Ég veiktist/slasaðist

Því miður banka veikindi og slys stundum óvænt upp á. Þá er mikilvægt að þekkja réttindi sín vel. BHM leiðbeinir og aðstoðar sína félaga eftir bestu getu þegar aðstæður í lífinu breytast.

Veikindi eru margvísleg. Löng, stutt, líkamleg og/eða andleg. Allt launafólk á rétt á launum frá vinnuveitanda vegna veikinda og slysa í tiltekinn tíma. Fjöldi veikindadaga er þó mismunandi eftir kjarasamningum og því hvort félagi er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði.

Ef þú veikist þarftu að tilkynna yfirmanni um veikindin við fyrsta tækifæri. Vinnuveitandi getur farið fram á læknisvottorð og þá þarf að nálgast það hjá lækni. Vinnuveitandi greiðir fyrir vottorðið.

Þegar veikindadagar hjá vinnuveitanda klárast geta félagar átt rétt á greiðslum frá sjúkra- eða styrktarsjóði BHM.

Sjóðir

Í BHM eru tveir sjóðir sem hægt er að leita í þegar félagar lenda í veikindum eða slasast;

Styrktarsjóður fyrir opinberan vinnumarkað og Sjúkrasjóður fyrir almennan vinnumarkað.

Á meðal þess sem er styrkt:

  • Krabbameinsleit og áhættumat
  • Meðferð á líkama og sál
  • Áhættumat vegna hjartasjúkdóma
  • Ferðastyrkir til utanfarar vegna alvarlegra veikinda
  • Dvöl á heilsustofnunum

Athugið að sjóðirnir veita mismunandi styrki.

Vissir þú?

...að starfsfólk getur fengið launað leyfi frá störfum í allt að 5 vinnudaga á ári til að annast náinn ættingja eða einstakling sem býr á sama heimili. Það kallast ummönnunarleyfi.

Sjúkradagpeningar

Sjúkradagpeningar eru greiddir úr Sjúkrasjóði BHM og Styrktarsjóði BHM til viðbótar við sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands. Félagar eiga rétt á sjúkradagpeningum ef þeir hafa greitt iðgjöld í sjóðina í sex mánuði áður en sótt er um. Nánari skilyrði um fjölda iðgjaldagreiðslna má finna í úthlutunarreglum hvors sjóðs um sig.

Til viðbótar við eigin veikindi eða slys er einnig hægt að sækja um sjúkradagpeninga vegna ólaunaðrar fjarveru sökum:

  • Veikinda barns í allt að 3 mánuði.
  • Veikinda maka í allt að 2 mánuði sem leiðir til fjarveru frá vinnu.
  • Vegna veikinda og/eða slysa sjóðfélaga í fæðingarorlofi.

Spurt og svarað um sjúkradagpeninga Styrktarsjóðs BHM.

Spurt og svarað um sjúkradagpeninga Sjúkrasjóðs BHM.

Kulnun

Streita er eitt, kulnun er annað. Sá sem glímir við streitu á enn í erfiðleikum með að takast á við álag. Viðkomandi sér hins vegar fyrir endann á að leysa verkefnin en veit að það mun kosta mikla vinnu. Kulnun tekur við þegar úthaldið er búið og viðkomandi hefur gefið upp alla von um að geta tekist á við verkefnin. Kulnun er því annað og meira en þreyta í lok vinnudags eða vinnuvikunnar. Merki um kulnun eru einkum kvíði, svefntruflanir, gleymska, sjúkleg þreyta, tilfinningalegur doði og áhugaleysi.

Einstaklingar sem hætta störfum vegna kulnunar eru hvattir til að leita til VIRK þar sem fá má aðstoð og leiðbeiningar fagfólks á sviði endurhæfingar. Þátttaka í úrræðum til starfsendurhæfingar og endurkomu á vinnumarkað geta fylgt greiðslur endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

Vissir þú

... að sjálfstætt starfandi félagar í BHM fá greiðslur líkt og annað launafólk. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félaga er 2 mánuðir.

Kulnun - hvað höfum við lært sem nýtist okkur nú?

Hér er hægt að horfa á myndband frá Vinnueftirlitinu, Embætti landlæknis og VIRK um kulnun í starfi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt