

Yfirlit formanns
Haustannirnar hjá bandalaginu hafa öðru fremur einkennst af fjölda umsagna til stjórnvalda um þingmál eða áform um lagasetningu. Slíkt er engin nýlunda, en þó virðist málafjöldinn meiri núna en vanalega. Trúlega veldur þar nokkru hversu erfitt var fyrir nýja ríkisstjórn að koma málum á dagskrá þingsins sl. vor, þegar umræða um hækkuð veiðigjöld yfirskyggði önnur mál. Línan greinir frá helstu umsögnum BHM um fyrirliggjandi mál.
Starfsdagur stjórnar og starfsfólks BHM 10. október sl. var bæði gagnlegur og skemmtilegur. Nú er unnið úr efniviði fundarins, sem verður nýttur í áframhaldandi eftirfylgni stefnumótunar bandalagsins. Samræmingarhópur um innra starf BHM er líka að funda um áhugaverð mál er varða þjónustuviðmið og skyldur aðildarfélaga gagnvart félagsfólki.
Starfið í nefndum BHM er líflegt um þessar mundir, dagskrá þriðjudagsfundanna er í mótun og búið er að ákveða efni þeirra að mestu fram að áramótum. Vinna við starfs- og fjárhagsáætlun næsta árs stendur yfir og verður hún kynnt í fyrstu drögum á næsta fundi formannaráðs.
Af almennri umræðu vekja nokkurn ugg fréttir af því að bankarnir hafi ákveðið að fresta nýjum lánveitingum til húsnæðiskaupenda vegna dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða. Ástandið á fasteignamarkaði var nú nógu slæmt fyrir og kemur þessi aðgerð bankanna allra verst niður á kaupendum fyrstu eignar. Í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem ungt fólk glímir við á fyrstu stigum starfsferils, eins og kemur vel í ljós í nýlegri menntaskýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, hlýtur bandalagið að kalla eftir því að bankarnir losi um þessar hömlur og að stjórnvöld sýni skilning á stöðu ungs fólks á fasteignamarkaði í væntanlegum áformum sínum um aðgerðir á húsnæðismarkaði.
En nú er tímabært að brýna raustina og taka undir hvatninguna í baráttusöngnum magnaða ÁFRAM STELPUR! Bandalagið á aðild að Kvennaárinu 2025 og hvetur til góðrar þátttöku í viðburðum kvennaverkfallsins á föstudaginn; sögugangan „Sko mömmu, hún hreinsaði til“ og baráttufundur á Arnarhóli eru hápunktar baráttudagsins. Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur!

Kvennaverkfall 24. október 2025
Föstudaginn 24. október 2025 fara fram fundir um land allt til að minnast þess að í ár eru 50 ár liðin frá kvennafrídeginum árið 1975, þegar 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að undirstrika mikilvægi vinnuframlags kvenna og krefjast raunverulegs jafnréttis. Þrátt fyrir áfangasigra er baráttunni langt í frá lokið.
Konur og kvár eru hvött til að leggja niður bæði launuð og ólaunuð störf allan daginn, sækja viðburði og sýna samstöðu með kröfum Kvennaárs. Atvinnurekendur eru jafnframt hvattir til að styðja við þátttöku starfsfólks, m.a. með sveigjanleika og skýrum stuðningi.
Hvatningabréf til atvinnurekenda og til kvenna og kvára er að finna á heimasíðu Kvennaárs og nánari upplýsingar um dagskrá má lesa á Facebook-síðu Kvennaárs 2025.


FÍN fangaði 70 ára afmæli
FÍN (Félag íslenskra náttúrufræðinga) fagnaði 70 ára afmæli sínu á dögunum þegar félagsfólki var boðið til glæsilegrar veislu á Kjarvalsstöðum. Margt var um manninn í hófinu en um 250 manns voru í húsinu þegar mest var. Góðir gestir heiðruðu félagið með ræðuhöldum en Kolbrún Halldórsson, formaður BHM, flutti ávarp sem og Páll Halldórsson, fyrrverandi formaður bæði FÍN og BHM.
Þá voru úrslit í ljósmyndasamkeppni FÍN kunngerð og verðlaun afhent en Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri afhenti verðlaunin. Einnig var ný og væntanleg vefsíða félagsins forsýnd en hún fer í loftið á næstu vikum. Margrét Arnar harmonikkuleikari lék létta tóna undir glasaglaumi kvöldsins og að lokum sló Vandræðaskáldið Vilhjálmur B. Bragason botninn í kvöldið.
Í tilefni af afmælinu fór FÍN í samstarf við Bjórsetur Íslands á Hólum í Hjaltadal sem bruggaði sérlega fínan afmælisbjór sem gestir fengu að gæða sér á og rann hann ljúflega niður en örverufræði er eitthvað sem náttúrufræðingar kunna góð skil á.

Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa og 60 ára afmæli Þroskaþjálfafélags Íslands
Á alþjóðlegum degi þroskaþjálfa, þann 2. október, var stofnfélögum, fyrrverandi formönnum og fulltrúum úr nefndum og ráðum Þroskaþjálfafélags Íslands boðið til móttöku á Bessastöðum. Félagið fagnaði jafnframt 60 ára afmæli sínu þann 18. maí síðastliðinn og af því tilefni voru stofnendur og fyrrverandi formenn félagsins heiðraðir með gullmerki félagsins. Halla Tómasdóttir forseti Íslands aðstoðaði við afhendinguna.
Í tilefni afmælisins hélt félagið einnig afmælismálþing í Gamla bíó undir yfirskriftinni Vettvangur á tímamótum – 60 ára aldur á alþjóðlegum degi þroskaþjálfa. Á dagskrá voru fjölbreytt erindi flutt af þroskaþjálfum sem starfa á ólíkum vettvangi. Þá tók hópur þroskaþjálfa með mismunandi langa starfsreynslu þátt í pallborðsumræðum – „hlaðvarpi“ – þar sem rætt var um starfsheiti stéttarinnar og hvort það standist tímans tönn.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði málþingsgesti og þakkaði þroskaþjálfum mikilvægt starf. Samdóma álit þátttakenda var að málþingið hefði tekist afar vel og veitt mikinn innblástur fyrir næsta málþing sem haldið verður í mars.

Fjárlög 2026 - Sjónarmið BHM

BHM kallar eftir fullri fjármögnun Jafnréttisstofu

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk hafnar afskiptum í samningsfrelsi

BHM ítrekar afstöðu sína gegn styttingu bótatímabils
Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er umsögn BHM í vinnslu. Drögin staðfesta öll helstu meginatriði sem fram komu þegar áform um sama mál voru kynnt í september. Aðalatriðið, stytting hámarksbótatímabils úr 30 mánuðum í 18 mánuði, er óbreytt.
BHM telur að áform stjórnvalda um styttingu bótatímabilsins séu ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og að ekki liggi fyrir hvaða úrræði eigi að standa til boða þeim sem hafa fullnýtt bótarétt sinn. Bandalagið hefur ítrekað bent á að breytingar af þessu tagi verði að byggjast á heildstæðu mati á félagslegum og efnahagslegum áhrifum, í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Í drögunum eru nokkur atriði sem eru til bóta, meðal annars ákvæði varðandi desemberuppbót og rétt til atvinnuleysisbóta samhliða námi við ákveðnar aðstæður.

Fyrirkomulag greiðslna í fæðingarorlofi og sorgarferli

Grunn- og framhaldsnámskeið trúnaðarmanna 4.-5. nóvember
BHM heldur tvö stutt og hnitmiðuð trúnaðarmannanámskeið í Borgartúni 27 (3. hæð) kl. 13:00–16:00, grunnnámskeið 4. nóv. og framhaldsnámskeið 5. nóv. Námskeiðin henta trúnaðarmönnum á bæði opinbera og almenna vinnumarkaðnum.
Aðildarfélög eru hvött til að hvetja sína trúnaðarmenn eindregið til þátttöku og gjarnan skipuleggja stuttan fund með þeim í aðdraganda.
Skráning: Mínar síður BHM → Viðburðir og námskeið

Orlofssjóður
Það eru spennandi tímar hjá Orlofssjóði BHM þessa dagana, en unnið er að uppsetningu á nýjum bókunarvef sem heitir Frítími. Nýi vefurinn opnar 28. október kl. 09:00 og geta þá sjóðfélagar kynnt sér vefinn.
Þann 30. október frá klukkan 12:00 að hádegi opnum við fyrir næsta tímabil sem er frá 6. janúar - 2. júní 2026. Þá hefur nýr vefur tekið við og bókanir fara þar í gegn.
Áður en vefurinn opnar verður sendur upplýsingapóstur til aðildarfélaga og á póstlista sjóðfélaga. Ítarlegar upplýsingar og frétt verður einnig sett á vef BHM.
Einn af kostum nýs bókunarvefs er að bókun er frátekin í stuttan tíma á meðan gengið er frá greiðslu. Sjóðfélagar munu geta fært til dagsetningar á bókun á sama húsi og tímabili. Einnig munu sjóðfélagar geta afbókað á bókunarvefnum sjálfum, það þarf ekki að senda tölvupóst eins og hefur verið og er afbókun samþykkt, ef hún er í samræmi við reglur sjóðsins. Endurgreiðslur fara sjálfkrafa í gegn – einfalt og þægilegt.
Gjafabréf í flug verða áfram – sem og Veiðikort og Útilegukort. Við munum fara aðrar leiðir og leita að öðrum valkostum varðandi sérkjör á gistingu innanlands sem verða kynntir síðar.

Sjúkrasjóður
Breyttar úthlutunarreglur Sjúkrasjóðs BHM fyrir félagsfólk á almennum vinnumarkaði taka gildi þann 1. nóvember. Upphæðir allra styrkja hækka auk þess sem sjúkradagpeningar verða nú greiddir í allt að fimm mánuði í stað fjögurra.
- Fæðingarstyrkur hækkar úr 100.000 kr. í 300.000 kr.
- Heilbrigðisþjónusta og forvarnir hækkar úr 75.000 kr. í 100.000 kr.
- Líkamsræktarstyrkur hækkar úr 25.000 kr. í 35.000 kr.
- Gleraugnastyrkur kemur nýr inn og verður 45.000 kr.
- Tæknifrjóvgunarstyrkur hækkar úr 125.000 kr. í 200.000 kr.
- Forvarnarstyrkur vegna krabbameinsleitar og hjartasjúkdóma hækkar úr 20.000 kr. í 25.000 kr.
- Heyrnartækjastyrkur hækkar úr 145.000 kr. í 250.000 kr.
- Dánarbætur hækka úr 350.000 kr. í 500.000 kr.
- Annar heilbrigðiskostnaður hækkar úr 150.000 kr. í 300.000 kr.
- Ættleiðingarstyrkur hækkar úr 170.000 kr. í 250.000 kr.
- Starftengd áföll eða óvænt starfslok styrkur hækkar úr 55.000 kr. í 100.000 kr.
Breytingarnar verða auglýstar sérstaklega fyrir félagsfólki og aðildarfélögum þegar nær dregur og við gildistöku.