Fréttabréf BHM - janúar 2026

Línan - Fréttabréf BHM
Línan - Fréttabréf BHM

Yfirlit formanns

Árið 2026 byrjaði með trukki á skrifstofu BHM. Fjöldi nýrra mála var kynntur á Alþingi, sem huga þarf að, og fundir voru boðaðir í starfshópum og stjórnum. Stýrihópur um virðismat starfa hjá ríki og fagleg stjórn virðismats funduðu, haldinn var fundur í fulltrúaráði Virk og formenn norrænna systursamtaka BHM áttu sinn árlega fund. Vinnustofan um kjaralotuna 2024-2025 og næstu skref var haldin og úrvinnsla úr þeirri vinnu stendur yfir.

Vinnan við mótun atvinnustefnu stjórnvalda er orðin sýnilegri; 13. janúar bauð forsætisráðherra til opins fundar í Grósku. Kunnur hagfræðiprófessor Marianna Mazzucato var gestur ríkisstjórnarinnar og flutti innblásinn fyrirlestur um það sem hún kallar „mission-economy“ sem má kannski þýða sem markmiðadrifið hagkerfi. Það er gagnlegt að vita að kenningar Mazzucato skuli eiga að vera hryggjarstykkið í væntanlegri atvinnustefnu. Það gefur aðilum vinnumarkaðarins möguleika á að halda stjórnvöldum við efnið beri þau af leið í stefnumörkuninni. Þennan sama dag var formanni BHM boðið að hitta hið nýja atvinnustefnuráð ríkisstjórnarinnar – IPC ásamt fulltrúum BSRB og ASÍ. Í framhaldinu hafa sérfræðingar BHM sett í gang vinnu við greiningu starfa sem háskólamenntaðir gegna í útflutningsgreinunum, til að undirbúa þátttöku BHM í frekari þróun samtalsins um atvinnustefnu. Nokkuð sem einnig mun gagnast í undirbúningi fyrir næstu kjaralotu.

Af vettvangi systursamtaka BHM á Norðurlöndum eru þær fréttir helstar að grannt er fylgst með aukningu álagstengdra sjúkdóma hjá framlínustéttum í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfum hins opinbera. Áforma félögin aukið samstarf varðandi þann vanda, ásamt virkara samtali um starfsendurhæfingu og mönnun í þessum greinum.

BHM, BSRB og KÍ voru boðuð til fundar hjá embætti ríkissáttasemjara 15. janúar þar sem fram fór kynning á hugmyndum um breytingar á örorkubótarétti, þ.e. áform um að aflétta örorkubyrði af lífeyrissjóðunum. Gylfi Arnbjörnsson fer fyrir hópi sem skoðað hefur málið á vettvangi SA og ASÍ. Hugmyndirnar eru til skoðunar hjá fulltrúum BHM í stjórnum lífeyrissjóðanna LSR og Brúar og verða kynntar á vettvangi aðildarfélaganna á næstunni.

Verkefnin á borðum sérfræðinga BHM eru fjölbreytt að vanda eins og fram kemur í þessari Línu janúarmánaðar. Mörg tengjast þau starfi fastanefnda BHM, sem allar eru að yfirfara starfsáætlanir sínar og gíra sig upp í að ljúka ýmsum verkefnum fyrir vorið. Þegar nýr hagfræðingur bættist í hóp sérfræðinga BHM í upphafi árs, Ingvar Freyr Ingvarsson, tók hann við af Sigrúnu Brynjarsdóttur sem sérfræðingur kjaranefndar, Sigrún tók við sem sérfræðingur jafnréttisnefndar og Ingvar Sverrisson heldur áfram sem sérfræðingur lífeyris- og lánanefndar. Mikils er að vænta af þeirri kraftmiklu sveit sérfræðinga sem BHM hefur á að skipa og árið leggst vel í okkur.

Hagkorn BHM - hvert erum við að stefna?

Í nýjasta Hagkorni BHM er fjallað um þróun kjarasamninga undanfarinna ára og áhrif á launamyndun, hvata til menntunar og markmið um aukna verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Þar kemur fram að blanda krónutölu- og prósentuhækkana hefur á undanförnum árum leitt til hlutfallslega meiri hækkunar á lægstu launum og þannig dregið úr launamun milli menntunarstiga. Þessi þróun getur veikt fjárhagslegan hvata til framhaldsmenntunar og sérhæfingar á sama tíma og stjórnvöld vinna að atvinnustefnu sem byggir á nýsköpun, sérfræðiþekkingu og hærri framleiðni.

Jafnframt er bent á að fjárhagslegur ábati af háskólamenntun hafi dregist saman – arðsemi menntunar er nú meðal þeirrar lægstu í samanburðarlöndum – sem geti dregið úr hvötum til náms og unnið gegn langtímamarkmiðum um aukna verðmætasköpun. Á sama tíma hafa breytingar á launadreifingu, meðal annars lækkun tíundastuðuls á árunum 2019–2022, sýnt aukna samþjöppun launa, sérstaklega á opinberum markaði.

Það eru hagfræðingarnir Ingvar Freyr Ingvarsson og Sigrún Brynjarsdóttir sem standa saman að Hagkornum BHM.

Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang

Undanfarna mánuði hafa BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) ítrekað kallað eftir heildarendurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna. Í þremur nýlegum greinum sem Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM og Lísa Margrét Gunnarsdóttir forseti LÍS hafa skrifað er dregin skýr mynd af alvarlegum kerfisvanda, mikilvægi umbóta og þeim jákvæðu skrefum sem nú þegar hafa verið tekin – þó að verkefninu sé langt í frá lokið. Þess vegna hafa Lífeyris- og lánanefnd BHM og LÍS gert með sér samning um heildstæða greiningu á áhrifum nýs námslánakerfis sem tók gildi 2020. Markmiðið er að afla traustra gagna um stöðu stúdenta, greiðslubyrði námslána, félagsleg áhrif kerfisins og samanburð við Norðurlönd og Evrópu, til að styðja sameiginlega hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum. Verkefnið stendur frá nóvember 2025 til apríl 2026 og mun BHM leggja til 2,5 m.kr. í kostnað. Niðurstöður verða kynntar opinberlega vorið 2026.

Kerfi sem á að vera stuðningur – en er orðið byrði

Í grein BHM og LÍS þann 14. janúar er lýst hvernig núverandi námslánakerfi, með háum vöxtum og óraunhæfum forsendum um aðstæður námsmanna, vinnur gegn markmiðum um jöfn tækifæri til náms. Álag vegna framfærslu, lengri námstími og aukin skuldsetning eru of algengir fylgifiskar kerfisins, sem ætlað er hlutverk félagslegrar jöfnuna. Það er mikil vægt að aðlaga kerfið svo það taki mið af veruleika íslenskra námsmanna og því brýnt að lokið verði við heildarendurskoðun þess.

Lagfæringar hafnar – en heildarendurskoðun bíður

Grein frá 14. nóvember leggur áherslu á að þrátt fyrir nýlegar breytingar sé verkefnið langt frá því fullunnið. BHM og LÍS fagna því að heildarendurskoðun sé á döfinni og krefjast m.a. afnáms vaxtaálags, aukins sveigjanleika og leiðréttinga á aldurstakmörkum tekjutengingar sem mismuni eldri nemendum. Einnig er bent á skort á t.d. úrræðum fyrir foreldra í námi.

Jákvæð skref tekin – en kerfisbreytingar árið 2020 skildu eftir verri stöðu

Í grein 4. nóvember er fagnað nýjum lagabreytingum (lög nr. 253/2025) sem m.a. draga úr greiðslubyrði og auka sveigjanleika, t.d. með breyttu fyrirkomulagi niðurfellinga og lengri aðlögunartíma eftir útskrift. Þrátt fyrir það er áréttað að námslánakerfið hafi versnað í grundvallaratriðum við tilkomu MSNM-kerfisins sem tekið var í gagnið árið 2020, þar sem dregið var úr beinum stuðningi ríkisins og áhætta færð yfir á nema. Því þurfi að ganga enn lengra og tryggja sanngjörn vaxtakjör og að sjóðurinn verði raunverulegt félagslegt jöfnunartæki.

Námskeið fyrir félagsfólk Starfsþróunarseturs BHM

Starfsþróunarsetur BHM og Endurmenntun HÍ hafa endurnýjað samning sinn fyrir vornámskeið 2026, þar sem félagsfólki þeirra félaga sem aðild eiga að Starfsþróunarsetri BHM býðst að sækja valin námskeið hjá Endurmenntun HÍ.

Samningurinn verður með breyttu sniði en gilti á síðasta misseri. Nú gefst hverjum einstaklingi færi á að sækja eitt námskeið sér að kostnaðarlausu á tímabilinu. Námskeiðin sem um er að ræða eru sérstaklega valin þannig að sem flest félagsfólk geti nýtt sér þau til að efla sig í starfi.

Félagsfólk getur skráð sig á eitt námskeið sem kemur ekki til frádráttar frá styrkupphæð einstaklinga. Kjósi einstaklingar að skrá sig á fleiri en eitt námskeið eru þau sem fyrr styrkhæf hjá Starfsþróunarsetrinu.

Upplýsingar um afsláttarkóða sem nota skal við skráningu þarf að sækja inn á „Mínar síður“ á vef BHM. Afsláttarkóðinn virkar fyrir eftirtalin námskeið.

Ef afsláttarkóðinn er notaður á fleiri en eitt námskeið er veittur sjálfkrafa styrkur fyrir þeim námskeiðum sem kemur til frádráttar á inneign viðkomandi hjá Starfsþróunarsetrinu.

Öðrum en félagsfólki með virka aðild að Starfsþróunarsetri BHM er með öllu óheimilt að nota afsláttarkóðann. Ef afsláttarkóðinn er notaður af einstaklingi sem ekki hefur aðild að Starfsþróunarsetrinu verður námskeiðsgjald innheimt með greiðsluseðli á viðkomandi einstakling.

Vinnustofa um næstu kjaralotu

Þann 12. janúar 2026 hélt kjaranefnd BHM vinnustofu með fulltrúum aðildarfélaga til að undirbúa næstu kjaralotu sem fer fram árið 2028. Þátttakendur voru á þriðja tug og voru sérfræðingar BHM í hlutverki borðstjóra. Guðrún Ragnarsdóttir frá Strategíu stjórnaði vinnustofunni, sem tókst afar vel.

Umræðan snerist að hluta um það sem læra má af fyrirkomulagi samningaviðræðna og hlutverki bandalagsins í kjaralotunni 2024 – 2025, en stærstur hluti tímans fór þó í að ræða nálgunina í kjaralotunni sem framundan er.

Niðurstöðu vinnunnar má draga saman í fáum orðum; hópurinn vill nálgast næstu kjaralotu með markvissum hætti, að við komum okkur saman um sameiginlega sýn, bætum verkferla og gagnaöflun með það að markmiði að meitla og undirbyggja kröfugerðir félaganna. Þessir þættir eru taldir grunnur að trúverðugri, faglegri og öflugri samningsstöðu fyrir háskólamenntað starfsfólk á vinnumarkaði.

Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands í Póllandi og fyrrverandi formaður BHM og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM.

Fræðsluerindi: Ástand alþjóðamála

BHM stóð fyrir fræðsluerindi 21. janúar þar sem Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands í Póllandi og fyrrverandi formaður BHM,fór yfir stöðu alþjóðamála og hvernig hnattræn spenna, átök og veiking alþjóðakerfisins geta haft bein og óbein áhrif á íslenskt samfélag, vinnumarkað og réttindi launafólks. Erindið var til þess fallið að efla þekkingu og umræðu innan BHM um alþjóðlega þróun og mikilvægi þess að heildarsamtök launafólks taki virkan þátt í stefnumótun á þessum sviðum.

Á vettvangi samstarfsnets norrænna samtaka launafólks NFS, sem BHM, BSRB og ASÍ eiga aðild að, er umræða um áhrif hins ótrygga ástands heimsmála á vinnumarkað orðin áberandi og mikilvægt að hefja samtalið hér á landi með markvissum hætti. Markmiðið væri að móta sameiginlega sýn á öryggis- og varnarmál, þ.m.t. málefni almannavarna, auk þess að ræða áhrif alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á vinnumarkað og réttindi launafólks.

Það er mat BHM að ábyrg og opin umræða um þessi áleitnu mál þurfi að eiga sér stað á vettvangi samtaka launafólks. Það á jafnt við um fræðslu og upplýsingar til félagsfólks stéttarfélaga og samstarfið á vettvangi stjórnvalda. Það er sameiginlegt verkefni okkar að taka afstöðu til og geta brugðist við breyttum aðstæðum í heiminum.

NFS lýsir yfir eindregnum stuðningi við Grænlendinga

Norræn heildarsamtök launafólks (NFS) hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við Landsamband verkalýðsfélaga á Grænlandi (SIK) og grænlensku þjóðina. Tilefnið eru endurteknar yfirlýsingar frá ríkisstjórn Donalds Trumps um að taka yfir stjórn Grænlands og færa landið undir Bandaríkin.

Í yfirlýsingunni, sem fulltrúar allra aðildarsambanda NFS hafa undirritað, er áhersla lögð á óumdeilanlegan rétt Grænlendinga til sjálfsákvörðunar og að búa við öryggi, án utanaðkomandi þrýstings, hótana eða pólitískrar íhlutunar.

„Enn á ný hefur ríkisstjórn Trumps viðrað þá ætlun sína að taka yfir stjórn Grænlands. Og enn á ný hefur grænlenska þjóðin staðfest einarðlega vilja sinn til að ráða eigin framtíð – án utanaðkomandi þrýstings eða hótana,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Þjónustuver BHM: Umsóknum fjölgaði verulega í lok árs

Verkefni þjónustuvers eru óðum að komast í samt horf eftir miklar annir í kringum hátíðarnar. Starfsfólk hefur unnið hörðum höndum að afgreiðslu sem flestra umsókna með það fyrir augum að biðtími eftir svari sé sem skemmstur. Má í raun segja að það hafi gengið vonum framar og er afgreiðslutími umsókna þessa vikuna vel innan þeirra viðmiða sem við setjum okkur.

Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að þjónustuver hefur verið undirmannað undanfarið auk þess sem fjöldi umsókna jókst gífurlega á síðustu mánuðum ársins miðað við árið á undan. Í desember var aukning umsókna þvert á sjóði 13% á milli ára og í nóvember var hún 37%.

Í byrjun janúar auglýsti BHM eftir þjónustufulltrúa í þjónustuver. Mikill fjöldi umsókna barst okkur og ánægjulegt að sjá þann áhuga sem okkar góða vinnustað er sýndur. Ráðningarferlið er nú á lokametrunum og stefnt er að því að nýr starfsmaður geti hafið störf á næstu vikum.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími síma þjónustuvers:
mán. til fim. 10:00 - 14:00
fös. 10:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt