Undir EES-reglur um samhæfingu almannatrygginga falla m.a. sjúkrabætur, elli- og örorkulífeyrir, atvinnuleysisbætur og barnabætur. Gildissviðið miðast við bætur og lífeyristryggingar sem tilheyra hinum lögbundnu almannatryggingum.
Lífeyristryggingar íslenska lífeyrissjóðakerfisins falla einnig undir framangreindar reglur.
Tryggingar sem keyptar eru á frjálsum markaði eru ekki hluti þessa kerfis. Slík réttindi, og þá einkum lífeyrisréttinda, geta hins vegar notið verndar við flutning fólks milli landa samkvæmt öðrum reglum EES-réttar.
Almannatryggingar EES-ríkja eru samhæfðar til stuðnings rétti fólks til frjálsar farar innan EES. Sjálf réttindin og reglur aðildarríkjanna eru hins vegar ekki samræmdar að efni til. Af því leiðir að skilyrði til bóta og fjárhæðir í einstökum bótaflokkum eða lífeyris, tímalengd greiðslna, samspil við aðrar tekjur og stjórnsýsla eru mismunandi frá einu ríki til annars.
Í nafni jafnræðis og markmiða EES-samningsins um frjálsa för er samhæfing á löggjöf EES-ríkjanna á sviði almannatrygginga reist á eftirfarandi meginreglum:
- Öll mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð. EES-borgarar sem beita rétti sínum til frjálsrar farar eiga rétt á aðild að almannatryggingum í þeim aðildarríkjum sem flutt er til vegna vinnu eða af öðrum ástæðum.
- Samlagning tímabila. Nota má búsetu- eða tryggingatímabil sem umsækjandi um bætur eða lífeyri hefur lokið samkvæmt löggjöf eins aðildarríkis til að uppfylla skilyrði um biðtíma samkvæmt ákvæðum landsréttar í öðru aðildarríki.
- Greiðsla bóta/lífeyris úr landi. Áunnin réttindi til bóta almannatrygginga og lífeyris eru tryggð með reglum sem skylda aðildarríki til að greiða bætur og lífeyri almannatrygginga úr landi ef rétthafi þeirra er búsettur í öðru aðildarríki.
- Sérstök lagavalsákvæði eiga að tryggja að einstaklingar falli á hverju tímabili undir löggjöf eins aðildarríkis. Á þann hátt er komið í veg fyrir að einstaklingur sé tryggður í tveimur ríkjum á sama tímabili og/eða að greidd séu tryggingagjöld í fleiri ríkjum á sama tíma.
Stjórnvöld í aðildarríkjunum hafa með sér samstarf og skiptast á upplýsingum um réttindi fólks með það fyrir augum að hraða afgreiðslu mála.
Hér á landi hafa eftirtaldar stofnanir það verkefni með höndum:
Svo dæmi sé tekið geta einstaklingar búsettir hér á landi sótt um lífeyri hjá Tryggingastofnun og um leið óskað milligöngu hennar vegna lífeyrisréttinda sem þeir hafa myndað í öðrum EES-ríkjum. Viðkomandi þarf því ekki sjálfur að leita til hlutaðeigandi stofnana erlendis heldur annast Tryggingastofnun það verkefni.
Á vef framkvæmdastjórnar ESB eru birtar ítarlegar leiðbeiningar um samhæfingu almannatrygginga.