Ég missti vinnuna

Það er erfitt að standa frammi fyrir því að missa vinnuna. Flest sem upplifa atvinnumissi segja það mikið áfall. Því skiptir máli að bregðast fljótt við og taka nýja stefnu.

Uppsögn er tilkynning um slit á ráðningarsambandi. Ástæður fyrir uppsögn geta verið margvíslegar en að vera sagt upp störfum reynist fólki þó oft mjög erfitt. Þessar tilfinningar eiga vissulega fullan rétt á sér en aftur á móti er mikilvægt að taka stöðuna föstum tökum og taka ákvörðun um næstu skref. Oft getur slík stefnubreyting í lífinu falið í sér ýmis tækifæri.

Félagar í BHM eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag til að kanna réttindi sín, hvort sem þeir segja sjálfir upp starfi sínu eða er sagt upp af vinnuveitanda.

Þín réttindi

Mikilvægt er að halda því til haga að uppsögnin sem slík hefur ekki áhrif á réttarstöðu starfsfólks í starfi. Ef þér er sagt upp heldur þú áunnum veikinda- og orlofsrétti og heldur áfram að ávinna þér þessi réttindi á meðan uppsagnarfrestur er unninn.

Lengd uppsagnarfrests og framkvæmd uppsagnar getur verið mismunandi eftir því hvort viðkomandi er opinber starfsmaður eða starfar á almennum vinnumarkaði.

Félagar í BHM sem sækja um atvinnuleysisbætur eru hvattir til að merkja við á umsókn sinni að þeir vilji greiða stéttarfélagsgjald. Tengsl við stéttarfélag eru sérstaklega mikilvæg á viðkvæmum tíma.

Með því að óska eftir áframhaldandi stéttarfélagsaðild viðheldur þú mikilvægum áunnum réttindum. Til dæmis rétti til að fá þjónustu frá félaginu þínu og greiðslur úr sjóðum BHM sem geta komið sér afar vel.

Vissir þú?

...að trúnaðarmenn stéttarfélaga á vinnustað njóta svokallaðrar uppsagnarverndar. Uppsagnarverndinni er ætlað að standa vörð um mikilvæga samfélagslega hagsmuni sem ná út fyrir einstaka vinnustaði.

Atvinnuleysisbætur

Ef fólk missir vinnuna og fer ekki beint í nýtt starf á það rétt á atvinnuleysisbótum á meðan það er í atvinnuleit. Vinnumálastofnun greiðir út atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem einstaklingur sækir um rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar.

Virk atvinnuleit

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur þarf einnig að skrá sig í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Atvinnuleit getur verið heilmikið verkefni sem krefst tíma og þolinmæði. Þá skiptir máli að forgangsraða, setja sér markmið og vinna skipulega svo leitin skili árangri.

VIRK hefur tekið saman góð ráð í atvinnuleit sem gagnlegt er að skoða og fara eftir.

Sérstakar aðstæður

Lögum samkvæmt geta sérstakar aðstæður verndað fólk fyrir uppsögn upp að vissu marki.

Til dæmis er óheimilt að segja starfsmanni upp:

  • Á meðan fæðingar- og foreldraorlofi stendur.
  • Þegar starfsmaður hefur tilkynnt um þungun.
  • Vegna fjölskylduábyrgðar sem starfsmaður ber, þ.e.a.s. skyldur gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem þarfnast umsjár vegna veikinda eða fötlunar.
  • Ef starfsmaður hefur krafist leiðréttingar launa á grundvelli jafnréttislaga.

Fjármál við atvinnumissi

Við atvinnumissi er oft þörf á að endurskipuleggja fjárhaginn. Hér fer Sara Jasonardóttir, sérfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara, yfir mikilvæg atriði fjármála við slíkar aðstæður.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt