Skip to content

Opinber störf

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er ekki gerð krafa um íslenskan ríkisborgararétt. 

Um aðgengi fólks að störfum í opinberri þjónustu gilda almennar reglur um jafna meðferð án tillits til ríkisfangs. Sömu reglur gilda í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi. Alls staðar eru störf hjá hinu opinbera aðgengileg þeim sem hafa tilskilin atvinnuleyfi, eins og fram kemur í frumvarpi til breytinga á starfsmannalögum sem tóku gildi í febrúar 2019.

Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. EES-samningsins er aðildarríkjum heimilt að undanskilja störf í opinberri þjónustu frá reglum um frjálsa för og binda aðgang að þeim við eigin ríkisborgara. Um sérstaka undanþágu er að ræða frá reglum EES-réttar um frjálst flæði launafólks sem Ísland, líkt og önnur Norðurlönd, hefur kosið að byggja ekki á.

Fram kemur í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins að í þeim ríkjum þar sem þessari undanþágu hefur verið beitt skuli hún túlkuð mjög þröngt. Sýna þurfi fram á að starfið sem um ræðir feli í sér beina eða óbeina aðild að beitingu opinbers valds sem hafi þann tilgang að vernda ríkið eða almenna hagsmuni annarra opinberra aðila.