Skip to content

Almannatryggingar

Almannatryggingar eru jafnan skipulagðar á þann hátt að réttindaávinnsla og greiðsla bóta eða lífeyris er bundin við yfirráðasvæði hvers ríkis.

Við flutning úr landi getur fólk því átt það á hættu að áunnin réttindi innan almannatrygginga falli niður. Með ákvæðum EES-samningsins um frjálsa för og samhæfingu almannatrygginga er hins vegar komið í veg fyrir þá niðurstöðu. Samhæfing almannatrygginga byggir á 28. og 29. gr. EES-samningsins og reglugerðum (EB) 883/2004 og (EB) 987/2009.

Undir þessar reglur falla m.a. sjúkrabætur, elli- og örorkulífeyrir, atvinnuleysisbætur og barnabætur. Lífeyristryggingar íslenska lífeyrissjóðakerfisins falla einnig undir gildissvið þeirra.

Samhæfing almannatrygginga er reist á ákveðnum meginreglum:

  1. Öll mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð. EES-borgarar sem beita rétti sínum til frjálsar farar eiga rétt á aðild að almannatryggingum í þeim aðildarríkjum sem flutt er til vegna atvinnu eða annarra markmiða.
  2. Nota má búsetu- eða tryggingatímabil sem umsækjandi um bætur hefur lokið samkvæmt löggjöf annarra aðildarríkja til að uppfylla skilyrði um biðtíma samkvæmt ákvæðum landsréttar til að öðlast rétt til bóta.
  3. Áunnin réttindi til bóta almannatrygginga og lífeyris eru tryggð með reglum sem skylda aðildarríki til að greiða bætur og lífeyri almannatrygginga úr landi ef rétthafi þeirra er búsettur í öðru aðildarríki.
  4. Sérstök lagavalsákvæði tryggja að einstaklingar falla á hverju tímabili einungis undir löggjöf eins aðildarríkis. Er á þann hátt komið í veg fyrir að einstaklingur sé tryggður í tveimur ríkjum og/eða að greidd skuli tryggingagjöld vegna hans til fleiri ríkja á sama tíma. Á þann hátt er jafnframt stuðlað að því að einstaklingar falli undir löggjöf a.m.k. eins aðildarríkis og séu þ.a.l. ekki án tryggingaverndar.

Samhæfing á almannatryggingum byggir á umfangsmiklu samstarfi opinberra stofnana sem miðla yfir landamæri umsóknum um bætur og votta um áunnin réttindi. Hér á landi eru það einkum Tryggingastofnun ríkisins (lífeyristryggingar), Sjúkratryggingar Íslands (sjúkrabætur) og skattyfirvöld (barnabætur) sem hafa hlutverk á því sviði.

Almannatryggingar aðildarríkjanna eru samhæfðar innan ramma ákvæða EES-samningsins um frjálsa för launafólks. Löggjöf ríkja á þessu sviði er hins vegar ekki samræmd að efni til. Af því leiðir að skilyrði bóta og fjárhæðir í einstökum bótaflokkum, tímalengd greiðslna, samspil við aðrar tekjur, stjórnsýsla o.m.fl. er á valdi aðildarríkjanna sjálfra.

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt leiðbeiningar um efni og túlkun reglna um samhæfingu almannatrygginga.