

Yfirlit formanns
Störfin síðustu vikurnar hafa verið fjölbreytt að vanda. Talsverð orka hefur farið í að ljúka starfi starfshóps um brúun umönnunarbilsins, en skýrslu hópsins er að vænta á næstu dögum. Þá hefur rýnihópur grænbókar um lífeyriskerfið verið iðinn við kolann og nálgast að hann geti skilað af sér. Stýrihópur um virðismat starfa hjá ríki fundaði fyrir skemmstu og fagleg stjórn verkefnisins fundar reglulega. Samráðsvettvangur stjórnvalda um jafnréttismál fundaði í vikunni, þar eru nú lögð drög að nýrri aðgerðaáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, og var nokkur áhersla lögð á áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna vaxandi beitingu stafræns ofbeldis. Í því sambandi má benda á yfirstandandi 16 daga átak UN Women gegn stafrænu ofbeldi, en formaður BHM var ein þeirra sem ritaði grein um málið.
Fjárlagafrumvarpið er nú komið til annarrar umræðu og mikilvægt að fylgjast með ákveðnum þáttum í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar. Þar má nefna jöfnunarframlag til lífeyrissjóðanna, sem lagt er til að verði 4,9 milljarðar króna, en óljóst er hvernig ætlunin er að það skiptist á milli sjóða sem hafa háa örorkubyrði. Eins leggur meirihlutinn til breytingar á framlögum til kennslu í íslensku sem öðru máli og bregst að einhverju leyti við vanfjármögnuðu háskólakerfi og fjárþörf LSH. Allt er þetta til skoðunar hjá sérfræðingum BHM og líkur á að staðan í ríkisfjármálunum verði meðal þess sem rætt verður á væntanlegum fundi Þjóðhagsráðs.
Líflegt starf hefur verið i fastanefndum BHM síðustu vikur. Fulltrúar BHM í stjórnum lífeyrissjóðanna BRÚAR og LSR komu á fund lífeyris- og lánanefndar í vikunni og að auki er nefndin með í skoðun að framkvæma könnun á stöðu félagsfólks aðildarfélaga BHM á húsnæðismarkaði. Þá vinnur kjaranefnd að undirbúningi úrvinnslufundar vegna kjaralotunnar 2024-2025 og jafnréttisnefnd hefur verið að skoða lækkandi fæðingartíðni á Íslandi, brúun umönnunarbilsins og tekjumissi mæðra við barneignir.
Í bland við alvarlegri mál gerum við okkur glaðan dag á aðventunni. Nýafstaðið er jólahlaðborð starfsfólks BHM og framundan er jólagleði í B27, sem haldin verður í tengslum við jólafund formannaráðs 17. desember nk.

Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof
BHM styður fyrirhugaðar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi sem tryggja að hækkanir á hámarksgreiðslum miðist við þann tíma sem réttur er nýttur, en ekki eingöngu við fæðingardag barns. Með þessu fyrirkomulagi mun hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í 900.000 kr. frá 1. janúar 2026 einnig ná til foreldra sem eiga ónýttan rétt, óháð fæðingardegi barns. Breytingin gildir einnig um frumættleiðingu, varanlegt fóstur og sorgarleyfi.
BHM bendir þó á að kaupmáttur hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi hefur rýrnað verulega frá árinu 2005 og að hámarksgreiðslur verða árið 2026 um 20% undir meðaltali heildarlauna. Langvarandi vanmat á greiðslum í fæðingarorlofi er ein helsta skýribreytan í kynbundnum tekjumun á Íslandi og hefur sýnt sig að konur verða fyrir verulegu tekjutapi við barneignir. Sjá nýlega rannsókn Unu Margrétar Lyngdal á tekjuþróun foreldra við barneignir á Íslandi.
BHM telur löngu tímabært að stjórnvöld setji skýrar reglur um þróun fæðingarorlofsgreiðslna í hlutfalli við laun, í samræmi við 54. gr. laganna, og tryggi fyrirsjáanleika í stað óreglulegra og pólitískra ákvarðana.

Skýrsla um hlutverk og starfsskilyrði embættismanna

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar kynnt 27. nóvember

BHM, ASÍ og BSRB vísa máli um tryggingavernd starfsfólks í hlutastörfum til ESA
Í grein á Vísi 3. desember hélt lögmaðurinn Agnar Þór Guðmundsson því fram að stéttarfélög hefðu samþykkt að starfsmenn í hlutastörfum hjá Reykjavíkurborg sættu mismunun í slysatryggingum. Sú fullyrðing er röng og villandi.
Reglur Reykjavíkurborgar nr. 1/1990 og 2/1990, sem vísað er til í kjarasamningum, fela í sér að aðeins þeir sem teljast hafa starf sitt sem „aðalstarf“ njóta fullrar tryggingaverndar. Þetta hefur í reynd leitt til þess að starfsmenn í hlutastörfum geta verið útilokaðir frá bótum vegna slysa. Sama fyrirkomulag gildir hjá ríkinu samkvæmt reglum nr. 30/1990 og 31/1990.
BHM, ASÍ og BSRB hafa ítrekað krafist breytinga á þessum reglum, en án árangurs. Þann 17. febrúar síðastliðinn kærðu samtökin íslenska ríkið til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna brota á tilskipun 97/81/EC um hlutastörf, sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 10/2004. ESA hefur nú óskað eftir skýringum frá ríkinu og málið er til meðferðar hjá stofnuninni.
BHM leggur áherslu á að fullyrðingar um samþykki stéttarfélaga fyrir mismunun séu rangar. Þvert á móti hafa þau staðið vörð um réttindi félagsfólks í hlutastörfum og leitað réttar þess með formlegri kvörtun til ESA.

Lýðræði undir álagi – stéttarfélög í fremstu víglínu
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, tók nýverið þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu sem NFS stóð fyrir í Helsinki. Þar var fjallað um hvernig stéttarfélög gætu eflt tengsl sín við aðrar samfélagslegar hreyfingar og styrkt lýðræðislegt hlutverk sitt í samfélaginu. Yfirskrift málþingsins var „Democracy under pressure – unions in the frontline“.
Í máli sínu lagði Kolbrún áherslu á að samtök launafólks væru jafnframt mannréttindasamtök því það heyrði til mannréttinda að geta stofnað félög um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. En baráttan snerist ekki einungis um kaup og kjör, heldur um svo ótal marga aðra mikilvæga þætti. Hún nefndi sem dæmi samstarf BHM og Samtakanna ‘78 um hinseginvottun, sem og nýlegt sameiginlegt átak heildarsamtaka launafólks og samtakanna Ísland–Palestína um skýra kröfu á íslensk stjórnvöld um að styðja við frið í Palestínu.
Einnig komu loftslagsmál og réttlát umskipti (e. just transition) til umræðu, en erfiðlega hefur gengið að halda stjórnvöldum við efnið á vegferð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Önnur málefni sem brunnu á þátttakendum á ráðstefnunni tengdust vaxandi valdi stórfyrirtækja yfir vinnumarkaði og áhrifum þeirra á samfélagsþróun víða í heiminum, auk þess sem lýst var áhyggjum af uppgangi öfgahægriflokka innan hins pólitíska litrófs.
Einn framsögumanna á ráðstefnunni var Luc Triangle, framkvæmdastjóri ITUC. Í máli sínu lagði hann áherslu á mikilvægi þess að stéttarfélög tækju pláss í umræðunni, þau ættu að vera í fararbroddi í baráttunni fyrir lýðræði, félagslegum réttindum og réttlátum umskiptum um heim allan. Ekki væri um óskalista að ræða heldur brýna nauðsyn - nú sé ekki tími til að þegja heldur að láta í sér heyra og endurheimta lýðræðið.

Belém Action Mechanism: Nýtt afl fyrir réttlát umskipti á COP30

Óvissa í frumvarpi um háskólasamstæðu
BHM hefur skilað umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um opinbera háskóla sem kveða á um stofnun háskólasamstæðu. Bandalagið styður í meginatriðum markmið frumvarpsins um að efla gæði náms og rannsókna með sameiginlegum innviðum og samlegð háskóla, en telur að veruleg óvissa sé enn til staðar.
Í umsögninni er bent á að tryggja þurfi:
· að upptalning opinberra háskóla verði áfram í lögum til að tryggja gagnsæi og lýðræðislega aðkomu,
· að ítarleg kostnaðargreining liggi fyrir um launajöfnun, innviðauppbyggingu og rekstrarþörf áður en sameining Háskóla Íslands og Hólaskóla á Hólum fer fram,
· að doktorsnám við Hólaskóla byggi á sömu gæðakröfum og annað háskólanám,
· að nemendur og hagsmunaaðilar fái fulla aðkomu að stjórn samstæðunnar,
· og að réttindi starfsfólks verði tryggð, þar á meðal að stofnanasamningar haldi gildi sínu þar til nýir samningar hafa verið gerðir.
BHM tekur undir gagnrýni FÍN - Félags íslenskra náttúrufræðinga á skorti á samráði og af óljósum ákvæðum um réttindi starfsmanna. Bandalagið telur að frumvarpið í núverandi mynd skorti skýran fjárhagslegan og stjórnsýslulegan grundvöll og geti skapað ójöfnuð innan háskólakerfisins, og hvetur til að úr því verði bætt við endanlega gerð þess.
BHM lýsir sig reiðubúið til áframhaldandi samtals og samráðs við stjórnvöld og aðra hagaðila til að tryggja fagleg gæði, gagnsæi og jafnræði í íslensku háskólastarfi.

Jafnt aðgengi og varfærni í stefnumótun um opinbera þjónustu
BHM sendi umsögn um skýrslu Stjórnarráðsins um stöðumat og valkosti stefnu um opinbera þjónustu. Að mati BHM endurspeglar skýrslan vel þróun síðustu ára og þær áskoranir sem blasa við ríki og sveitarfélögum.
Í umsögn sinni leggur BHM áherslu á:
· að jafnt aðgengi að þjónustu sé tryggt fyrir alla hópa samfélagsins,
· fjölbreyttar þjónustuleiðir og upplýsingar á mörgum tungumálum,
· fræðslu starfsfólks um réttindi fatlaðs fólks og menningarlæsi,
· aðgengi að rafrænum lausnum með hliðsjón af þörfum viðkvæmra hópa.
BHM varar við of mikilli sjálfvirkni í stjórnsýslu, sérstaklega í málum sem varða réttindi og skyldur einstaklinga. Rannsóknir frá Norðurlöndum sýna að sjálfvirk ákvarðanataka geti leitt til villna, ógagnsæis og aukins ójafnaðar, einkum meðal eldra fólks, innflytjenda og fatlaðs fólks.
Í umsögninni er áréttað að:
· sjálfvirknivæðing megi ekki verða meginviðmið í öllum málaflokkum,
· mannleg aðkoma verði áfram lykilatriði í matskenndum og réttindabundnum málum,
· tryggð verði gagnsæi, rökstuðningur og öryggisventlar í notkun gervigreindar.
BHM styður meginlínur stöðumatsins og telur mikilvægt að heildstæð stefna um opinbera þjónustu byggi á aðgengi, jafnrétti, einföldun og bættu samræmi. Stafrænar umbreytingar þurfa ávallt að vera ábyrgðarfullar, með virku mannlegu eftirliti og tryggu aðgengi allra hópa að þjónustu hins opinbera.


