsækjanda og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið þó að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10626/2020.

Við þá ákvörðun verður að gæta að ákvæðum jafnréttislega ef tveir eða fleiri hæfir umsækjendur teljast jafn hæfir til að gegna umræddu starfi. Þá geta ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með stuðningsþarfir einnig átt við. Í þeim er kveðið á um að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra umsækjanda.

Umsækjandi sem ekki er ráðinn til starfa getur óskað eftir rökstuðningi fyrir því hvaða þættir réðu vali á þeim einstaklingi sem fékk starfið, skv. 21. gr. stjórnsýslulaga.

Kjara-og mannauðssýsla ríkisins hefur birt leiðbeiningar til stjórnenda um auglýsingu starfa, mat á hæfni umsækjanda o.s.frv.

Veiting starfs

Það fer eftir ákvæðum laga hvaða stjórnvald veitir starf. Séu ekki fyrirmæli um það í lögum skal sá ráðherra er stofnun lýtur skipa forstöðumann stofnunar og, eftir atvikum, aðra embættismenn er starfa við stofnunina, en forstöðumaður ræður í önnur störf hjá henni, sbr. 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.