Skip to content

Tungumál

Tungumálaskilyrði sem sett eru fram í starfsauglýsingum og sem skilyrði fyrir aðgengi að störfum flokkast sem óbein mismunum á grundvelli þjóðernis þar sem þau hafa fyrst og fermst áhrif á ríkisborgara annarra EES-ríkja. 

Á hinum sameiginlega evrópska vinnumarkaði eru töluð a.m.k. 26 opinber tungumál. Þessi mikla fjölbreytni getur torveldað frjálsa för milli ríkja þar sem ólík tungumál eru töluð, einkum þegar vinnuveitendur gera þá kröfu að starfsfólk skilji og/eða tali hina opinberu tungu.

Meginreglan er sú að atvinnurekendum er óheimilt að gera kröfu um tungumálakunnáttu við auglýsingu starfa eða framkvæmd þeirra. Í reglum EES-réttar kemur þó fram að aðildarríkjum er heimilt að setja skilyrði um tungumálakunnáttu umsækjanda ef hún skiptir máli vegna eðlis starfsins sem um er að ræða. Skilyrði varðandi tungumálakunnáttu eða vottorð sem staðfesta ákveðna þekkingu á tungumálinu mega þó ekki ganga lengra en nauðsyn krefur miðað við markmiðið sem að er stefnt og hvernig þeim er beitt má ekki leiða til mismununar gegn ríkisborgurum annarra aðildarríkja.

Í 4. mgr. 2. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi segir að einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Þetta skilyrði byggir á EES-reglum um viðurkenningu starfsréttinda þar sem tekið er fram að einstaklingar, sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, skuli búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfsgreinina í viðkomandi ríki.

Krafa um íslenskukunnáttu vegna tiltekinna starfa getur einnig verið lögbundin. Má sem dæmi nefna að meðal lögmæltra starfsskilyrða Matvælastofnunar er að dýralæknar sem starfa í opinberri þjónustu skuli hafa vald á íslenskri tungu.

Það er ekki almennt starfsskilyrði hjá hinu opinbera að starfsfólk tali og skilji íslensku. Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir þó að íslenska sé mál stjórnvalda og að hverjum þeim sem býr hér á landi eigi almennt að nægja að hafa vald á íslensku til eðlilegrar þátttöku í málefnum þjóðfélagsins og til að geta rækt þar skyldur sínar og gætt réttinda sinna. Þessa regla felur í sér að íslenska skuli notuð hvarvetna í opinberri sýslu, jafnt í skriflegum sem munnlegum samskiptum.

Kröfur um íslenskukunnátta geta við ákveðnar aðstæður einnig farið í bága við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Í þeim lögum er m.a. kveðið á um bann við mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna og má færa rök fyrir því að kröfur um íslenskuþekkingu geti verið til þess fallnar að fara í bága þau lög enda þótt sú mismunun teldist einungis óbein. Sjá til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttsmála nr. 4/2019.