Skip to content

Almannatryggingar

Í almannatryggingum er réttindaávinnsla og greiðsla bóta jafnan bundin við yfirráðasvæði ríkja.

Flytji fólk frá sínu heimalandi geta áunnin réttindi innan almannatrygginga fallið niður eða sætt öðrum takmörkunum.

Sú regla gildir þó ekki þegar fólk flytur innan EES-svæðisins vegna vinnu eða af öðrum ástæðum. Áunnin réttindi njóta verndar samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og reglugerðum um samhæfingu almannatrygginga.

Samhæfing almannatrygginga innan EES tekur m.a. til sjúkratrygginga (þ.m.t. heilbrigðisþjónustu), elli- og örorkulífeyris, atvinnuleysisbóta og barnabóta. Hér er miðað við bætur og lífeyristryggingar sem tilheyra hinum lögbundnu almannatryggingum í hverju landi. Tryggingar sem keyptar eru á frjálsum markaði eru ekki hluti þessa kerfis.

Samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda falla lífeyristryggingar íslenska lífeyrissjóðakerfisins einnig undir framangreindar reglur. Rétt er að taka fram að ekki er sjálfgefið að sambærilegar lífeyristryggingar í öðrum EES-ríki falli undir þessar reglur.

Almannatryggingar EES-ríkjanna eru samhæfðar til stuðnings rétti fólks til frjálsar farar innan EES. Sjálf réttindin og reglur aðildarríkjanna eru hins vegar ekki samræmdar að efni til. Af því leiðir að skilyrði til bóta og fjárhæðir í einstökum bótaflokkum eða lífeyris, tímalengd greiðslna, samspil við aðrar tekjur og stjórnsýsla er mismunandi frá einu ríki til annars.

Meginreglur

Samhæfing almannatrygginga styðst við eftirfarandi meginreglur:

  1. Mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð. EES-borgarar eiga rétt á aðild að almannatryggingum og hefja ávinnslu réttinda í þeim ríkjum sem flutt er til vegna vinnu eða af öðrum ástæðum.
  2. Samlagning tímabila. Nota má búsetu- eða tryggingatímabil sem umsækjandi um bætur eða lífeyri hefur lokið samkvæmt löggjöf eins aðildarríkis til að uppfylla sérstök biðtímaskilyrði samkvæmt löggjöf í öðru ríki.
  3. Greiðsla bóta/lífeyris úr landi. Áunnin réttindi eru tryggð með reglum sem skylda aðildarríki til að inna greiðslur af hendi þó að rétthafi þeirra sé búsettur í öðru aðildarríki. Greiðsla ellilífeyris til annarra EES-ríkja er ágætt dæmi.
  4. Sérstök lagavalsákvæði eiga að tryggja að einstaklingar falli á hverju tímabili aðeins undir löggjöf eins aðildarríkis. Ávinnsla réttinda fari fram í einu ríki ríki á hverjum tíma en ekki tveimur. Á þann hátt er komið í veg fyrir að einstaklingar séu tryggðir í tveimur ríkjum á sama tímabili og/eða að greidd séu tryggingagjöld í fleiri ríkjum á sama tíma. Svo dæmi sé tekið þá er einstaklingur sem starfar í EES-ríki tryggður í almannatryggingum þess ríkis. Hann getur ekki á sama tíma áunnið sér réttindi í öðru landi þó hann sé þar með skráð lögheimili.

Miðlun upplýsinga milli landa

Opinberar stofnanir í aðildarríkjunum með almannatryggingar á sínu ábyrgðasviði hafa með sér víðtækt samstarf um miðlun upplýsinga um réttindi einstaklinga með það fyrir augum að auðvelda og hraða afgreiðslu umsókna um bætur eða lífeyri.

Eftirtaldar ríkisstofnanir hér landi sinna þessum verkefnum og eru tengiliðir við stofnanir í öðrum EES-ríkjum.

Dæmi um lífeyristryggingar sem tengjast a.m.k. tveimur EES-ríkjum

Umsækjandi um ellilífeyri hefur búið og starfað á Íslandi og í öðru EES-ríki, eða eftir atvikum fleiri EES-ríkjum, á aðskildum tímabilum starfsævinnar. Við lok starfsævinnar er hann búsettur hér á landi. Hann sækir um lífeyri hjá Tryggingastofnun og óskar um leið milligöngu hennar vegna lífeyrisréttinda sem hann hefur myndað lögum samkvæmt í einu eða fleiri EES-ríkjum. Hann þarf ekki sjálfur að hafa uppi á nöfnum og heimilisföngum stofnana í viðkomandi ríkjum heldur sér Tryggingastofnun um það og setur umsóknarferlið í gang. Hinar erlendu stofnanir taka í kjölfarið ákvörðun um lífeyrisrétt hans og greiða honum þann lifeyri sem hann á tilkall til. Á sama tíma tekur Tryggingastofnun (TR) afstöðu til umsóknar hans og þeir íslensku lífeyrissjóður þar sem hann á réttindi.

Hér byggir umræddur einstaklingur sína framfærslu á lífeyrisgreiðslum frá tveimur, eða eftir atvikum fleiri löndum, sem hvert og eitt greiðir þann hluta sem svarar til lífeyrisávinnslu þann tíma sem viðkomandi hafði þar tengsl vegna vinnu og/eða búsetu.

Stundum er talað um að lífeyrissaga slíkra einstaklinga sé evrópsk í eðli sínu andstætt þeirri sögu sem fólk myndar alfarið með vinnu og búsetu í einu landi alla starfsævina.

Á vef framkvæmdastjórnar ESB eru birtar ítarlegar leiðbeiningar um samhæfingu almannatrygginga.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt