Skip to content

Áhættumat

Á vinnuveitanda hvílir skylda að leggja mat á og hafa stjórn á hvers kyns áhættu fyrir heilsu starfsfólks, þ.m.t. vegna skipulagsbreytinga.

Þegar breytingar eru gerðar á rekstri fyrirtækis eða stofnunar þarf að meta hvort breytingin kunni að hafa áhrif á öryggi og heilbrigði starfsfólks. Sem dæmi má nefna nýtt skipulag vinnutíma, nýr vélbúnaður og ferlar í framleiðslu vöru, umbylting í veitingu þjónustu með stafrænni tækni, flutningur í nýtt húsnæði og endurbætur eða breytingar á vinnurýmum. Breytingar í starfsmannahaldi, þ.m.t. uppsagnir eru einnig meðal áhættuþátta að því er varðar sálfélagsleg áhrif á heilsu fólks sem verður fyrir atvinnumissi og þeirra sem halda störfum sínum

Atvinnurekandi ber ábyrgð á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 65. gr. laga um aðbúnað og hollustuhætti. Í sömu grein segir að endurskoða skuli áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þegar breytingar á vinnuumhverfi starfsfólks breyta forsendum hennar.

Vinna við áhættumat þarf að mestu að fara fram á sama hátt og við áhættumat í venjulegum rekstri. Stóri munurinn er sá að það er ekki alltaf raunverulegur vinnustaður eða aðstæður til að meta þar sem til stendur að breyta og þróa vinnustaðinn.

Samráð skal haft við fulltrúa starfsmanna vegna áhættumats og áætlunar um öryggi og heilbrigði. Sú skylda er áréttuð í reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006 en í 16. gr. er lagt fyrir vinnuveitanda að leggja fyrir öryggisnefnd fyrirtækis til umfjöllunar áætlanir og áform um meiriháttar framkvæmdir eða aðrar þær breytingar á rekstri fyrirtækisins sem áhrif geta haft á vinnuaðstæður á vinnustað. Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði þegar breytingar á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum breyta forsendum hennar, sbr. 30. gr. reglugerðarinnar.

Við endurskipulagningu rekstrar getur einnig reynt á rétt starfsmanna á heilsufarsskoðun samkvæmt 67. gr. laga um aðbúnað og hollustuhætti, sbr. 31. gr. reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Slíkar heilsufarsskoðanir skulu taka mið af áhættumati viðkomandi fyrirtækja og starfsgreina og einnig þeim reglum sem í gildi eru um mismunandi starfshópa.

Á grundvelli slíkrar heilsufarsskoðunar, og að teknu tilliti til áhættumats sem gert er í aðdraganda skipulagsbreytinga, má grípa til viðeigandi ráðstafana til verndar heilsu starfsmanna gegn álagstengdum sjúkdómum. Heilsufarsskoðun er liður í fyrirbyggjandi ráðstöfunum þar sem heilsufarsáhættur eru greindar.