

Yfirlit formanns
Vetrarstarf BHM er að teiknast upp þessa dagana. Upptakturinn verður sleginn með málþingi um virði háskólamenntunar, sem haldið verður í Grósku 9. september nk. Þar verða kynntar niðurstöður skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og yfirgripsmikil rannsókn sem liggur að baki. Þar með verður hleypt af stokkunum umræðu um álitamál tengd háskólamenntun og sjónum beint að áskorunum þeim sem við stöndum frammi fyrir verði ekki gripið til aðgerða sem tryggja framboð af þeirri þekkingu sem samfélagið þarfnast og sem styður við nauðsynlega fjölgun í hópi þeirra sem sækja sér háskólamenntun. Þekkingin, sem tryggir samfélagsþróun framtíðarinnar, kann að vera í hættu ef ekki verður gert markvisst átak til að efla háskólamenntun.
Um þessar mundir á Línan okkar tveggja ára afmæli. Með henni hefur upplýsingaflæði frá skrifstofu BHM til aðildarfélaganna aukist til muna auk þess sem Línan hefur opnað tækifæri fyrir félögin að koma á framfæri því sem kann að eiga erindi út fyrir raðir eigin félagsfólks. Til marks um það hvernig Línan vex og dafnar er ánægjulegt að segja frá því að opnaður hefur verið aðgangur að Línunni á heimasíðu BHM þar sem hún er aðgengileg og því opin félagsfólki aðildarfélaganna sem kýs að fylgjast með starfinu innan bandalagsins.
Haustið er tími uppskeru og það má með sanni segja að BHM og aðildarfélögin uppskeri nú afrakstur af endurnýjaðri stefnu og framtíðarsýn fyrir bandalagið, sem öflugur hópur félagsfólks átti þátt í að vinna fyrr á árinu og sem samþykkt var á aðalfundinum í maí sl. Með það nesti í farteskinu leggjum línur fyrir vetrarstarfið og horfum björtum augum fram á veginn.

Þekkingin sem tryggir framtíð Íslands er í hættu
BHM stendur fyrir málþingi þriðjudaginn 9. september kl. 15:00–17:00 í Grósku, í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um virði háskólamenntunar. Þar verður kastljósi beint að þróun arðsemi háskólanáms, áhrifum þess á ungt fólk, kynjamun og framtíð menntastefnu.
📍 Dagskrá málþingsins:
Setning málþings
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
Kynning á skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ
Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og einn af höfundum skýrslunnar
Virði háskólamenntunar – sjónarhorn BHM
Sigrún Brynjarsdóttir, hagfræðingur BHM
Háskólasamfélagið og virði menntunar
Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Menntun og atvinnulíf
María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar
Pallborðsumræður
Fundartjórn: Katrín Jakobsdóttir
Þátttakendur:
• Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra
• Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka atvinnulífsins
• Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech og stjórnarmaður í HR
• Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
Við hvetjum félagsfólk, háskólasamfélagið og aðra áhugasama til að mæta og taka þátt í þessu mikilvæga samtali um framtíð háskólamenntunar á Íslandi.

Krafa um félagslegan jöfnuð í námslánum
Eitt stærsta hagsmunamál íslenskra háskólanema er Menntasjóður námsmanna (MSNM). Nýtt námslánakerfi sem sett var á laggirnar árið 2020 átti að bæta stöðu stúdenta en hefur í raun aukið greiðslubyrði um allt að 60% yfir ævina. Vextir geta farið upp í 9%, kerfið er ófyrirsjáanlegt og ósveigjanlegt og stúdentar bera áhættu af vanskilum. Þeir einstaklingar sem standa verst eru foreldrar í námi, leigjendur og þeir sem eru lengur að klára nám sitt af félagslegum ástæðum.
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa í tvö ár þrýst á heildarendurskoðun kerfisins, sem lög kveða á um. Í vor átti loksins að gera brýnar breytingar á lögum um námslán (mál S-45/2025) með bráðnauðsynlegum úrbótum, t.d. heimild til að greiða af einu láni í einu og meiri sveigjanleika í afborgunum. Þrátt fyrir jákvæðar umsagnir dagaði málið uppi vegna málþófs um veiðigjöld.
LÍS og BHM vinna saman að því að tryggja að frumvarpið verði forgangsmál á haustþingi. Breytingarnar myndu létta greiðslubyrði, styrkja félagslegan jöfnuð og tryggja að 30% námsstyrkurinn nýtist breiðari hópi. Frumvarpið þarf að njóta forgangs á komandi haustþingi og munu LÍS og BHM halda áfram náinni samvinnu til að knýja fram nauðsynlegar og tímabærar umbætur á lánakjörum stúdenta og nýútskrifaðra sérfræðinga.

Atvinnustefna Íslands til 2035
Loftslagsmál

Nýjar reglur Styrktarsjóðs kynntar félagsfólki
Í næstu viku verða kynntar breytingar á reglum Styrktarsjóðs BHM fyrir félagsfólk. Nýjar úthlutunarreglur sjóðsins taka gildi þann 1. september. Félögin hafa þegar fengið sérstakt kynningarefni til eigin nota og munu á næstu dögum fá efni ætlað félagsfólki.
Í þjónustuverinu standa nú yfir mannabreytingar og er verið að undirbúa annasamt haust. Meðal verkefna fram undan er að hefja frekari umbætur og breytingar á Mínum síðum.