Opinber hlutafélög og sjálfseignarstofnanir

Um ráðningu starfsfólks fer samkvæmt reglum á almennum vinnumarkaði.

Opinber hlutafélög

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulög gilda ekki um málefni starfsfólks hjá opinberum hlutafélögum.

Um það efni er m.a. fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis (mál nr. 5555/2009) sem sneri að synjun Ríkisútvarpsins ohf. um að veita starfsmanni rökstuðning fyrir uppsögn hans. Í áliti sínu tekur umboðsmaður fram að Ríkisútvarpið ohf. starfi á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins. Um opinber hlutafélög gilda ákvæði laga um hlutafélög. Ákvarðanir þess um ráðningu og uppsögn starfsmanna séu því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga.

Aðildarfélög BHM eru mörg hver með kjarasamninga við opinber hlutafélög.

Má sem dæmi nefna kjarasamning Fræðagarðs SBU og Ríkisútvarpsins annars vegar og kjarasamning FÍN, Fræðagarðs, Kjarafélags viðskiptafræðinga o.fl. og RARIK ohf. hins vegar. Í 11. kafla þessara samninga eru almenn ákvæði um ráðningu starfsfólks og starfslok sem svipar til þeirra reglna sem gilda um starfsfólk fyrirtækja á almennum markaði.

Sjálfseignarstofnanir

Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sbr. lög nr. 33/1999, teljast til einkaaðila þó að þær fái fjárframlög frá ríkinu. Ákvarðanir um ráðningu í starf eru því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga eða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sjá um það m.a. álit umboðsmanns Alþingis (mál nr. 8562/2015).

Lög um kjarasamninga opinberra stofnana taka þó til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum, eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði af daggjöldum eða úr sveitarfélagssjóði, enda komi til samþykki viðkomandi stofnana, sbr. 2. gr. þeirra laga. Við stofnanir þessar starfa ýmist starfsfólk sem tekur laun eftir launakerfi opinberra starfsmanna eða eftir samningum annarra stéttarfélaga.

Aðildarfélög BHM eru mörg hver með kjarasamninga við sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu samkvæmt framansögðu. Má sem dæmi nefna kjarasamning Fræðagarðs og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Þau samtök koma fram fyrir hönd fyrirtækja sem fullnægja ákvæðum 16. og 22. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, og eru sjálfseignarstofnanir í eigu félagasamtaka, einkaaðila eða sveitarfélaga.

Félög iðjuþjálfara, félagsráðgjafa, þroskaþjálfara, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og viðskipta- og hagfræðinga eru einnig með kjarasamninga við SVÞ.

Félag íslenskra nátturufræðinga (FÍN) er með samninga við fjölmargar stofnanir um land allt, þ.á.m. á sviði heilbrigðiseftirlits, landbúnaðar og skógræktar. Í þeim samningum kemur fram að um kjör félagsmanna skuli farið eftir öllum form- og efnisákvæðum kjarasamnings FÍN og fjármálaráðherra á hverjum tíma - nema sérstaklega sé kveðið á um annað í viðkomandi kjarasamningi. Þá er í slíkum samningum einnig vísað til annarra samninga við hið opinbera og reglna, til dæmis um auglýsingu lausra starfa, gerð ráðningarsamninga og skipulags vinnutíma.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt