Skip to content

Ég er að ljúka störfum

Að ljúka störfum og fara á eftirlaun eru stór tímamót í lífinu. Við taka spennandi ár þar sem áhugamálin og fjölskyldan skipa stóran sess.

Þegar líða fer á starfsævina hafa flest leitt hugann að því hvernig best er að haga eftirlaunaárunum. Fyrir sum eru þessi tímamót langþráð en hjá öðrum eru blendnari tilfinningar og skrefin jafnvel erfið. Flest breyta þó áherslum í lífinu að einhverju leyti á eftirlaunaárunum, sinna áhugamálunum meira, verja meiri tíma með fjölskyldunni, ferðast meira eða nota tímann til að láta gamla drauma rætast.

Öll viljum við geta notið tímans vel og því er gott að vera vel undirbúin. Einnig er mikilvægt að atvinnurekendur aðstoði og leiðbeini þegar kemur að þessum tímamótum hjá starfsfólki.

Vissir þú?

... að við starfslok er hægt er að greiða sér sérstakt ævigjald í orlofssjóð BHM. Það getur komið sér afar vel að geta sótt um orlofshús og fá góð kjör af flugi, gistingu og ýmsum vörum.

Hvenær er best að hætta?

Það er mismunandi hvenær fólk ákveður að hætta að vinna. Það getur farið eftir ýmsu; hvar viðkomandi starfar, hvernig heilsan er, hvort hægt sé að byrja á að minnka við sig og svo framvegis.

Flest hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur en einnig er hægt að flýta því til 65 ára aldurs eða fresta til 70 ára aldurs.

Íslenskt lífeyriskerfi er byggt upp af þremur meginstoðum:

  1. Almannatryggingar / Tryggingastofnun ríkisins
  2. Lífeyrissjóðir
  3. Einstaklingsbundinn lífeyrissparnaður

Í Lífeyrisgáttinni, upplýsingavef um lífeyrismál, er að finna greinargóðar upplýsingar um allt sem viðkemur lífeyristöku. Eins er þar hægt að panta lífeyrisfræðslu fyrir einstaklinga og hópa.

Lífeyrissjóðir

Öll þurfum við að greiða hluta af launum okkar í lífeyrissjóð. Þannig ávinnst trygging fyrir lífeyrisgreiðslum frá því fólk hættir að vinna og út ævina. Greiðslurnar endurspegla þitt framlag í gegnum árin.

Hvar sé ég réttindi mín hjá lífeyrissjóðum?

Hér er hægt að horfa á fræðslumyndband frá Lífeyrisgáttinni þar sem farið er yfir hvernig hægt er að sjá réttindi sín hjá lífeyrissjóðum.

Vissir þú?

...að TR sendir öllum sem verða 67 ára bréf þar sem bent er á rétt þeirra til ellilífeyris.

Ellilífeyrir frá TR

Þau sem eru 65 ára og eldri og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár eiga einhvern rétt á ellilífeyri frá íslenska ríkinu. Jafnframt geta eldri borgarar átt rétt á ýmsum styrkjum og uppbótum.

Í reiknivél TR er hægt að slá inn mismunandi forsendur og sjá niðurstöðu.

Fræðsla fyrir þau sem eru að hefja töku lífeyris

Hér er hægt að horfa á fræðslumyndband frá TR - þar sem farið er yfir helstu atriði við lífeyristöku; hvernig sótt er um, hverjir eiga rétt, hvaða réttindi eru í boði og hvaða leiðir geta hentað.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt