Í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Samtaka atvinnulífsins (SA) eru almenn ákvæði í 5. kafla um form og efni skriflegra ráðningarsamninga. Þar kemur m.a. fram að skriflegur ráðningarsamningur skuli gerður við upphaf ráðningar.
Laun og önnur starfskjör háskólamanna eru ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og starfsmanns. Kjarasamningur BHM og SA er ekki með launatöflur heldur fer um fjárhæð launa, samsetningu þeirra, grundvöll álags- og viðbótargreiðslna o.þ.h. samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings, sbr. grein 1.1. Heimilt er að semja um föst mánaðarlaun í ráðningarsamningi. Með sama hætti er heimilt að semja um fasta þóknun fyrir yfirvinnu sem og annað vinnuframlag starfsmanns sem unnið er utan dagvinnutímabils. Sama á við um þóknun fyrir aðrar skyldur sem starfsmaður undirgengst í ráðningarsamningi. Kjarasamningurinn er án ákvæða um launabreytingar á gildistíma samnings.
Með vísan til framanritaðs er því áréttað mikilvægi þess að starfsmaður fái þegar við upphaf ráðningar staðfestingu á launum og öðrum starfskjörum.
Sjá einnig leiðbeiningar um gerð ráðningarsamninga á vef Samtaka atvinnulífsins.
Í 5. kafla kjarasamnings eru ákvæði um upplýsingagjöf vinnuveitanda vegna starfa erlendis, laun í erlendum gjaldmiðli, samkeppnisákvæði og uppsögn.
Ótímabundnar ráðningar eru meginreglan á hinum almenna vinnumarkaði. Vinnuveitandi sem heldur því fram að ráðning starfsmanns hafi verið tímabundin ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Þá sönnun má að jafnaði tryggja með ákvæði í skriflegum ráðningarsamningi um að ráðning starfsmanns sé tímabundin. Um tímabundnar ráðningar og hlutastörf fer að öðru leyti samkvæmt lögum um það efni.
Fyrirtækjum á almennum markaði er ekki skylt samkvæmt lögum eða kjarasamningum að auglýsa laus störf.