Chat with us, powered by LiveChat
  • BHM-H+eRA+ESD+oMUR-01

Gjaldþrot fyrirtækja

Gjaldþrot fyrirtækja, fyrstu viðbrögð

Gjaldþrot er þegar fyrirtæki lýsir sig vanhæft til að greiða skuldir sínar með lögbundnum hætti. Við gjaldþrotaúrskurð er skipaður skiptastjóri í þrotabú vinnuveitanda. Skiptastjóri lýsir eftir kröfum í þrotabúið. Hefur launþegi tvo mánuði frá þeim tíma til að lýsa kröfu í þrotabúið og sjá stéttarfélög um það fyrir sína félagsmenn, óski þeir þess

Félagsmaður veitir sínu stéttarfélagi umboð til að lýsa kröfum í búið. Til að lýsa kröfum þarf stéttarfélagið að fá afrit af ráðningarsamningi og launaseðlum og útbýr í kjölfarið kröfulýsingu í búið.  Jafnframt sendir stéttarfélag staðfestingu til Ábyrgðarsjóðs launa  um að krafa verði gerð í réttmætan uppsagnarfrest fyrir hönd launþega.

Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu einhverjar eignir fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa.  Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi.  Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. lögum um gjaldþrotaskipti.

Launþegi skal samstundis skrá sig hjá atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun þegar fyrirtæki verður gjaldþrota. Slík skráning er meðal annars forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.

Nánari upplýsing má finna á vef Vinnumálastofnunar og á vef Ábyrgðarsjóðs launa. Einnig veita stéttarfélögin upplýsingar til sinna félagsmanna.

Afrgreiðsla krafna, tími, vextir og staðgreiðsla skatta

Krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa er aðeins tekin gild berist hún sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaðinu þar sem skiptastjóri hefur ákvarðað kröfulýsingarfrest.  Heimilt er þó að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða ef sýnt er fram á að ekki hafi verið hægt að gera hana fyrr.

Að afstöðnum skiptafundi sendir skiptastjóri Ábyrgðasjóði launa umsögn yfir þær kröfur sem samþykktar hafa verið sem forgangskröfur í þrotabúið.  Venjulega líða um 3-4 mánuðir frá gjaldþrotaúrskurði þar til umsögn skiptastjóra berst sjóðnum.  Að því loknu tekur sjóðurinn að öllu jöfnu afstöðu til krafnanna innan fjögurra vikna.  Ef ekki er hægt að taka afstöðu innan frestsins er kröfuhafa það tilkynnt og gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Kröfur sem sjóðurinn greiðir bera vexti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Vextirnir reiknast frá gjalddaga krafnanna til þess dags sem þær eru greiddar.

Ábyrgðasjóði launa ber skylda til að reikna staðgreiðslu skatta af launakröfum og kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti og skila til innheimtumanns í samræmi við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Eigi launamaður ónýttan persónuafslátt á því ári sem afgreiðsla fer fram er hægt að nýta hann til frádráttar reiknaðri staðgreiðslu.

Vangoldin laun og bætur vegna launamissis á uppsagnarfresti

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu vangoldinna vinnulauna þrjá síðustu starfsmánuði fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda og falla innan ábyrgðatímabils.  Til vinnulauna teljast greiðslur vegna umsamins vinnuframlags launamanns, þ.á.m. launauppbætur, í hlutfalli við þann tíma sem krafa nýtur ábyrgðar sjóðsins.

Sjóðurinn ábyrgist einnig kröfur launamanna um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eða í uppsagnarfresti.  Greiðslan er háð því að sýnt sé fram á að launamaður hafi verið á vinnumarkaði og í virkri atvinnuleit á umræddum tíma, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun (Vinnumálastofnu).  Miðað er við að atvinnuleit hefjist innan tveggja vikna frá starfslokum og standi markvisst yfir þann tíma sem ábyrgð sjóðsins nýtur við.  Forsenda ábyrgðar sjóðsins er að vinnuveitandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota.

Hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna vangoldinna launa eða bóta vegna slita á ráðningarsamningi, sem falla í gjalddaga eftir 1. júlí 2018, er kr. 633.000 kr. fyrir hvern mánuð. Hafi vinnuveitandi greitt upp í launakröfurnar fyrir gjaldþrotaúrskurð koma þær greiðslur til frádráttar.  Á sama hátt koma greiddar atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur á uppsagnarfresti til frádráttar kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.

Vangoldið orlof

Launamenn eiga rétt á greiðslu áunnins orlofs sem fallið hefur í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda. Hámarksábyrgð á greiðslu áunninna orlofslauna er kr. 1.014.000.

Orlof vegna greiðsluerfiðleika

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu orlofslauna skv. lögum nr. 30/1987 í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur ekki staðið skil á greiðslu þeirra, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Ábyrgð sjóðsins nær til greiðslu orlofs sem áunnist hefur á síðustu 18 mánuðum.

Launamenn sjálfir eða stéttarfélög í umboði þeirra geta sótt um greiðslu orlofslauna á þar til gerðu eyðublaði (orlofslaunakrafa).  Greiðslan er háð staðfestingu réttmætis kröfunnar og að ekki hafi verið gerð krafa um gjaldþrotaskipti.  Standi ekkert í vegi fyrir greiðslu kröfunnar tekur að öllu jöfnu um fjórar til fimm vikur að fá hana afgreidda.