Skip to content

Viðurkenning starfsréttinda

EES-ríkisborgarar hafa heimild til að leggja stund á sína starfsgrein í öðru aðildarríki en því þar sem starfsréttindanna var aflað, að undangenginni viðurkenningu á þeim réttindum.

Um meðferð umsókna og skilyrði fyrir viðurkenningu á starfsréttindum innan EES er fjallað í tilskipun 2005/36/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2013/55/ESB. Um framkvæmd mála hér á landi fer samkvæmt með lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010 og reglugerðum settum á grundvellir þeirra laga.

Lögverndun hér á landi

Starfsstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar njóta lögverndar hér á landi, sbr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

Heilbrigðisstéttir innan vébanda BHM sem njóta lögverndar eru m.a. sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, lífeindafræðingar og þroskaþjálfar.

Stéttarfélag lögfræðinga er eitt af aðildarfélögum BHM. Starfsheitið lögfræðingur nýtur ekki lögverndar.

Heilbrigðisstéttir

Embætti landlæknis veitir starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta. Skilyrði fyrir veitingu starfs- og sérfræðileyfis er að finna í 5. og 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Um umsóknir EES-ríkisborgara um starfsleyfi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna nr. 510/2020 frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.

Heilbrigðisstarfsmaður sem fær starfsleyfi eða sérfræðileyfi sem veitt er hér á landi gerir viðkomandi einstaklingi kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hefur gegnt í heimaaðildarríki sínu og leggja stund á það með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands. Þá hefur hann val um það hvort hann starfar hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eða sem launamaður í sinu fagi undir stjórn annars aðila.

Viðurkenning starfsréttinda fyrir heilbrigðisstéttir fellur í tvo meginflokka: (1) sjálfkrafa viðurkenning og útgáfa starfsleyfa á grundvelli samræmingar á evrópuvísu á lágmarkskröfum um menntun og (2) almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, til að hljóta starfsleyfi þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar.

Þær heilbrigðisstéttir sem hafa samræmdar lágmarkskröfur um menntun samkvæmt tilskipun 2005/36/EB eru læknar, tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og lyfjafræðingar, sbr. III. kafla áðurnefndrar reglugerðar.

Heilbrigðisstéttir innan BHM falla undir hið almenna kerfi, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar. Til að öðlast viðurkenningu á starfsréttindum sínum ber umsækjanda að leggja fram hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist er í öðru EES-ríki eða Sviss til að geta starfað þar innan viðkomandi heilbrigðisstéttar.

Áður en til viðurkenningar kemur óskar embætti Landlæknis eftir umsögn frá viðeigandi menntastofnun eða fagfélagi, sbr. 4. mgr. 35. gr. Málsmeðferðartími umsókna er að jafnaði 2–3 vikur frá því að umsögn og önnur nauðsynleg gögn hafa borist embætti Landslæknis og í umsögn er mælt með leyfisveitingu. Ef umsækjandi er ekki talinn uppfylla öll skilyrði fyrir starfsleyfi þá getur tekið allt að 4 mánuði að ljúka afgreiðslu umsóknar.

Heimilt er að krefjast þess að umsækjandi gangist undir uppbótarráðstafanir, hæfnispróf eða aðlögun ef menntun hans eða starfsreynsla er verulega frábrugðin því sem krafist er hér á landi.

Hæfnispróf / aðlögun

Landlækni er heimilt að krefjast þess að umsækjandi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma, eða taki hæfnispróf, sbr. 19. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 477/2020, ef:

  • námið sem umsækjandi hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi sem krafist er hér á landi tekur til, eða
  • sú starfsgrein sem er lögvernduð hér á landi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfsgrein í heimaaðildarríki umsækj­anda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér á landi og er að inntaki verulega frábrugðið því námi sem liggur að baki hæfnisvottorði umsækjanda eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi hans.

Umsækjanda er heimilt að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Með orðunum „verulega frábrugðnu inntaki“ er vísað til þess námsefnis sem hefur grundvallarþýðingu til þess að leggja stund á starfsgrein hvað varðar þá fagþekkingu, færni og hæfni sem heilbrigðisstarfsmaður hefur aflað sér og jafnframt að verulegur munur er á inntaki náms umsækjanda og því námi sem krafist er hér á landi.

Með aðlögunartíma er átt við starf innan lögverndaðrar starfsgreinar hér á landi undir hand­leiðslu starfsmanns með ótakmarkað starfsleyfi í viðkomandi starfsgrein.

Með hæfnisprófi er átt við próf þar sem fagþekking umsækjanda er metin til að gegna starfi innan lögverndaðrar heilbrigðisstéttar hér á landi.

BHM hefur lagt á það áherslu að embætti Landlæknis hraði afgreiðslu mála þegar umsækjandi fer fram á töku hæfnisprófs og að meðalhófs sé gætt við gjaldtöku.

Viðurkenning starfsréttinda veitir fyrst og fremst aðgang að vinnumarkaðinum. Hún víkur hins vegar ekki til hliðar ýmsum lagaskilyrðum sem kunna að gilda um iðkun viðkomandi starfs.

Tungumálakunnátta

Viðurkenning starfsréttinda innan heilbrigðisstétta er almennt ekki háð skilyrðum um íslenskukunnáttu umsækjanda. Viðurkenningin fer fram á grundvelli framlagðra gagna um formlega menntun og hæfi umsækjanda eftir því sem kveðið er á um í reglugerð nr. 510/2020.

Í lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er þó gerð krafa um að einstaklingar sem fá viðurkenningu á starfsréttindum sínum skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Áskilnaðurinn um íslenskukunnáttu skal vera réttmætur og nauðsynlegur vegna hlutaðeigandi starfsemi. Stefna verður að málefnalegu markmiði og til að mynda væri óheimilt að beita slíkum áskilnaði í því skyni að útiloka fagfólk frá öðrum aðildarríkjum frá vinnumarkaðnum. Þá er gert ráð fyrir aðkomu vinnuveitenda við mat á nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að sinna starfi á þeirra vinnustað. Sjá nánar 4. mgr. 2. gr. laga nr. 26/2010, sbr. lög nr. 16/2020, og 38. gr. reglugerðar nr. 510/2020.

Dæmi er um að í sérlögum sé gerð krafa um íslenskukunnáttu vegna tiltekinna starfa. Sem dæmi má nefna lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998 en þar segir í 6. gr. að dýralæknum sem starfa í opinberri þjónustu skulu hafa vald á íslenskri tungu.

Sérstakar kröfur eru gerðar um þá sem veita heilbrigðisþjónustu hér á landi samkvæmt ákvæðum EES-samningsins um veitingu þjónustu yfir landamæri. Þeim er skylt að leggja fram yfirlýsingu um nauðsynlega íslenskukunnáttu ef um er að ræða starf sem varðar öryggi sjúklinga og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010, sbr. lög nr. 16/2020.

Evrópskt fagskírteini

Reglur um evr­ópskt fag­skír­teini (e. European Professional Card) hafa verið teknar upp hér á landi, sbr. reglugerð nr. 510/2020 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.

EES-borgarar geta sótt um evrópskt fagskírteini til þess að stunda starf sitt í öðru EES-ríki og tekur það bæði til staðfestu og veitingar þjónustu. Umsóknin fer í gegnum IM-upplýsingakerfi framkvæmdastjórnar ESB og er það ýmist gefið út í heimaaðildarríki eða því ríki þar sem umsækjandi hyggst stunda starf sitt. Fagskír­teinið byggir á tilskipun 2013/55/ESB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Er því ætlað að ýta undir frjálsa för fag­fólks og tryggja skil­virk­ari og gagn­særri við­ur­kenn­ingu á fag­legri menntun og hæfi.

Fagskírteinið gildir enn sem komið er (2022) einungs fyrir eftirtaldar stéttir: hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, fjallaleiðsögumenn og fasteignasala. Sjúkraþjálfarar er lögvernduð heilbrigðisstétt hér á landi, sbr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012.

Lögfræðingar

Starfsheitið lögfræðingur nýtur ekki lögverndunar hér á landi. Lögfræðingur er einstaklingur sem hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Stéttarfélög lögfræðinga, ásamt Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands hafa skorað á stjórnvöld að þau beiti sér fyrir því starfsheitið verði lögverndað og aðeins þeir megi kalla sig lögfræðing hér á landi sem hafa lokið meistaraprófi í lögfræði.

Með lögmanni í skilningi laga um lögmenn er átt við þann við þann sem hefur leyfi stjórnvalda til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða Hæstarétti Íslands. Í lögum er gert ráð fyrir heimild lögmanna með starfsleyfi frá öðrum EES-ríkjum til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt ákvæðum EES-réttar um viðurkenningu starfsréttinda. Sjá nánar reglugerð um rétt lögmanna frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita tímabundna þjónustu hér á landi nr. 242/2018.

Viðurkenning á námi

Tilskipun 2005/36/EB tekur ekki til þeirra sem vilja stunda nám í öðru aðildarríki eða þá sem eru að hefja nám í einu landi og vilja halda því áfram í öðru. Upplýsingar um viðurkenningu á prófskírteinum eða námskeiðum má finna á http://www.enicnaric.is/